04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við fullyrðingar hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, sem ég sagði hér, að ég hefði ekki heyrt neinn sjómann leggja til að ferskfiskmat yrði lagt niður. Ég get endurtekið það hér að ég hef ekki heyrt slíkt enn þá. Ég ber heldur ekkert á móti því að Ingólfur Ingólfsson hafi lagt þetta til í þeirri nefnd sem þeir sátu saman í, Ingólfur og hv, þm. En það er kannske staðfesting á því sem ég sagði. Á þeim tíma var Ingólfur Ingólfsson kominn á skrifstofu. Ég hef því kannske ekki sagt mikið umfram sannleikann áðan þó að Ingólfur hafi bæst í þann hóp sem hefur haldið því fram að rétt væri að leggja niður ferskfiskmat. — Þeir geta vitaskuld verið miklu fleiri sjómennirnir sem hafa haldið þessu fram þó að ég hafi ekki heyrt það.

Í annan stað, í sambandi við viðskiptastöðu okkar í Nígeríu og þá skemmdu hausa sem seldir voru á Nígeríumarkaði á árinu 1981, fullyrði ég enn að staða okkar á Nígeríumarkaði versnaði mjög við þá vöru sem þá var send á markaðinn. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem ég sagði hér áðan, en það var mjög skemmd vara og tók nokkurn tíma að lagfæra viðskiptastöðuna. Sú er jafnvel ástæðan til þess hve illa við stöndum á þeim markaði núna hvernig um hnútana var búið við söluna á hausum í upphafi þeirra viðskipta við Nígeríu.

Í þriðja lagi gerði hv. 5. þm. Norðurl. e. aths. við ummæli mín um að ferskfiskeftirlitsmenn hafi verið í vinnu í verkfallinu. Ég veit að a.m.k. fyrir vestan sinntu eftirliti við vissar aðstæður menn sem voru í fullu trúnaðarsambandi við eftirlitsmenn og það var raunverulega verið að framkvæma ferskfiskmatið eftir sem áður. Vera má, og ég ætla ekkert að bera á móti því, að svo hafi ekki verið á einhverjum stöðum og ferskfiskeftirlitsmenn hafi hvergi verið nærri, en ég er nokkurn veginn viss um að við þessar aðstæður tóku menn þetta starf ekki að sér með öðru hugarfari en eftirlitsmenn áður. Ég er nokkurn veginn alveg viss um það. Það má vel vera að einhvers staðar hafi verið á þessu misbrestur og ég veit að á sumum stöðum voru þeir í verkfalli. En það var raunverulega verið að framkvæma ferskfiskmat þótt verkfall stæði yfir og á þeim grunni sem ríkismat sjávarafurða hefur byggt á.

Í fjórða lagi sagði hv. þm.: Long John Silver's lítur aldrei á íslenskan ríkisstimpil. Það má vel vera. Ég ætla ekki að bera á móti því. Ég þekki það ekki. Ég veit að það fyrirtæki lítur á heilbrigðisvottorð og hreinlætisvottorð en til gæðamatsins sjálfs má vel vera að þeir taki ekki mikið tillit, þótt ég efist um að þeir geri það ekki. En hitt veit ég að ekki skiptir sköpum hvort Norðmenn hleypa þeim inn í sín hús eða ekki ef látið verður undan þeirri kröfu að þeir fari að skoða framleiðsluna hér heima á framleiðsluvettvangi. Það byggist fyrst og fremst á því hvernig okkur tekst að sannfæra þennan stóra viðskiptavin um hverju við skilum honum, hvort hann geti nokkurn veginn treyst því að sú vara sem við sendum honum sé á þann máta sem hann óskar eftir og honum er sagt að eigi að vera innihald fiskpakkanna.

Annað held ég að hafi ekki komið fram í ræðu hv. þm. sem ég teldi þörf á að svara.