06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru vissulega alvarlegar fréttir sem hér hafa verið til umr. og það eru líka alvarlegir tímar sem við stöndum frammi fyrir í þessum málaflokki. Á þessu ári höfum við séð í heiminum stærstu heræfingar allra tíma sem fram hafa farið hjá báðum hinum stóru hernaðarblokkum. Við horfum á hæstu fjárveitingar til vígbúnaðarmála á friðartímum frá upphafi í Bandaríkjunum og svipaðar fréttir berast nú á síðustu vikum frá öldungunum í Kreml.

En hvernig er staðan hér á Íslandi? Ég vil gera spurningu hv. síðasta ræðumanns að minni. Höfum við hér uppi á Íslandi sloppið við allar þessar breytingar í vígbúnaðarmálum heimsins eins og oft hefur verið haldið fram? Í skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál á síðasta þingi má lesa um þetta efni í kafla IV á bls. 20 undir fyrirsögninni Varnar- og eftirlitsstöð:

„Hér á landi er enginn sá vopnabúnaður til árásar sem neinni þjóð gæti stafað hætta af. Varnir Íslands geta því ekki talist ögrun við neina þjóð, enda hefur eðli stöðvarinnar sem varnarstöðvar ekki breyst í tímans rás.“

Það væri vissulega ánægjulegt, herra forseti, ef þessi væri staðreyndin, ef því má treysta að við, mér liggur við að segja einir þjóða, höfum verið svo heppnir að sleppa við þá viðsjárverðu þróun sem við horfum á allt í kringum okkur og þá ekki síst í höfunum allt í kringum landið.

Það er nauðsynlegt að fara yfir það örfáum orðum hvað gerst hefur hér á Íslandi alveg síðustu ár í þessum efnum. Ég mun sleppa hér að rekja þá sögu sem mönnum er misjafnlega kunn eftir atvikum eins og yfirleitt gengur þegar rætt er um varnarmál. Ég mun ekki fara hér út í þær breytingar sem urðu á herstöðinni í Keflavík við yfirtöku sjónvarpsins og tilkomu eldflaugakafbáta, Polaris-áætlunarinnar og byggingar leiðsögukerfis Loran C-stöðvarinnar fyrir þá áætlun, en snúa mér að því sem við höfum horft á og reyndar hefur borið nokkuð á góma hér í fyrri ræðum hin allra síðustu ár. Þar er nokkuð langur og sorglegur listi því miður, herra forseti.

Í fyrsta lagi komu hingað fyrir nokkrum árum ratsjárflugvélar nefndar AWACS með bandarískum framburði, skammstöfun fyrir Airborne Warning and Control System. Þetta eru mikil tæki og um þessar vélar segir í mjög merkilegu plaggi frá merkilegri nefnd, sem m.a. hefur verið lofuð í þessum umr., Öryggismálanefnd í riti nr. 1. eftir Gunnar Gunnarsson, með leyfi herra forseta undir fyrirsögninni Tæknileg lýsing:

„E-3A Sentry eða AWACS er hönnuð til að gegna þríþættu hlutverki, til eftirlits. aðvörunar og stjórnunar herafla. Vélunum er ætlað að geta uppgötvað, fylgt eftir og borið kennsl á bæði herskip og flugvélar og einnig stjórnað herflugvélum NATO.“

Framar í þessum kafla er fjallað um möguleika vélarinnar, svo sem eins og þá að geta stjórnað 100 árásarþotum í einu, að geta þakið á flugi 550 og upp í 900 þús. km2 svæði, eða nífalt flatarmál Íslands, og það er ítarlega rætt um þetta þríþætta hlutverk vélanna.

Við höfum séð og sjáum nú þessi síðustu ár margföldun á olíubirgðum og birgðahöfn í Helguvík. Þar eru birgðir til að fóðra stóran flugþota með hjálp KC-135 tankvéla sem eiga að annast það hlutverk. Á þessu ári eða hinu næsta stendur til að endurnýja algerlega árásarorrustuflugflota Keflavíkurstöðvarinnar. Þar eiga að koma nýjar og miklu fullkomnari orrustuflugvélar af gerðinni F-15 í staðinn fyrir eldri gerð systurvéla þeirra, F-4E og þær verða 18 í staðinn fyrir 12.

Í erlendum handbókum um vígtól segir að þessi F-15 þota sé miklum mun fullkomnari. Hún er sögð geta borið meðaldrægar eldflaugar, Phoenix, til viðbótar öllum þeim vopnakosti sem forveri hennar, þ.e. F-4E-flugvélin gat borið. En sú vél, sem er búin að vera staðsett hér um árabil, svo merkilegt sem það nú er, getur m.a. borið flugskeyti af gerðinni Ballpup, sem geta bæði innihaldið venjulega sprengjuhleðslu eða kjarnahleðslu. Það er reyndar langur listi yfir öll þau vopn sem þessi vél getur borið. herra forseti, og ég spara tímann með því að lesa hann ekki hér.

Byggð hafa verið sprengjuheld flugskýli og fleiri stendur til að byggja og við hljótum að spyrja: Hvers vegna eru þessi skýli sprengjuheld? Hvers vegna eru þau með metraþykkum veggjum ef hér er ekkert að óttast, ef hér er einungis varnarbúnaður sem engum ógnar og kæmi þá væntanlega aldrei til þess að á hann yrði ráðist? Hvers vegna eru þessi sprengjuskýli með veggi svo skiptir metrum á þykkt úr járnbentri steinsteypu?

Flugstöðvarbyggingin, sem mjög var til umr. hér á þinginu í fyrra, hefur einnig hernaðarlegan tilgang í bland við annað. Við höfum séð byggða upp jarðstöð fyrir móttöku gervihnattasendinga. Allra nýjasta dæmið, það sem núna er efst á listanum, eru radarstöðvarnar margnefndar. Ég mun geyma mér það til síðari tíma að fjalla um það hér á hv. Alþingi. Síðan höfum við heyrt og vitum meira eða minna um ýmis áform Bandaríkjamanna um áframhaldandi uppbyggingu hér á landi. Ég nefni þar fyrst neðanjarðarstjórnstöð sem upplýsingar hafa verið að berast um af og til, að hún eigi að geta þolað sjö daga algert stríð, hún eigi að vera varin fyrir efna- og sýklahernaði. En ég spyr aftur: Hvers vegna neðanjarðarstjórnstöð? Hvers vegna stjórnstöð sem getur þolað algert stríð í sjö daga ef hér er einungis varnarbúnaður sem engum ógnar og væntanlega þyrfti þá aldrei að ráðast á?

Við höfum séð áætlanir. Menn geta deilt um hversu ábyggilegar þær eru. En á hv. Alþingi í fyrra var rætt um áætlun sem unnin var fyrir Director of Defense Nuclear Agency in Washington DC. Það var skjal nr. 20305 og fjallaði um eldflaugakerfi til þess að loka svonefndu GIUK-hliði og setja upp hér á Íslandi og í Skotlandi.

Við höfum heyrt áform um orrustuflugvöll norðanlands og sérfræðingar spá okkur. Það verður fróðlegt að vita hver framvinda þess máls verður að innan tíðar munu koma upp hugmyndir um að byggja aðra flugbraut í Keflavík til að auka afkastagetu flugvallarins þar. Þessi listi — og hann hef ég ekki tæmt, herra forseti — hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um það hvort við séum virkilega svo heppin, Íslendingar, að við, eins og ég sagði áðan, mér liggur við að segja einir þjóða um norðanverðan hnöttinn höfum sloppið algerlega við þær breytingar sem við höfum horft á í vígbúnaðarmálum á undanförnum árum allt í kringum okkur. Við hljótum að spyrja: Hvers konar stöð er herstöðin í Keflavík í dag og allt það sem henni tengist? Það er líka hægt að fá ýmsar upplýsingar um það í handbókum um herfræði. Þar er yfirleitt efst á blaði að herstöðin í Keflavík sé miðstöð fyrir andkafbátahernað NATO og Bandaríkjanna á norðanverðu Atlantshafi, það sem heitir „antisubmarine warfare“.

Í öðru lagi er gjarnan nefnt að stöðin sé nú stuðningsstöð við flotaaðgerðir. Til sanninda um það má vitna í ummæli manna eins og Leslie McDonalds yfirmanns flotaafla NATO og reyndar líka Bandaríkjanna hér á norðanverðu Atlantshafi.

Í þriðja lagi er það nefnt að stöðin sé stuðningsstöð eða stoðstöð við loftvarnar- og loftárásaraðgerðir í þessum heimshluta.

Síðan er hún í fjórða lagi og kannske ekki hvað síst í æ vaxandi mæli að verða upplýsingamiðstöð þar sem allar upplýsingar frá SOSUS hlustunarkerfi frá aðalratsjárvélum og þá væntanlega frá nýjum ratsjárstöðvum eru bræddar saman og úr þeim unnið.

Því til viðbótar má nefna, þegar spurt er: Hvert er eðli stöðvarinnar í Keflavík? Hvers konar búnaður er þar? Hvaða hlutverki þjónar sá búnaður? Hvernig er hann skilgreindur af herfræðingum? Hér eru nokkuð frægar PC-Orion-flugvélar sem geta borið kjarnorkuvopn. Og það er væntanlega handa þeim flugvélum sem þessar margumræddu kjarnorkusprengjur, sem hér hafa verið til umr., eiga að vera vopn í þeirra höndum í andkafbátahernaði. Það er reyndar svo, að þessi tól, þessar PC-Orion-vélar eru hið mesta furðuverk ef það er skoðað nánar. Ég vitna aftur í ábyggilegt rit ábyggilegrar nefndar sem hæstv. utanrrh. lofaði hér í umr. áður og heitir öryggismálanefnd. Þar segir að Orion-flugvélar þessar megi búa „mörgum tegundum vopna til gagnkafbátahernaðar, þ. á m. tundurskeytum, djúpsprengjum, kjarnorkudjúpsprengjum og tundurduflum. Eftirfarandi tafla sýnir vopnabúnað. Það eru MK-45 tundurskeyti, MK-54 djúpsprengja, B-57 kjarnorkudjúpsprengja, MK-82 (Low Drag Bombs), MK-83 af sömu tegund, MK-36 (Destructor), MK-52 (Sea Mine), MK-55 af sömu tegund, MK-56 af sömu tegund, MK-20 (Cluster bomb) og AGM-84 Harpoon stýriflaug auk smáflaugahólka.“ Þetta er nokkurn veginn tæmandi listi skulum við vona, yfir þann vopnabúnað sem þessi PC-Orion flugvél getur notað. Ég hef aldrei heyrt það nefnt að allur þessi listi væri eingöngu ætlaður til varnar.

Hingað eru að koma þessar F-15 orrustuþotur sem geta borið allan þann vopnabúnað sem ég nefndi áðan. Hér eru eldsneytisbirgðir og tankvélar eða tankvél í það minnsta sem geta fóðrað mikinn flugflota. Þess má geta að í herfræðiritum er gjarnan greint á milli tveggja hugtaka og þau skipta miklu máli í þessu sambandi, þ.e. það sem nefnt er „defensive og offensive role“, sem þýða mætti sem varnar- og sóknarhlutverk. Ef taka má mark á skýrslu hæstv. utanrrh. og trúa henni í einu og öllu ættu hér, skv. þeim ummælum sem þar eru á bls. 20, einungis að vera búnaður og tæki sem þjóna hinu fyrra hlutverki þ.e. varnar- eða defensive hlutverki. En allur sá listi, sem ég hef hér farið yfir, er meira og minna blanda af þessu hvoru tveggja. Aðalflugvélarnar, DCeða PC-Orion-flugvélarnar, Phantom-þoturnar o.s.frv. eru í mörgum tilfellum ekki síður nefndar sem offensive eða sóknartæki í fræðiritum. Og hvernig má það vera, miðað við yfirlýsingar hæstv. utanrrh. hér? Er það aftur upplýsingaleysið og fáfræðin sem verður okkur að falli? Er það virkilega svo að öll þessi tæki hafi komið hingað hægt og rólega þegar það stendur skýrt og skrifað í upplýsingaritum að þær þjóni offensive eða árásarhlutverki ekki síður en öðru, að engu að síður höfum við í góðri trú tekið við þeim þegjandi og hljóðalaust, trúandi því að með komu þeirra yrði engin eðlisbreyting á stöðinni í Keflavík?

Það má deila um það, herra forseti, hversu þýðingarmikil hver einstök framkvæmd er og ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns í þeim efnum. En þegar allt fellur saman í eina heildarmynd er ekki nokkur leið að loka augunum fyrir því sem er að gerast, hefur verið að gerast og á að gerast skv. þeim takmörkuðu upplýsingum sem við höfum. Ég held að við eigum að líta á þessar ratsjárstöðvar, ekki síst í ljósi þeirra frétta sem hér hafa verið til umfjöllunar, sem hluta af þessari heildarmynd. Það er alveg óhjákvæmilegt þótt þær hafi verið ræddar í þjóðfélaginu undanfarið fyrst og fremst á þeim forsendum að þar sé um íslensk samgöngumannvirki að ræða og hin herfræðilega hlið þeirra skipti litlu máli, sé nánast einhver aukageta.

Allt það sem ég hef rakið og gerst hefur í herstöðinni í Keflavík og í tengslum við hana á undanförnum árum er svo hluti af enn þá stærri mynd, enn þá alvarlegri heild. Það er hluti af þeirri tilhneigingu, sem er rík báðum megin Atlantshafsins, að losna við vígtól, einkum og sér í lagi kjarnorkuvopn, af meginlöndunum út í höfin. Menn vilja ógjarnan sofa með kjarnorkuvopn í bakgarðinum hjá sér. Þess vegna verða allir fegnir þegar herforingjarnir koma með nýja áætlun: Við skulum taka þessar eldflaugar og færa þær út í höfin, svolítið lengra frá okkur. Allir verða ánægðir. En hvaða tíðindi eru það fyrir eyþjóð eins og Íslendinga sem býr í miðju Atlantshafinu? Við erum leiksoppur, eins og það hét í gamla daga. Við erum leiksoppar þessarar þróunar eða öfugþróunar. Og auðvitað hlaut þetta og hlýtur að þýða eitthvað fyrir herstöðina í Keflavík.

Ég vil vitna í ræðu hæstv. utanrrh. frá 38. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1983. Með leyfi þínu, herra forseti, vil ég lesa örstuttan kafla úr þessari ræðu. Ég les hana á því máli sem hún var þar flutt, þ.e. á enskri tungu. Þar stendur:

„We Icelanders base our economy first and foremost on the resources of the sea. We are therefore deeply concerned about the military buildup in the oceans. A minor mishap alone, not to mention any major disaster, could have the gravest consequences for our fishbanks, and thus on the whole of our economy. But not for us alone. The protection of the oceans as a foodstore for mankind, millions of whom are starving, makes the preservation of the oceans our common convern. Let us bear this firmly in mind and act accordingly.“ Ég endurtek: „and act accordingly.“

Ég vil, herra forseti, taka þessi orð upp og gera þau að mínum. Ég er algerlega sammála hæstv. utanrrh. og ég tel reyndar að einhver alvarlegasta breyting á sviði alþjóðamála, sem við Íslendingar höfum horft fram á á síðustu árum, sé einmitt þessar breytingar í vígbúnaðarstefnu stórveldanna, að flytja í vaxandi mæli vígtól sín út í höfin. En það vill svo til að við erum eyja í miðju hafi. Ég tel það skyldu okkar að gera allt, sem við teljum okkur geta, til að sporna gegn þessari óheillavænlegu þróun, að hindra það að okkar land, að okkar yfirráðasvæði hér í höfunum verði notað á nokkurn hátt til þeirra hluta sem stigmagnað geti þessa þróun.

Það er svo með ýmis tæki, ýmis vopn að þau eru ekki ýkja hættuleg hver einn hlutinn. Þau eru mörg samsett úr ótal pörtum. Þannig er það einnig með vígbúnaðarkerfi. Því er raðað saman úr mörgum brotum. Eitt vopn sem ég þekki ágætlega til, herra forseti, er haglabyssan. Venjuleg haglabyssa er gjarnan samsett úr þremur hlutum og síðan koma skotin. Það er hlaup, það er skefti, það er undirstykki og það eru skot. Hvert eitt af þessum hlutum er ekki ýkja hættulegt eitt sér. Ég get í raun látið börn leika sér að hverjum þessara hluta sem vera skal hvar sem er og hvenær sem er. En ég mundi aldrei raða byssunni saman, setja í hana skot og fá hana svo í hendurnar á óvita, hæstv. utanrrh. Og það er það því miður sem ég held að sé að gerast hér á Íslandi, hér í höfunum í kringum okkur og að þær alvarlegu fréttir, sem við fengum nú, séu hluti af því og þær ratsjárstöðvar, sem í ákveðinni skýrslu geta virst vera býsna meinlaus fyrirbrigði og eru það kannske í sjálfu sér einar sér, séu hluti af þessari mynd. Þær eru eitthvert af þessum stykkjum í vopninu sem ég var hér að vitna í. Ég skora á og ég heiti á alla þá alþm., sem kunna á næstu vikum og næstu mánuðum að standa frammi fyrir því að taka ákvörðun um einhvern þann hlut sem fallið getur inn í þessa mynd, að skoða hug sinn vel áður en þeir samþykki nokkuð sem dregur Ísland lengra inn í þetta. svarta myrkur vígbúnaðarkapphlaupsins.