04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

Um þingsköp

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Þann 8. nóv. s.l. leyfði ég mér að leggja fram á þskj. 36 fsp. til forsrh. um kaup opinberra stofnana og fyrirtækja á laxveiðileyfum. Í þingsköpum segir í 32. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðh. forseta það eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fsp. var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið. Skal prenta fsp. og svar í Alþingistíðindum.“

Ég vildi fá svar við því hjá hæstv. forseta, þar sem nú eru liðnir 20 virkir dagar frá því að mál þetta var lagt fram, hvort hann hefur gengið eftir því, og ef svo er, hver svör hæstv. forsrh. hafi verið eða með hverju það er rökstutt að svona langur dráttur verður á þessu skriflega svari.