06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ofmælt það sem ég sagði í ræðu minni, hafi ég tekið rétt niður eftir hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, þar sem hv. þm. hélt því fram að það gæti verið afsökun fyrir Bandaríkin að hafa í hyggju að geyma kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli að samkvæmt varnarsamningnum væri Keflavíkurflugvöllur bandarískt svæði, eða þeir litu svo á, en ekki íslenskt. Að leggja lið slíkum skilningi á varnarsamningnum er vissulega ekki í samræmi við íslenska hagsmuni.