04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja frá síðasta þingi till. til þál. um lífeyrisréttindi húsmæðra. Hún er á þskj. 33 og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja frv. til l. um lífeyrissjóð fyrir þær húsmæður sem ekki hafa þegar öðlast rétt til aðildar að lífeyrissjóði.“

Þessi till. var upphaflega lögð fram á síðasta þingi og þar urðu um hana ítarlegar umr., en því miður varð hún ekki útrædd. Ég vona að nú takist að afgreiða hana. Ég mun ekki halda langa framsögu fyrir þessu máli nú og vísa til þeirra umr. sem urðu á síðasta þingi og þeirrar framsöguræðu sem ég lét fylgja henni þá.

Ég held að allir geti verið sammála um að hér sé hreyft þörfu máli og brýnt sé að bæta úr því réttleysi sem nokkrir aðilar í þjóðfélaginu eiga við að búa í lífeyrismálum.

Tillögur varðandi lífeyrismál hafa verið fluttar hvað eftir annað hér á Alþingi og m.a. er komin fram hér á þessu þingi till. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl. sem gengur nokkuð í sömu átt og till. mín. Þó er mín till. að hluta til öðruvísi en sú lausn sem þá var bent á og hún tekur yfir fleiri aðila en sú till. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir o.fl. flytja.

Þá er líka komin fram á þskj. 77 á þessu þingi beiðni um skýrslu frá fjmrh. um heildarendurskoðun lífeyrismála, en það er verkefni stjórnskipaðrar nefndar sem setið hefur að störfum síðan 1976 og er meðgöngutími hennar orðinn býsna langur.

Ég held að okkur megi vera ljóst að misrétti í lífeyrismálum er eitt það alvarlegasta misrétti sem við eigum við að stríða í þessu þjóðfélagi og raunar var stigið á síðasta þingi mikilvægt spor í rétta átt hvað varðaði lífeyrisréttindi húsmæðra í sveitum. Allflestir landsmenn hafa þegar öðlast rétt til aðildar að lífeyrissjóðum, en kjör þeirra eru mjög misjöfn þar sem sumir þeirra eru verðtryggðir en aðrir ekki og það skapar í sjálfu sér mjög mikið misrétti. Þó eru þeir enn verst settir sem hvergi eiga höfði sínu að halla í þessu efni. Heimavinnandi húsmæður eru án efa stærsti hópurinn sem stendur utan lífeyrissjóða og nýtur ekki annars lífeyris en ellilauna sem að sjálfsögðu nægja engan veginn til framfærslu.

Ég vil leggja áherslu á að húsmæður hafa unnið á heimilum sínum og fjölskyldna sinna og hafa innt af hendi mjög mikilvæg störf og áreiðanlega ekki minna virði fyrir þjóðfélagið en þó að þær hefðu unnið störf sem þær hefðu þegið fyrir laun úr hendi atvinnurekenda. Ég vil minna á að við erum stolt af því að fjölskyldan skuli vera hornsteinn þjóðfélagsskipunar okkar. Vinna við barnauppeldi, heimilisstörf og hjúkrun í heimahúsum er mjög mikilvæg og alls ekki léttvægari en önnur störf sem innt eru af hendi utan heimilis. Þess vegna verður að telja það réttmætt að húsfreyjur, sem þegar eru komnar á eftirlaunaaldur, fái lífeyrisrétt.

Ég hygg að eina leiðin til að koma því svo fyrir sé að stofna sérstakan sjóð. Það er óhjákvæmilegt að ríkið leggi fram stofn að þessum sjóði til þess að hann geti strax tekið til starfa og farið að sinna hlutverki sínu. Það er ekki óeðlilegt að ríkið leggi fram fjármagn þar sem þessar húsfreyjur hafa í mjög mörgum tilfellum sparað ríki og sveitarfélögum verulegar fjárhæðir með því að annast börn sín sjálfar. — Það er kannske það verkefni sem mikilvægast er af þeim sem mannfólkið tekur sér fyrir hendur, að annast afkvæmi sín og sjá um uppeldi þeirra og að þroski verði sem bestur. Það er áreiðanlegt að af þeim störfum sem maður amstrar við í hinu daglega lífi er þetta hið mikilvægasta.

Ríkið getur auðvitað ekki staðið eitt undir svona sjóði. Það verður að gera ráð fyrir því að heimavinnandi húsmæður greiði eitthvert tillag til sjóðsins í framtíðinni og þær eldri fái einnig heimild til að kaupa sér aukinn rétt, sem þess kynnu að óska og hafa hentugleika til. Á það var bent í umr. í fyrra að e.t.v. hefðu heimavinnandi húsfreyjur ekki fjárráð til að snara út til að kaupa sér rétt eða gjalda í lífeyrissjóð. En ég vil nú vona að svo illa sé ekki ástatt nema þá í einhverjum undantekningartilfellum. Þess vegna tel ég að það sé nauðsynlegt að einhver greiðsla komi fram frá þeim sem réttinn eru að öðlast.

Hér höfum við strengt þess heit hvað eftir annað og á Alþingi hefur verið mikill vilji til þess að koma á fót sameiginlegum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn og í þá átt held ég að við eigum að stefna. Ég held að við myndun þessa sjóðs ætti að hafa í huga að sú yrði frambúðarstefnan og löggjöf um hann yrði að vera þannig úr garði gerð að vel hentaði til sameiningar öðrum lífeyrissjóðum og gæti e.t.v. orðið hvati að slíku í framtíðinni. Ég held að sameining lífeyrissjóða takist aldrei nema með því að sjá nokkuð langt fram í tímann og það þurfi mikinn aðlögunartíma til þess að af slíkri sjóðsstofnun geti orðið. Það væri hægt að hugsa sér að ákveða með lögum að allir lífeyrissjóðir skyldu sameinast, t.d. eftir 15 ár eða kannske 10 ár, og undirbúningurinn gæti verið með þeim hætti að frá ákveðnum degi greiddu allir landsmenn á starfsaldri tillag í slíkan lífeyrissjóð. Þeir sem óskuðu þess gætu fært réttindi sín úr þeim lífeyrissjóðum sem þeir væru í, en eldri sjóðirnir hefðu þó svigrúm til að starfa áfram um skeið til að greiða lífeyri þeirra sem þar eiga réttindi meðan þeim entust fjármunir eða þangað til samkomulag næðist um inngöngu sérsjóða í lífeyrissjóð allra landsmanna.

Ég er að sjálfsögðu tilbúinn að ljá máls á alls konar breytingum á þessari hugmynd og ég er tilbúinn að standa að sameiningu tillagna ef hv. n., sem fær þetta til skoðunar, kynni að þykja það betur henta. En ég tel að kjarninn sé sá að ekki sé vansalaust fyrir Alþingi að horfa upp á það ár eftir ár að það ófremdarástand viðgangist, sem vissulega er í lífeyrismálum þessa þjóðfélagshóps. Um það væri hægt að setja á langt mál. Ég mun ekki gera það og verða við þeirri ósk, sem forseti setti fram snemma í dag, að menn væru ekki að lengja mál sitt fremur en nauðsyn krefði, og mun láta hér máli mínu lokið.

Ég legg til að þegar þessari umr. lýkur hér í dag verði umr. frestað og málið sent hv. allshn. til athugunar.