05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er ákvæði til bráðabirgða sem rennur út um næstu áramót, og því er þetta frv. flutt að það gerir þá ráð fyrir að fresta því að þetta ákvæði renni út og að komi nýr málsl. við ákvæði til bráðabirgða sem orðist þannig:

„Í Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæmum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði skal frestur þessi standa til ársloka 1985.“

Þetta kerfi hefur verið að breytast yfir í heilsugæslukerfi og um næstu áramót mun breytingin taka gildi á Akureyri. Hins vegar er undirbúningi ekki komið það langt að hægt sé að láta þessa breytingu eiga sér stað hér á höfuðborgarsvæðinu.

Fulltrúar allra bæjarstjórna á höfuðborgarsvæðinu komu saman á fund í apríllok og auk þess sótti fundinn bæjarstjórinn á Akureyri sem áheyrnarfulltrúi. Þar kom fram ósk um að skipa nefnd til að kanna og gera tillögur um lagabreytingar. Sú nefnd var skipuð á s.l. sumri og var ætlunin að hún lyki störfum á haustmánuðum. Nefndin hefur með bréfi 22. okt. lýst því yfir að vonlaust sé að leggja til fullmótaðar tillögur fyrr en í lok janúarmánaðar n.k., en þá lofar nefndin að þær tillögur liggi fyrir. Eftir er þá að fjalla um tillögurnar. Það er mín skoðun og raunar allra að ekki sé hægt að láta þessa breytingu eiga sér stað nema um áramót og því er þetta frv. flutt.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.