10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

191. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Mér kom þessi ræða hæstv. ráðh. nokkuð á óvart. Sú hækkun sem varð á sjúkrakostnaði og læknisvitjunum og lyfjakostnaði í vor var ein aðferðin til að fylla fjárlagagatið margfræga. Nú segir hæstv. ráðh. að í raun og veru hafi verið um lækkun að ræða á öllu saman.. (Gripið fram í.) Hins vegar viðurkennir hann að hann hafi hopað nokkuð frá þessari skattlagningarstefnu með því að milda atriði í reglugerð og var tími til kominn fyrir hæstv. ráðh. að átta sig á því. Hann hefur greinilega þurft að hafa allt sumarið til að átta sig á því hvaða álögur hann lagði á þetta fólk í vor.