06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hélt nú satt best að segja að hér væri verið að ræða ákveðinn þátt varðandi utanríkismál en ekki verið að gera almenna úttekt á gildi varnarstöðvarinnar í Keflavík, eins og síðasti hv. ræðumaður gerði. Ég skal reyna að virða þau tilmæli forseta að vera stuttorður. Mér skilst að það séu þrír þm. enn á mælendaskrá og eigi að reyna að ljúka þessum umr. fyrir kl. 5.

Ég kemst ekki hjá því að víkja fáeinum orðum að 2–3 atriðum í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. e. Ég skil vel að það er áfall fyrir þá Alþb.menn þegar hr. Arkin, sem þeir trúa svo vel, segir að radarstöðvarnar séu hreint smámál og skipti nánast engu í þessari umr. allri, þar séu aðrir hlutir langtum mikilvægari. Ég skil vel að það sé þeim nokkurt áfall því að það kemur þvert á þeirra umfjöllun.

Sömuleiðis vekur það mér ævinlega furðu þegar verið er að tala um hér að hinar og þessar flugvélar geti flutt kjarnorkuvopn. Sjálfsagt geta allar flugvélar flutt kjarnorkuvopn. Þær flugvélar, sem hv. þm. gerði hér að sérstöku umtalsefni, PC Orion, eru sömu gerðar og Loftleiðir á sínum tíma, líklega fyrir 17 eða 20 árum, hugsuðu sér að kaupa til farþegaflugs yfir Atlantshaf en hættu við vegna þess að þeim leist ekki nógu vel á þær. Þær hafa nú verið framleiddar og búnar til annarra nota. Sjálfsagt geta þær flutt kjarnorkuvopn eins og aðrar flugvélar. Í Evrópu eru kjarnorkuvopn flutt milli staða, kjarnorkueldflaugar á vörubílum. Þessi umr. er því öll meira og minna út í hött. En það mál, sem hér er um að ræða, er vissulega alvarlegt. Ef þær upplýsingar, sem William Arkin hefur komið á framfæri við íslensk stjórnvöld, eru réttar þá er þetta alvarlegt mál, en við eigum að spara okkur stóru orðin þangað til við vitum hvort William Arkin hefur rétt fyrir sér.

Tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs hér var það að 22. maí 1980 urðu hér miklar umr. utan dagskrár í Ed. vegna þess að títtnefndur William Arkin hafði í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins fullyrt að hér á landi væru geymd kjarnorkuvopn. Þetta var svona samræmdur konsert eins og nú hefur verið hafinn í Þjóðviljanum og hjá herstöðvarandstæðingum og víðar. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði þá í Þjóðviljanum, með leyfi forseta:

„Ljóst væri þó skv. skrifum erlendra tímarita um kjarnorkumál, t.d. mætti nefna The Bulletin of the Atomic Scientist, að hér eru geymd kjarnorkuvopn.“ Enn fremur segir, með leyfi forseta, í Þjóðviljanum um þetta leyti: „Við mótmælum því að hérlendis skuli geymd kjarnorkuvopn og ítrekum enn einu sinni þá kröfu að bandarískur her skuli á brott.“

Ég lét í ljós efasemdir um að þessi ummæli væru rétt í umr. sem ég hóf utan dagskrár 22. maí 1980. Þar sagði aðaltalsmaður Alþb., hv. þáv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, með leyfi forseta:

„Ásakanir fyrir fram og tortryggni, eins og fram kom bæði hjá frummælanda“-Það er sá sem þetta mælir„og því miður einnig hjá hæstv. utanrrh. í garð þeirrar stofnunar og í garð þess einstaklings, Williams Arkins, sem fréttamaður hafði samband við, finnst mér bera vott um að áður en menn hafa efnislega niðurstöðu í málinu sé byrjað á því að reyna að tortryggja heimildirnar.“ Heimildirnar voru tortryggðar í þessu tilviki. Síðan gerðist það að í ljós kom að þetta var allt bull og vitleysa. Umrædd stofnun, Center for Defence Information, hafði gert meira en það. Hún dreifði upplýsingum um að hér væru kjarnorkuvopn m.a. til virts rits sem gefið er út árlega og heitir World Military and Social Expenditures, þ.e. Útgjöld í heiminum til hernaðar- og félagsmála. Þar var kort prentað og Ísland merkt sem svæði þaðan sem kjarnorkuvopnum væri beitt. Hvaðan komu þær upplýsingar? Þær komu frá Center for Defense Information og frá áður umræddum William Arkin. Ritstjóri þessa blaðs, sem ég vitna til, sagði í bréfi til mín:

„Við höfum það fyrir sið að birta ekki svona upplýsingar nema þær komi frá tveimur sjálfstæðum, ólíkum, óháðum heimildum. Okkur hefur skjátlast. Báðar heimildirnar eru af sömu rót, frá Center for Defense Information og þær hafa ekki við rök að styðjast.“

Þess vegna held ég að það sé fyllsta ástæða til að taka öllum fullyrðingum með varkárni þangað til við vitum hið sanna. Ég mátti sitja undir þungu ámæli þeirra Alþb.-manna í Ed. á sínum tíma fyrir að leyfa mér að draga í efa að þetta gæti verið rétt. Síðan upplifði ég það hér í þessu húsi á þriðjudagsmorgun ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og ýmsum fleiri hv. þm. á fundi með títtnefndum William Arkin að hann byrjaði sinn fund með fulltrúum þingflokkanna á því að segja og vitna til þessa viðtals í Ríkisútvarpinu 1980: „I was wrong,“ ég hafði rangt fyrir mér, sagði hann. Maður að meiri að viðurkenna það skýrt og skilmerkilega í áheyrn þm.

Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja þetta upp. Við eigum ekki að trúa öllu sem útlendingar segja, hvaðan sem þeir koma og hverjir sem þeir eru, eins og nýju neti. Mér finnst þeir hv. Alþb.-menn hafa mikla tilhneigingu til þess. Mér finnst þeir ekki vera hæfilega gagnrýnir á heimildir. Ég vona að þær upplýsingar og þau skjöl, sem títtnefndur einstaklingur hefur sýnt hæstv. ráðh., hafi ekki við rök að styðjast. Það getur vel verið að allt sé þetta rétt sem hann sagði. En við skulum ganga úr skugga um að svo sé áður en við hefjum heróp og kjarnorkuhvell hér, eins og Alþb. og Samtök herstöðvarandstæðinga hafa í sameiningu gert alltaf næstum því árvisst, hvort sem tilgangurinn er að skelfa fólk hér til fylgis við þeirra málstað eða einhver annar. Um það skal ég ósagt láta.

Hins vegar veit ég og þekki og það er mín skoðun að Alþb. á sér gamla sögu undir mörgum nöfnum. Það hefur forn og ný tengsl við Sovétríkin þótt nú sé svo látið sem þau tengsl séu rofin og slitin. Ég held að svo sé ekki, það er mín skoðun. (SvG: Rök. Rök.) Herra forseti. Ég heyri að formaður Alþb. kallar: Rök. Við höfum sjálfsagt hvert okkar sín rök í því máli. Ég hef mín. Það er alveg sjálfsagt að rekja þau, en ég þarf til þess töluverðan tíma. Ærið oft sjást þess merki á síðum Þjóðviljans, málgagns — (SvG: Það eru engin rök.) Engin rök, segir hv. þm. Svavar Gestsson. Ég er rétt að byrja. Engin rök, segir hann. Hann vill greinilega ekki hlusta. Mitt mat er það og ég er búinn að ítreka það, þetta er mín skoðun, að ærið oft finnst mér ég hafa séð þess merki á síðum Þjóðviljans að þar séu menn heldur hallir undir þá stefnu sem Sovétríkin flytja í utanríkismálum. Þetta er mín skoðun. Við getum flett Þjóðviljanum í sameiningu, hv. þm. Svavar Gestsson og ég, og ég veit að ég get fundið þessu margan stað þó að ég hafi það blað ekki nú við hendina svo merkilegt sem það er. (SvG: Staðreyndir, komdu með staðreyndir.) Staðreyndir eru í Þjóðviljanum um þetta. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Það talar hér einn í einu. Hv. þm. getur komið upp í ræðustól hér á eftir. Ég veit að það er sárt fyrir hann þegar þetta er sagt vegna þess að hann hefur haft í frammi kattarþvott — (SvG: Þetta er lygi.) — til þess að reyna að þvo þennan stimpil af Alþb. (SvG: Þetta er lygi, hv. þm.) En það er mín skoðun að þarna á milli hafi verið og voru vissulega mjög skýr tengsl og ég er þeirrar skoðunar að þeirra stað megi enn þá sjá, það er mín skoðun, það ítreka ég. Þess má finna stað á síðum Þjóðviljans í mörgum tilvikum.

Ég ætla ekki, herra forseti, að þessu sinni að hafa þessi orð fleiri. Mér væri það sannkallað ánægjuefni að taka þessa umr. upp aftur síðar við hv. þm. Svavar Gestsson, formann Alþb., þegar rýmri tími er hér til umr. í Sþ.