04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Sjálfsagt er meining á bak við þetta frv. góð og velviljuð þeim þjóðfélagshóp sem um er rætt í viðkomandi þáltill., en ég verð að játa að mér finnst þessi hugmynd ekki nógu þroskuð til að Alþingi taki hana mjög alvarlega, — ég tala nú ekki um vegna grg., en í henni er tæpt á því að það þurfi að koma á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Auðvitað þarf að gera það og vissulega hefur mikið starf verið unnið í þá veru, en vegna þess að við bárum ekki gæfu til þess að stofna slíkan sjóð áður en farið var að mynda 100–200 lífeyrissjóði búum við við það kerfi í dag að mjög er erfitt um vik í lífeyrissjóðamálum.

Þessi till. fjallar um að ríkisstj. láti semja frv. til l. um lífeyrissjóð fyrir þær húsmæður sem ekki háfa þegar öðlast rétt til aðildar að lífeyrissjóði. Er ekki höfuðatriðið að þeir sem komast á lífeyrisaldur fái nægilegar tekjur til að komast af, hvort sem það heitir úr lífeyrissjóði eða frá almannatryggingum? Ef komið er á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, er þá ekki hugsunin sú að hver einasti landsmaður geti fengið úr þeim lífeyrissjóði? Hvernig á að framkvæma þetta? Væri ekki rétt að gera nánari grein fyrir því hver hugsun er á bak við það? Er meiningin að launþegi verði, auk 10% sem hann greiðir í sinn eigin lífeyrissjóð, samtals eru það 10% sem menn greiða í lífeyrissjóð, að greiða önnur 10% vegna eiginkonunnar, samtals 20% rúm, eða hvernig er hugsað að afla tekna í þennan lífeyrissjóð?

Ég held að meginverkefnið hljóti að vera að tryggja að þeir sem komast á lífeyrisaldur fái mannsæmandi ellilaun. Það skiptir ekki máli hvað það heitir. Eins og þetta liggur fyrir hér er þetta till. um aukna skattlagningu á launþega og ekkert annað. A.m.k. er ekki gerð grein fyrir öðru. Ég held að það hljóti að vera hlutverk þjóðfélagsins að tryggja hvern einstakling frá vöggu til grafar. Gott væri ef okkur tækist það með einum allsherjarlífeyrissjóði þar sem menn gætu gengið jafnir að borði. En verð að játa að ég hef ekki trú á að það verði gert með því að stofna fleiri lífeyrissjóði með óskilgreind hlutverk.

Ég veit ekki hvernig hægt er að mynda lífeyrissjóð öðruvísi en í hann komi tekjur. Það segir í grg.: „Hins vegar verður að gera ráð fyrir að heimavinnandi húsmæður greiði til sjóðsins framvegis“.

Það hlýtur að þýða að samtals verði fyrirvinnan eða karlinn í þessu tilviki að greiða sem svarar 20% í lífeyrissjóð til að báðir hafi sama rétt. Ef það er hins vegar meiningin að ríkið greiði framlag þetta held ég að miklu nær væri að hækka ellilaunin. Það væri einfaldasta leiðin og gæfi sjálfsagt betri árangur þar sem minna færi í kostnað, rekstur og skriffinnsku.