04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

145. mál, útboð Vegagerðar ríkisins

Heilbr:

og trmrh. (Matthías Bjarnason): Herra forseti. Áður en vikið er að þeim tveimur spurningum sem í fsp. eru er rétt að gera nokkra grein fyrir fjárveitingu til vegagerðar, áættunum og tilboðum. Þegar fjármagni er skipt á verkefni í vegáætlun liggur að jafnaði ekki fyrir endanleg hönnun og kostnaðaráætlun verkefna. Reynt er að hafa frumáætlanir til um sem flest verkefni, en það tekst ekki alltaf og er þá byggt á grófara kostnaðarmati. Endanleg kostnaðaráætlun er síðan gerð áður en framkvæmd hefst eða útboð fer fram. Sú kostnaðaráætlun getur verið bæði hærri og lægri en frumáætlun eða kostnaðarmat. Venjulega eru frávik ekki mjög stór þó að dæmi séu til þess.

Í kostnaðaráætlun er verki skipt upp í marga verkþætti og hver þeirra skilgreindur með áætluðu magni. Í hverjum verkþætti eru einingarverð áættuð. Þau einingarverð miðast við taxta skv. samningum fyrir menn, vinnuvélar og bifreiðar og afköst skv. reynslu frá eigin verkum Vegagerðarinnar og verktakaverkum. Einnig er miðað við að lögum og reglum um aðbúnað verkafólks sé fullnægt. Kostnaðaráætlun fyrir útboðsverk tekur einungis til þeirra verkþátta sem verktaki á að vinna, þ.e. hönnun, eftirlit, landbætur, efnistökugjald og þess háttar er utan áætlunar. Þá er algengt að Vegagerð ríkisins leggi til efnivörur, svo sem ræsarör, asfalt o.fl. Kostnaðaráætlun er gerð á því verðlagi sem er í gildi þegar útboð fer fram. Allt þetta miðar að því að kostnaðaráætlun byggi á sambærilegum grunni við tilboðsbjóðanda. Endanlegt uppgjör við verktaka getur vikið frá tilboði hans og verða hér nefndar algengustu orsakir þess:

1. Verðbætur. Í útboðsgögnum eru tilgreindar reglur um það hvernig reikna skuli verðbætur á verktíma. Reglurnar eru einfaldar og eiga að endurspegla raunverulegar hækkanir í verkum af þessu tagi.

2. Breytingar. Í jarðvinnu er útilokað að komast hjá breytingum af ýmsum orsökum. Auk þess hefur verkkaupi rétt til að auka eða minnka verk að ákveðnu marki án þess að einingarverð breytist.

3. Kröfur verktaka. Reynist aðstæður erfiðari í verki en ráða má af útboðsgögnum, eða útboðsgögnum er áfátt að öðru leyti, getur verktaki krafið verkkaupa um greiðslu þess aukakostnaðar sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa.

Um 1. og 2. lið er það að segja að þeir eru mjög breytilegir milli verka og hafa stundum hækkað framkvæmdakostnað verulega. Rétt er að hafa í huga að slíkar hækkanir kæmu einnig fram þó að Vegagerð ríkisins framkvæmdi verkið. Liður 3 er hins vegar verulega bundinn verktakaverkum. Hækkanir af hans völdum eru þó yfirleitt hlutfallslega litlar eða frá óbreyttu til 5%. Um alla þrjá liðina gildir að ekki hafi verið gerð heilleg úttekt á stærð þeirra, en stefnt er að því að gera það nú í vetur.

Þá er komið að spurningunum tveimur. Um þær báðar gildir að kostnaður skv. uppgjöri við þá þætti sem um er spurt liggur ekki fyrir fyrr en eftir næstu áramót. Verður því á þessu stigi að svara spurningunum óbeint.

Hver er heildarkostnaður við gerð útboðsgagna, hönnun og eftirlit með útboðsverkum hjá Vegagerð ríkisins við þau verk sem unnin eru á þessu ári? Hönnun og gerð útboðsgagna fyrir verk þau sem hér um ræðir má áætla að kosti 3–6% af framkvæmdakostnaði. séu kostnaðaráætlanir útboðsverka hjá Vegagerð ríkisins á þessu ári lagðar til grundvallar er líklegur kostnaður 12–14 millj. kr. Eftirlitskostnað má áætla nokkru hærri eða 4–8% af framkvæmdakostnaði. Skv. því gæti kostnaður við eftirlit útboðsverka á þessu ári verið 16–18 millj. kr. Hönnun á að vera sú sama hvort sem verk er unnið af Vegagerð ríkisins eða boðið út, en nokkur aukakostnaður verður við útboðsgögn fyrir útboðsverk. Þetta er þó lítill hluti þeirrar upphæðar sem nefnd er hér að ofan. Eftirlitskostnaður er hins vegar miklu minni við eigin verk en við útboðsverk. Ekki er ólíklegt að hann sé um eða innan við helmingur af eftirlitskostnaði við útboðsverk.

Síðari spurningin: Hver er áætlaður mismunur (hagnaður) raunverulegs framkvæmdakostnaðar og áætlaðs kostnaðar við þessi verk? Sé um hagnað að ræða, hvernig hefur honum verið ráðstafað?

Áætlaður kostnaður við þau útboðsverk sem koma til greiðslu á þessu ári er um 249 millj. kr. Séu lögð saman lægstu tilboð í þessi verk koma út um 175 millj. kr. eða um 70% af áætluðum kostnaði. Miklar sveiflur eru í lægstu tilboðum einstakra verka sem hlutfalls af kostnaðaráætlun, þau lægstu undir 50%, þau hæstu yfir 100%. Frá þessum mun mætti draga aukakostnað vegna útboðsgagna, eftirlits og krafna verktaka. Þó að það sé gert má ætla að eftir verði mismunur upp á 20–25% af áætluðum kostnaði. Það svigrúm sem þannig fæst er notað til nýbygginga og þá einkum með þrennum hætti.

1. Í nokkrum tilvikum var endanleg kostnaðaráætlun fyrir útboðinn áfanga hærri en fjárveiting. Þar nýtist svigrúmið til að ná áfanganum.

2. Svigrúmið var notað til að bæta við þann áfanga sem boðinn var út.

3. Mismunur var notaður til að ráðast í nýjar framkvæmdir á viðkomandi vegi. Í þeim tilvikum er haft samráð við þm. viðkomandi kjördæma.

Ég vil einnig láta það koma hér fram að með auknum útboðum, þrátt fyrir hlutfallslega minnkun fjármagns til vegagerðar bæði vegna samdráttar í þjóðarframleiðslu og eins að ekki var farið að fullu í þá viðmiðun sem langtímaáætlun í vegagerð gerir ráð fyrir, þá hefur orðið magnaukning í nýframkvæmdum vega á þessu ári. Það tel ég vera mjög ánægjulega þróun. T.d. hvað varðar slitlög á vegum um landið, þá hefur tekist þrátt fyrir þennan samdrátt að ná þeim áfanga að lagt hefur verið slitlag á um 163 km á þessu ári. Því er þó ekki að leyna að 20–30 km af þessum slitlögum eru ekki með tvöföldum akreinum. Þrátt fyrir það hefur náðst þarna mjög ánægjulegur árangur. Hins vegar eru verktakastarfsemi og útboð í raun og veru enn að slíta barnsskónum svo að ýmislegt getur farið úrskeiðis. En þá er að læra af reynslunni og það tel ég að þeir menn sem að þessum málum hafa unnið, sérstaklega hjá Vegagerðinni, hafi gert.