04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

115. mál, leiðsögukennarar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðh. svör hennar. En ég held að það sé nauðsynlegt að sinna þessu hlutverki í námi kennara, ekki bara kennaranna vegna heldur ekki síst barnanna sjálfra vegna. Og það gildir þá í raun einu hvaða skipulagsform er tekið upp, svo lengi sem þetta verður starfhæft, því að mistök í starfi kennarans er erfiðara að bæta en í ýmsum öðrum störfum. Verið er að vinna með börnum og unglingum á viðkvæmu æviskeiði og því er nauðsynlegt að hver kennari, sem er að hefja kennslu, geti leitað til þeirra sem hafa reynslu í starfi, og ekki er síður mikilvægt að þeim sem taka að sér slíka leiðsögu sé ætlaður til þess tími.

Það er ábyrgðarhluti að láta tilviljun ráða hvernig til tekst, en staðreyndin er sú að málum er svo háttað í dag að það er tilviljunum háð og velvild þeirra kennara sem eru á hverjum stað hvort og þá hvernig nýliðum í kennarastarfi er sinnt í skólunum. Þeir sem þekkja til starfa kennarans í skólunum vita að sjaldnast er tími aflögu meðan hann starfar við kennslu þess hóps sem honum er ætlað að bera ábyrgð á. Það segir sig því sjálft að störfum hlaðinn kennari á lágum launum hefur ekki tíma til að huga að því hvernig nýliðanum í næstu stofu gengur. Ég mundi því álíta að leiðsögukennari sé mjög þarfur. Hann veitir hinum nýja kennara þá leiðsögu sem nauðsynleg er og með því stuðlar hann að því að vel takist til með það vandasama starf sem nýliðinn er að takast á við, það að fræða börn og unglinga, en ekki síður að leiða þau til aukins þroska.

Mér finnst öll þau rök sem ég hef talið upp hér að framan styðja það hversu nauðsynlegt er að framfylgja þessum ákvæðum sem eru til staðar í lögum og reglugerðum og því vona ég að einhver skipulagsbreyting verði til þess að þetta komist til framkvæmda.