04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

140. mál, símalyfseðlar

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóðar upplýsingar og svör hans og fagna því, sem kom fram í ræðu hans, að verið er að endurskoða reglurnar með það í huga að koma í veg fyrir misnotkun.

Það er vissulega rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að hér var um ólöglegt athæfi að ræða og ég vil ekki mæla bót því atferli blaðamannanna að stunda rannsóknarblaðamennsku með ólöglegum aðferðum. Það voru því eðlileg viðbrögð landlæknis að kæra athæfið. Annað gat hann ekki gert. En hitt verða menn að viðurkenna að tilgangur blaðamannanna var góður, þ.e. að benda á brotalöm í kerfinu sem erfitt hefði verið að sanna með öðrum hætti. Það mætti e.t.v. spyrja hvort tilgangurinn hafi ekki helgað meðalið að þessu sinni.

Ég sé ástæðu til að þakka blaðamönnunum fyrir að vekja athygli á þessu máli þó að með vafasömum hætti hafi verið að staðið. Og ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh. og ítreka nauðsyn þess að þessar reglur verði hertar svo að þessi þjónusta geti orðið þeim að liði sem þurfa mest að njóta hennar.