04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

125. mál, símamál

Fyrirspyrjandi ( Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. fyrir svarið og þá hreinskilni sem fram kemur í svarinu, þar sem hann viðurkennir að undir þeim kringumstæðum sem voru fyrir hendi í okt. s.l., þegar opinberir starfsmenn fóru í verkfall, hafi Póst- og símamálastofnunin ekki haft vald eða aðstöðu til að tryggja það að símaleyndar væri gætt eins og vera ber. Þetta er auðvitað hið alvarlegasta mál. Það á auðvitað að vera hafið yfir allan vafa, jafnvel þótt verkföll séu, að notendur Pósts og síma megi treysta því að trúnaðar og friðhelgi sé gætt.

Mér er persónulega kunnugt um það að á meðan á verkfallinu stóð var telexþjónustan trufluð, telexskeyti voru stöðvuð í miðjum klíðum og það getur auðvitað ekki gerst nema þar séu aðilar að ritskoða, fylgjast með skeytum sem send eru út hjá óopinberum aðilum. Enda er það líka viðurkennt af hálfu póst- og símamálastjóra í þeirri frétt sem ég las hér áðan að teknar hafi verið stikkprufur á meðan á verkfallinu stóð, stikkprufur af telexskeytum. Og án þess að það hafi verið nánar útskýrt hér af ráðh., sem kannske er ekki von, þá verður auðvitað að krefja póst- og símamálastjóra frekari svara um hvað átt sé við með því að þessi stofnun sé að taka stikkprufur af skeytum og þá um leið samtölum sem fram fara milli einkaaðila úti í bæ eða milli landa.

Ég spyrst fyrir um það í þessari fsp. hvort sérstakur búnaður sé viðhafður til þess að símaleyndar sé gætt. Það kemur ekki fram í svari ráðh. en hann vísar til þess að þessi mál séu til endurskoðunar og er allt gott um það að segja. En það á auðvitað að vera hægt nú á dögum að búa svo um hnútana, búa svo um þessi tæki, símatækin og telextækin, að ef einhver óviðkomandi aðili eða Póst- og símamálastofnunin sjálf er að trufla þessi símtöl eða skeytasendingar og brjóta þar með trúnað, þá ættu að heyrast hljóðmerki eða vera gefin einhver önnur merki sem væru vísbending um það fyrir notendur að þeir séu ekki einir á línunni.

Ég ítreka það að þetta er hið alvarlegasta brot og útilokað að hægt sé að una við það að fullkominnar símaleyndar sé ekki gætt á þessum vettvangi. Fólk verður að geta treyst því fullkomlega.