10.12.1984
Efri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

201. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 107 frá 30. des. 1978, um sérstakt tímabundið vörugjald, með síðari breytingum.

Með frv. því, sem hér hefur verið lagt fram um breytingu á lögum nr. 107 frá 1978, um sérstakt tímabundið vörugjald, er lagt til að gildistími innheimtu sérstaks vörugjalds verði framlengdur og gjaldið innheimt í eitt ár til viðbótar, þ.e. á árinu 1985. Lögum þessum var einungis ætlað að gilda til 31. des. 1984 þar sem gert var ráð fyrir að á þessu ári yrðu lög um vörugjald endurskoðuð í tengslum við gildistöku nýrra tollalaga. Dregist hefur að leggja fyrir Alþingi hið nýja tollalagafrv. og þar með einnig löggjöf um vörugjald og er því nauðsynlegt að framlengja gildistíma laga nr. 107 frá 1978 um eitt ár eða þar til ný löggjöf um vörugjald tekur gildi, væntanlega á árinu 1985.

Gjald þetta er sérstaklega mikilvægt með tilliti til afkomu ríkissjóðs og er gert ráð fyrir því í frv. til fjárlaga fyrir árið 1985. Áætlaðar tekjur af innheimtu þess á árinu 1985 eru um 1 390 millj. kr. Gjaldið er bæði lagt á innfluttar vörur og innlenda framleiðslu sem fellur undir þá vöruflokka sem taldir eru upp í nefndum lögum og er gert ráð fyrir að af innfluttum gjaldskyldum vörum verði vörugjaldstekjur um 1 180 millj. kr., en 210 millj. kr. af innlendri framleiðslu. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á þeim vöruflokkum sem gjaldskyldan nær til og verður gjaldið því eftir sem áður innheimt í tveimur gjaldflokkum, þ.e. 24% af vörum í lægri gjaldflokki, en 30% í þeim hærri.

Ég tel ekki ástæðu á þessu stigi til að hafa frekari orð um frv. þetta og legg því til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.