05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það má segja að að sumu leyti hafi haldið áfram hér í Ed. fundur í iðnn. þó að reyndar hafi komið fram nokkuð skýrari skoðanir en þar var fram haldið. Nm. í n. hafa komið upp hver á fætur öðrum og staðfest það, sem ég sagði í ræðu minni áðan og held fram í nál., að þetta frv. er fyrst og fremst flutt til að staðfesta ákveðnar trúarskoðanir manna, ekki til að stefna að einhverju sérstöku marki eða bæta hagsmuni ríkisins eða starfsfólksins. Þetta er trúarskoðun hæstv. ríkisstj. sem vel getur verið góð frá hennar bæjardyrum séð, en ég hélt að hún yrði seint góð í pólitískri stefnu Alþfl. Ég er ansi hræddur um að þeir sem stóðu fyrst og fremst að uppbyggingu Landssmiðjunnar undir fjögurra ára áætlun Alþfl. upp úr 1930 ... (KSG: Hugsa um framtíðina.) Það er ekki verið að hugsa um framtíðina, fólkið. Það þarf að gera með ákveðnum rökum, ekki einhverri trúarskoðun.

Ég vil snúa því beint til hv. 6. landsk. þm. að stefna hans í þessu máli er eingöngu byggð á trúarskoðun, engum rökum öðrum. Og allt þetta tal um að þetta fyrirtæki hafi ekki lagað sig að breyttum aðstæðum. Auðvitað getur ýmislegt orðið þess valdandi að þetta fyrirtæki gangi vel þennan tímann og illa hinn. (Gripið fram í: Við þekkjum það nú úr fiskiðnaðinum.) Við þekkjum það úr fiskiðnaðinum. Og ætli við getum ekki sagt að olíufélögin íslensku hafi lagað sig að breyttum aðstæðum eða skipafélögin íslensku. Það þyrfti þá endilega að fara að hefja eignabreytingu á þessum fyrirtækjum. Ég get vel tekið undir það. En í rökum fyrir að selja Landssmiðjuna finnst ekki að það þurfi eitthvað slíkt.

Svo eru ein rökin hjá hv. 6. landsk. þm. að það hafi vel til tekist að selja Siglósíld. Það gekk ágætlega hér í gegnum þingið. Siglósíld var seld. Siglósíld hefur verið rekin með miklum krafti í sumar og við verðum að vonast eftir því að hún skili góðum árangri þó að tilætlunin hafi kannske ekki verið sérstök, e.t.v. fyrst og fremst eignaskipti. En árangurinn er því miður ekki kominn í ljós. Vonandi kemur hann í ljós.

Hv. 8. þm. Reykv. benti á skýrslu iðnrh. um Landssmiðjuna þar sem talað er um hagnað á árinu 1983 og síðan vikið til þess að ekki séu teknir til greina vextir af nýbyggingum. Hann hafði ýmis orð um að það væri skrýtið uppgjör sem ekki tæki vexti af nýrri fjárfestingu beint inn í rekstur. Ég er ekki viss um að allir mundu býsnast mjög mikið yfir því eða teldu að vexti á fjárfestingartíma ætti að taka inn í aðra þá rekstursþætti sem fyrir hendi væru í fyrirtæki þegar væri verið að endurbyggja fyrirtækið og hefja stærri og fjölbreyttari rekstur. Ég er ekki viss um að skattayfirvöld væru tilbúin að samþykkja þá uppfærslu á fyrirtæki. Það er því leitað langt yfir skammt til að finna rök fyrir því að þetta fyrirtæki sé selt.

Ég vísa því enn og aftur algerlega til föðurhúsanna að hjá mér sé um einhverja trúarskoðun að ræða þegar ég er á móti þessu frv. Hún er greinilega uppi á teningnum hjá sexmenningunum sem mæla með samþykkt þess.