05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

192. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt hvað verður á fjárlögum til hjúkrunarrýmis, en hins vegar hef ég afhent formanni fjvn. úthlutun Framkvæmdasjóðs frá þessu ári og þar eru til hjúkrunarrýmis sveitarfélaga 30 millj. Að auki eru til hjúkrunarrýmis einkaaðila og félagasamtaka 6 millj.

Þegar sú breyting var gerð að taka þessi ákvæði út úr lögunum um heilbrigðisþjónustu var ég því mótfallinn og taldi að þarna mundu allt of mikil og dýr verkefni ganga út yfir Framkvæmdasjóð aldraðra. Nú hefur komið í ljós að það hefur reynst rétt. Þess vegna hafa þessar framkvæmdir tekið allt of mikið hlutfallslega af sjóðnum — ekki af því að þessir aðilar hafi ekki þurft á því að halda, en það er gengið út yfir aðra. Það er gengið út yfir dvalarheimilin og íbúðirnar. Því tel ég að breyting nú sé mjög til góðs.

Í sambandi við fjölgun manna held ég að það sé ekki neinn pólitískur veikleiki sem þurfi þar að ráða. Endanlegt vald er í höndum ráðh., eins og menn vita. Núna eru í þessari stjórn þrír aðilar. Einn er deildarstjóri í rn. og varamaður hans hefur setið þessa fundi og haft þar málfrelsi og tillögurétt. Svo er fulltrúi frá Öldrunarfélagi Íslands og í þriðja lagi er fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Við úthlutunina á þessu ári varð úthlutunarnefndin ekki alveg á eitt sátt. Meiri hlutinn stóð að úthlutun sem ég að verulegu leyti lagði til grundvallar, en hnikaði örlitlu til, aðallega til að koma til móts við minni hl., en það voru mjög smávægilegar upphæðir sem höfðu ekki nein úrslitaáhrif. Að öðru leyti varð um þessa úthlutun fullt samkomulag. Ég tel að um þessar úthlutanir, eftir því sem ég best veit, hafi orðið samkomulag og ég held að fyrrv. hæstv. heilbrmrh. hafi ekki gert þar neinar stórar breytingar frekar en ég — ekki eftir því sem ég best veit. (HS: Þeir hnikuðu mikið til í Davíðsborg.) Ha. Já, það var örlítið og það var m.a.s. eftir ósk fjvn. í tveimur eða þremur tilvikum. Þá var það heldur til hagsbóta fyrir strjálbýlið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg á það mikla áherslu að afgreiðslu þessa máls sé mjög hraðað. Það liggur ákaflega skýrt fyrir og öll fskj. fylgja vegna þess að nefskattar eru í tengslum við fjárlagafrv.