04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

145. mál, útboð Vegagerðar ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er vissulega erfitt að gera sér nú á stundinni grein fyrir þessum svörum og einstökum tölum. Ég skil það mætavel vegna tímasetningarinnar á þessari fsp. að þessar lokatölur eru vitanlega ekki komnar. Mér þykja þessar tölur varðandi gerð útboðsgagna í lægri kantinum. Ég held að þær séu nú eins lágar og mögulegt er að koma þeim og sömuleiðis eftirlitið, vegna þess að ég veit að varðandi sum verk er um hærri tölur að ræða en 6% í gerð útboðsgagna og einnig að eftirlitið hefur farið yfir 10% þó að þetta kunni að verða meðaltalið. Þetta verður þeim mun dýrara, hærri prósenta eftir því sem verkin eru smærri sem út eru boðin og hagkvæmnin af útboði hinna smærri verka því þeim mun minni.

Það kom svo fram í máli hæstv. ráðh. að ekki væri búið að reikna inn í ýmsar aukakröfur verktakanna. Það væri áætluð einhver upphæð í þær en aukakröfurnar væru eftir. Mér segja fróðir aðilar að það sé dágóð atvinna margra lögfræðinga hér í borg að fara ofan í útboðsverk fyrir verktaka, fara ofan í smáa letrið ef svo mætti segja, og finna agnúa og varnagla sem í þessu eru settir og ná þannig út ærnum viðbótarupphæðum frá opinberum aðilum- og einkaaðilum eflaust líka. Ég fullyrði ekkert um þetta hér, en þeir menn sem þekkja glögglega til segja að hér sé um dágóða atvinnugrein að ræða. Og ég veit að varðandi ýmis þau verk sem ég þekki til hafa komið upp aukakröfur.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér í fsp.-tíma um Vegagerð ríkisins, sem er að mörgu leyti til fyrirmyndar í þessum efnum, ekki ræða um aðrar opinberar stofnanir, ég skal forðast það, og útboð þeirra og verklag í kringum útboð. En í ljósi ýmiss af því sem hefur verið að gerast á Austurlandi varðandi útboð þeirra, meðferð þeirra og endalokin þar, og í ljósi þess byggðavanda sem ég held að þessi óhefta útboðsstefna geti valdið, þá lýsi ég því yfir að ég mun seinna í vetur vinna ásamt öðrum að ákveðinni tillögugerð um verktilhögun í þessu efni. Það kann að vera nauðsynlegt líka að reyna að fá enn nánari upplýsingar um endanlegt uppgjör útboðsverka og rauntölur þar um leið, þegar líður fram á næsta ár. Ég segi það að það verður ekki unað við það af minni hálfu þegjandi að stórir og voldugir verktakar með yfirburða aðstöðu vegna stórverkefna, m.a. í virkjunum, geti í skjóli þess gert út af við smærri verktaka úti á landsbyggðinni og í framhaldi af því brotið niður eðlilega þjónustustarfsemi þar, svo sem mér sýnast allar horfur á ef ekkert verður að gert. Ég held að langtíma hagkvæmni verði þá minni en engin og það skiptir auðvitað mestu máli. Ég viðurkenni hins vegar gildi útboðsstefnu varðandi hin stærri verk í flestum tilfellum, þó að ég hafi býsna mikinn fyrirvara á um þetta í heild sinni, vegna sannana sem ég hef annars vegar um þær tölur sem auglýstar eru rækilega þegar útboðin eru opnuð, og hins vegar þeirra rauntalna sem koma svo í ljós þegar allt er skoðað niður í kjölinn. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að lesa hér upp svohljóðandi tillögu sem mér barst nú í hendur frá sveitarstjóra Fellabæjar, Svölu Eggertsdóttur. Tillagan var samþykkt samhljóða á oddvitafundi Héraðs og Borgarfjarðar á Egilsstöðum 9. nóv., þar sem skorað er á samgrh. og vegamálastjóra að breyta reglum varðandi útboð á smáum framkvæmdum í vegagerð á þá leið að framkvæmdirnar verði ekki boðnar út á landsvísu. Verktakar í hverjum fjórðungi landsins fái að keppa um verkefni innan síns svæðis. Stærðarmat verkefnis miðist t.d. við 10–15 millj. af áætluðum kostnaði. Ekki þarf að útskýra það fjárhagslega gildi sem þetta hefur fyrir svæðið. Einnig styrkir þetta stöðu atvinnumála og atvinnufyrirtæki sem hverjum fjórðungi eru nauðsynleg við sín heimaverkefni.

Ég held að ég geti tekið undir hvert orð í þessari samþykkt og læt máli mínu lokið þar með og þakka hæstv. ráðh. svör hans.