06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól til að lýsa áhyggjum sínum vegna þeirra upplýsinga, sem nýlega hafa verið lagðar fram, varðandi samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna á sviði hernaðarmála. Hér má ræða margt um þessa hluti en ég ætla að vera mjög stuttorð og fyrst og fremst beina til hæstv. utanrrh. fáeinum spurningum sem á mér brenna vegna þessa máls:

Hversu ítarlegar og haldgóðar upplýsingar er í reynd að hafa um hlutverk Íslands í vígbúnaði og hernaðar- eða varnaráætlunum Atlantshafsbandalagsins? Eftir þeim upplýsingum að dæma, sem William Arkin athenti íslenskum stjórnvöldum nýlega og hér hafa verið til umr., virðist sem við séum illa upplýst í þessum efnum.

Ef upplýsingar Arkins reynast réttar, þá vil ég spyrja: Ef svo er, hvernig getur það komið til að íslensk stjórnvöld viti ekki um þessa hluti?

Ef upplýsingar Arkins munu reynast réttar — ég er ekki að segja að þær séu það, en ef einhver leið er til að sannreyna þær, þá vil ég spyrja: Hvers virði eru yfirlýsingar Bandaríkjamanna um vígbúnað hér á landi og hlutverk Íslands í varnar- eða hernaðarkerfi Atlantshafsbandalagsins? Og í framhaldi af því: Hvers virði eru þá þær yfirlýsingar sem við kunnum að fá frá Washington nú sem svar við þeim spurningum sem íslensk stjórnvöld hafa nú sent þangað? Ég vildi gjarnan heyra skoðun hæstv. utanrrh. á þessu og jafnframt hvernig hann hafi hugsað sér að sannreyna þær upplýsingar sem hann kann að hafa eða muni fá um þessi mál. Hér er að mínu viti um grundvallarspurningar að ræða og ég vona að hæstv. ráðh. sjái sér fært að svara þeim hér á eftir.