05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er alveg greinilegt að hér í hv. deild skortir eina stétt manna til að skera úr ágreiningi. Það eru sérfræðingar í trúarbrögðum eða einhverjir guðfræðilega þenkjandi menn. (Gripið fram í: Það er heildsali hérna.) Heildsalinn segist geta bætt úr þessu. (Gripið fram í: Hann var í KFUM.) Það væri þá betur að svo væri. Ekki treysti ég trúarbrögðunum á þeim bæ of vel þannig að ég er hræddur um að hægt væri að hafa langt mál þar um.

Mér fannst hv. 6. landsk. þm. staðfesta það með áliti sínu á umsögn Félags járniðnaðarmanna að ég hefði ekki farið með neina vitleysu áðan. Hann taldi að umsögn þessi væri partur af rödd afturhaldsins hér inni. Þar af leiðandi var ég engu að skrökva, hv. þm. En það er vitanlega rétt að stefnufesta hefur aldrei verið hin sterka hlið Alþfl. og staðfestist enn einu sinni í þessum umr. eins og oft áður.

Ég fagnaði því hins vegar að ég hef misskilið orðræður hv. 5. þm. Vesturl. Davíðs Aðalsteinssonar. Hann er ekki orðinn eins innvígður í útsölustefnu þeirra sjálfstæðismanna og mér fannst hann vera áðan. Hitt er annað mál að oft og tíðum eru orðræður þeirra framsóknarmanna um þetta mál svo torskildar og torræðar að erfitt er að geta í eyðurnar.