04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það hefur verið sagt um skyldur þm. að þær væru frekar siðferðilegar en lagalegar og það hefur verið sagt um ábyrgð þm. að hún sé frekar pólitísk en lagaleg. Þetta leiðir af eðli þingmennskunnar og þess starfs sem þm. er falið að rækja. M.a. með tilliti til þessa fer vel á því að menn leitist við að stilla í hóf umr. um þingsköp í Alþingi. Það getur verið þörf að ræða þingsköp og ástæða til. En það færi vel á því að við leituðumst við að stilla þeim umr. í hóf. Frekar ætti hver og einn að beina athyglinni að sjálfum sér. Í sameiningu hjálpumst við þannig að við að framkvæma störf Alþingis á þann veg að virðingu Alþingis sé borgið.