04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

145. mál, útboð Vegagerðar ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það gefst naumast tóm til að ræða hér sem vert og skylt væri þann málaflokk sem þó er spurt um, þar sem eru útboð og allt sem að þeim lýtur í sambandi við framkvæmdir að vegamálum. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. samgrh. að þegar vegáætlun kemur hér til meðferðar á hv. þingi seinna í vetur taki menn þess í stað ærlega lotu í að ræða þessi útboðsmál og þá verði reynt að móta einhverja stefnu í þessum efnum. Ég held nefnilega að hér sé að mörgu leyti varhugaverðari þróun að eiga sér stað en menn gera sér grein fyrir. Ég er ekki endilega sammála hæstv. samgrh. um að það sé skynsamlegt og rétt að bjóða sem flest verk út og þá um allt landið og óbundið. Ég held að mörg smærri byggðarlög standi einfaldlega frammi fyrir því að sá þáttur framkvæmda sem hefur gert þeim kleift að eiga ákveðin atvinnutæki og halda þeim í byggðarlaginu er nú að hverfa út úr höndunum á þeim. Og niðurstaðan verður sú í mörgum tilfellum, óttast ég, að þessi byggðarlög standa uppi tækjalaus. Þau hafa ekki af öðrum verkefnum nægjanlegt framboð til þess að standa undir dýrum tækjum og þetta mun síðan bitna á þessum byggðarlögum í öðrum tilfellum. Ég þekki t.d. dæmi þess að byggðarlag, sem þarf á vörubifreiðum að halda til fiskflutninga árið um kring, þó í litlum mæli sé, það er að missa þessi tæki út úr byggðarlaginu vegna þess að aðrar framkvæmdir eru núna boðnar út og þeir halda ekki þessum tækjum. Byggðarlögin verða einfaldlega ekki samkeppnisfær og það mun svo koma niður á öllum öðrum flutningum og allri annarri vélavinnu sem hefur getað verið þarna með því að hafa þetta allt saman, en yrði sem sagt úr sögunni ef þessi háttur verður á hafður. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að skoða þessi mál líka, hvort við erum þá ekki að tapa einhverju öðru um leið og við ynnum eitthvað með þessari óheftu útboðsstefnu, þessari frjálshyggju í útboðsmálum, hæstv. samgrh., ef ég má orða það svo.