05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

188. mál, barnabótaauki

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla þeim köpuryrðum sem hér voru mælt í garð verkalýðshreyfingarinnar rétt áðan af hv. síðasta ræðumanni. Þar talar hann um að það hafi verið mistök verkalýðshreyfingarinnar að þessar tölur skuli ekki vera hærri sem samið var um á sínum tíma. Það eru flestallir í landinu sem skilja það, en greinilega ekki allir, að þegar tveir deila og sitja við samningaborð freistast menn til að ná samkomulagi og ég fullyrði að verkalýðshreyfingin fer eins langt og hún mögulega kemst hverju sinni hvenær sem hún getur. Ég furða mig á svona málflutningi, en það er alveg í dúr við það sem hefur skeð á undanförnum mánuðum sem viðkomandi hefur setið á þingi. Álit sem aflaga fer í þjóðfélaginu er kennt verkalýðshreyfingunni og fjöldasamtökum í landinu, samvinnuhreyfingunni eða verkalýðshreyfingunni. Svo þykist þetta fólk vera að telja sig jafnaðarmenn. Mér finnst svona málflutningur meira í ætt við falangista eins og þeir tíðkuðust á Spáni á sinni tíð frekar en jafnaðarmenn, þetta er flokksbrot með fasistískar tilhneigingar og sósíalívafi. En ég vil margítreka að verkalýðshreyfingin gekk frá ákveðnum pakka þar sem stefnt var mjög fram á við frá því sem áður var gert og var til mikilla bóta á sínum tíma.

Ég verð fyrstur manna til að viðurkenna það eða halda því fram að þetta sé of lágt. En ég fullyrði líka að þeir sem að verki stóðu fóru eins langt og þeir mögulega komust. Það getur verið að einhverjir galdrakarlar úti í bæ telji sig geta gert þetta betur, en þeir verða þá að þekkja til veruleikans til að geta flutt sín mál af einhverju viti.

Ég tek undir það að 25 þús. kr. laun eru lág og ég minni á að það mun varla nokkur taxti sem samið er um hjá verkalýðshreyfingunni ná þessu marki, menn ná þessum tekjum með óhóflegri yfirvinnu. En því miður hefur ekki þrátt fyrir löng verkföll, langa samningagerð, tekist að ná meiru fram en þessu. Það gerist ekki með upphrópunum og gífuryrðum í garð þeirra sem að þessum málum standa og verkalýðshreyfingunni, það gerist á annan hátt.

Ég styð hins vegar brtt. þá sem viðkomandi flutti hér og vona að hann komi til liðs við okkur í verkalýðshreyfingunni að ná fram betri tryggingabótum og betri kjörum, en svona málflutningur er fyrir neðan allar hellur og ekki sæmandi hér á Alþingi Íslendinga.