04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Það er vissulega djarft hjá hv. flm. þessarar till. að leggja það til að hér sé lögð niður stofnun sem hv. þm. samþykktu lög um fyrir nokkrum mánuðum síðan og sjálfsagt geta einhverjir kallað það hálfgerða óvirðingu við hv. þm. sem þá sátu hér á Alþingi. Ég ætla ekki að fara að taka upp hanskann fyrir þá. Þessi till., sem hér er flutt, er að mínu mati engan veginn út í hött og ég tel og hef talið síðan ég var í nefnd, sem átti að endurskoða lög um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, sem þá gegndi þessu hlutverki, að þarna hefði ríkið allt of mikil afskipti. Okkur þótti þá og mér þykir reyndar enn að ríkiseftirlit með ferskum fiski, að svo miklu leyti sem það er eingöngu framlenging á verðlagningu, mætti hverfa.

Í áfangaskýrslu, sem við skiluðum til sjútvrh. í marsmánuði, að mig minnir, 1980, var stungið upp á því m.a. og gefnir þeir valkostir að ferskfiskmat yrði gefið frjálst en ekki lögboðið eins og nú er og fiskkaupendum og seljendum væri þá frjálst að komast að samkomulagi um það hvort fiskur skyldi metinn eða ekki, eins og reyndar — eins og hv. þm. Stefán Benediktsson minntist á — var tilfellið um daginn í verkfallinu. Einnig var stungið upp á því í þessari áfangaskýrslu að sú grundvallarbreyting væri hugsanleg að fiskkaupendur og seljendur tækju að sér í sameiningu að meta ferskan fisk og það opinbera kæmi eingöngu inn sem úrskurðaraðili. Reyndar held ég að hjá slíkum hæstarétti yrði varla komist eins og sakir standa, a.m.k. ekki til að byrja með. En við lögðum það til að lokum í þeirri lokaskýrslu, sem um þetta var gerð, að ferskfiskmat, sem er meira en helmingur af starfsemi ríkismatsins sem nú er, yrði lagt niður að mestu leyti og eingöngu yrðu eftir 8–10 manns sem eins konar yfirdómarar, sem tilkvaddir matsmenn, ef með þyrfti.

Með lögunum frá því í fyrra var gengið alllangt í þá átt að draga úr afskiptum hins opinbera af afurðamati. Það er þó svo, eins og hv. flm. kom inn á, að eins og er verður líklega ekki hjá því komist að fullnægja ríkisstimpilgleði vissra viðskiptalanda, sérstaklega austurblokkarinnar, og því muni þurfa á að halda ríkisstarfsmönnum til þess að uppfylla þessar skyldur.

Ég verð þó að segja að þessi till. er þess virði að hún sé tekin til athugunar. Ég reikna reyndar með því að hún eigi eftir að koma til umfjöllunar áður en mjög langt um líður, þ.e. breyting á þessum lögum sem nú eru í gildi og tillögur þar að lútandi komu reyndar fram á þingi LÍÚ sem nýlega er lokið. Ég reikna með að hún verði þá flutt með ítarlegri grg. en hér er, en ég á sem sagt ekki von á því að þessi tillaga njóti fylgis eins og stendur.