04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

126. mál, skipun nýs útvarpsstjóra

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Eins og ég tók fram efast ég ekkert um lögmæti þessa verks. Hins vegar má ljóst vera, þar sem ég taldi ástæðu til að leggja fram þessa fsp., að ég hefði vissar efasemdir um þessa stöðuveitingu því að hversu hæfur sem viðkomandi kann að vera, þá er með skipan hans t.d. gengið fram hjá starfsmanni sem unnið hefur hjá þessari stofnun meira og minna í 35 ár. Sá maður hefur starfað á nánast öllum deildum Ríkisútvarpsins, fréttastofu, tónlistardeild, leiklistardeild, verið fréttaþulur, dagskrárþulur, dagskrárgerðarmaður til fjölda ára og hefur t.d. ferðast mikið um landið og skapað tengsl við fólk úti um allt land. Hann er nú deildarstjóri og síðasta rós í hans hnappagati er fyrsta og eina landshlutaútvarpið okkar, útvarpsstöðin á Akureyri, sem hann hefur unnið þar upp svo að segja úr engu og á þann hátt að flestir eru ánægðir með. Þessi umsækjandi er gerkunnugur öllum innviðum Ríkisútvarpsins, starfsmönnum þess og starfsháttum og hefur auk þess þann stóra kost að vera óháður í stjórnmálum. Í mínum huga og margra annarra er því ekki spurning hver hafði mesta starfsreynslu af umsækjendum. Hafi menntun átt að vega þungt, þá voru meðal umsækjenda miklu menntaðri menn en sá sem skipaður var, m.a. í fjölmiðlafræðum. Hér virðist mér því sem eðlileg matsatriði hafi verið látin víkja. En gert er gert og til þessarar umr. var ekki stofnað af neinum illvilja og ég vil að lokum óska nýráðnum útvarpsstjóra velfarnaðar í starfi.