10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

191. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv. um breyt. á almannatryggingalögunum. Hér er um að ræða álagningu sjúkratryggingagjalds með sama hætti og verið hefur undanfarin ár. Má segja að eina breytingin sem gerð er í þessu frv. er að skattleysismörkin eru hækkuð um 25% eða sem nemur hækkun skattvísitölunnar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta frv. Nefndin leggur einróma til að þetta frv. verði samþykkt. Að vísu rita einstakir nm. undir með fyrirvara sem fram kemur á nál. Það er ekki gert ráð fyrir að skattbyrði aukist vegna þessa gjalds, síður en svo. Mér sýnist fremur að dragi úr skattbyrðinni en hitt, a.m.k. miðað við það sem fram kemur í grg. eða aths. með þessu frv. þá er áætlað að tekjur hækki um lægri prósentu en sem svarar hækkun skattleysismarka en áætlun um hækkun tekna er um það bil 20% en skattleysismörkin hækka um 25%. Heilbr.- og trn. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt.