04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

126. mál, skipun nýs útvarpsstjóra

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vildi aðeins mótmæla því að ég hefði verið að halda einhverja framboðsræðu hér. Ég spurði um forsendur fyrir þessari veitingu sem mér fannst ekki liggja í augum uppi. Þar sem þær einar forsendur voru gefnar upp að viðkomandi hefði verið talinn hæfastur þótti mér við hæfi að nefna þær forsendur sem ég taldi eðlilegast að lægju til grundvallar, þ.e. hvað varðar menntun eða starfsreynslu. Hafi þetta verkað sem framboðsræða, þá var það ekki meiningin og ég vil taka fram að hv. síðasta ræðumanni hefur missýnst ef hann heldur að ég hafi verið að hrista höfuðið hér áðan. Það var a.m.k. ekki meining mín.