04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

126. mál, skipun nýs útvarpsstjóra

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. taldi að það ætti ekki að vera smekksatriði hver væri skipaður útvarpsstjóri, en mér þykir það í meira lagi spurning um smekksatriði hvort menn eiga að gera grein fyrir máli sínu með þeim hætti sem hv. þm. gerði, sérstaklega í síðari ræðu sinni. Mér þótti sú ræða vera sérstaklega til þess fallin að varpa rýrð á hinn nýskipaða útvarpsstjóra. M.a. gat fyrirspyrjandi að til greina kæmi starfsreynsla og þekking á stofnuninni sem um væri að ræða. Það er alveg ljóst að hinn nýi útvarpsstjóri er gerkunnugur þeirri stofnun, bæði sem fyrrverandi starfsmaður, þar sem hann gat sér mjög gott orð, og í stjórnunarstarfi sem formaður útvarpsráðs. Hann hefur auk þess margháttaða reynslu af stjórnarstörfum. Samborgarar hans hafa sýnt honum mikið traust á undanförnum árum. Hann hefur verið farsæll í starfi. Hann er gerkunnugur fræðslumálum líka. Þann þátt tel ég miklu skipta í rekstri Ríkisútvarpsins nú á næstu árum.