10.12.1984
Efri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. nú. Ég vil fyrst fagna því að það er fram komið. Þau ákvæði sem í því er að finna eru fljótt á litið til bóta: betri verðtryggingarákvæði, réttlátari viðmiðun skv. 1. gr. og nokkur kjarabót fyrir þá sem njóta eiga skv. 6. gr. frv. Ég tek undir það að vissulega hefði verið mikil vá fyrir dyrum hjá mörgum ef þessi lög hefðu fallið úr gildi og ekkert komið í þeirra stað, enda með öllu óhæfa. Því fagna ég því að þetta frv. er komið fram með þessum breytingum.

Ég fæ þetta frv. til skoðunar í nefnd og skal því ekki hafa um það mörg orð nú. Ég get þó ekki stillt mig um að benda á hvað lögin um eftirlaun aldraðra hafa reynst til mikilla bóta fyrir fjölmarga og í raun og veru haft grundvallarþýðingu fyrir afkomu fjölmargra sem notið hafa. Það má reyndar segja að réttur þess fólks sem notið hefur eftirlauna skv. þessum lögum hafi verið ótvíræður, það hafi verið siðferðilegur réttur þess fólks sem var í stéttarfélögum áður en iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði komu almennt til greina eða hafi ekki áunnið sér þann rétt sem þurfti til að fá þessar viðbótargreiðslur. Þetta var því mikið réttlætismál og það er enn réttlætismál fyrir mikinn fjölda fólks eins og best sést á upptalningu hæstv. ráðh. á fjölda lífeyrisþega sem fá ellilífeyri, örorkulífeyri og makalífeyri skv. I., II. og III. kafla þessara laga og eins varðandi Lífeyrissjóð bænda sem við fjölluðum um í fyrra.

Það er hins vegar ljóst og hefur alltaf verið ljóst að á þessu hafa verið augljósir annmarkar varðandi tiltekna hópa sem ekki hafa átt aðild að stéttarfélögum. Nýlega hefur verið fjallað mjög um lífeyrisréttindi húsmæðra í Sþ. Skal ég ekki frekar fara út í það hér að þessu sinni. Við höfum stundum rætt um möguleika öryrkja í þessu efni. Í fyrra, þegar við vorum að fjalla um Lífeyrissjóð bænda, leituðum við lengi leiða til þess að fá leiðréttingu fyrir þann hóp í sveitum sem stóð utan við þetta, en fundum ekki lausn fyrir það fólk í sveitum sem ekki hafði haft beinar skráðar launatekjur eða verið í stéttarfélagi.

Það sem ég er að benda á er að þrátt fyrir þessi lög og þann fjölda sem nýtur þessara laga og þeirrar viðbótar sem þau tryggja, þá er enn þá allstór hópur fólks sem utan við stendur og ekki fær neina slíka uppbót. Ég reikna með því að hann sé ekki eins fjölmennur nú og hann var þegar lögin voru upphaflega sett. Ég er reyndar sannfærður um að hann er ekki eins fjölmennur. En enn þá vantar okkur leið til að hlynna að þessu fólki. Að vísu er það gert á vegum Tryggingastofnunar með sérstakri uppbót oft og tíðum. En þar þarf að fullnægja vissum viðbótarskilyrðum eins og menn þekkja og enn verða sumir út undan. Sú spurning hlýtur því að vakna í hvert skipti sem þessi mál koma hér til umr. hvernig við verði brugðist vegna þeirra sem enn standa hér utan við.

Þegar við virðum fyrir okkur tölurnar um fjölda lífeyrisþega sem njóta þessara laga og laganna um Lífeyrissjóð bænda, þá hlýtur vitanlega að vakna spurningin um það hversu margir þeir ellilífeyrisþegar muni vera sem hvorki eiga rétt á greiðslu úr lífeyrissjóði eða skv. lögum um eftirlaun til aldraða. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. hefur gögn um það hversu margir einstaklingar það muni vera sem eingöngu verða að búa við tekjutrygginguna og þá kannske sérstaka heimilisuppbót eða annað því um líkt, en njóta hvorki réttinda úr lífeyrissjóði eða skv. lögum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, því enn er við það miðað, en um það væri vissulega fróðlegt að fá upplýsingar í nefnd því að það skiptir miklu máli og ég hygg að þessi hópur sé allfjölmennur enn þá.

Ég reikna ekki með því að hæstv. ráðh. hafi uppi nein svör um það hvort eitthvað sé á döfinni til úrbóta fyrir þetta fólk. Menn hafa löngum sagt að það gerðist aldrei nema með einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Það verk sækist nú, eins og allir vita, svo grátlega seint að ekki er við neinni leiðréttingu þar að búast á næstunni og ýmsar efasemdir uppi reyndar um hvernig þar skuli tekið á málum og hvernig við skuli brugðist. En ég get ekki látið hjá líða að minna enn einu sinni á þá sem hér standa utan við um leið og ég fagna því að áfram eru tryggð réttindi þeirra sem njóta eftirlauna aldraðra skv. þeim lögum sem annars hefðu fallið úr gildi núna um áramótin og hefðu þar af leiðandi ekki haft neina uppbót ef ekki hefði komið til þetta frv. nú, sem er auk þess með nokkrum lagfæringum sem ég tel að séu til bóta.