10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Mér finnast viðhorf hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, 4. þm. Norðurl. v., ekki með öllu raunhæf í þessu máli og bið hann nú að hlýða vandlega á mál mitt. Ég held að hann verði að fallast á það með mér að það eru engar líkur á því að þeir mörgu sem nota sér heimild þessa frv. við 60 ára aldur séu þar með hættir störfum. Þetta viðurkennir hv. þm. og þetta hljótum við öll að viðurkenna. Það er ekki raunhæft að líta svo á. Ég held að við verðum að líta miklu frekar á orðalag laganna þannig að það merki að menn láti af hálaunuðum störfum og hverfi til starfa sem eru verulega miklu verr launuð, að það sé í þeirri merkingu sem beri að líta á orðalag laganna en ekki þannig að þeir hætti algerlega að starfa og setjist í helgan stein með bók í hönd.

Frv. og efni þess fjallar fyrst og fremst um tekjustallinn, þ.e. þá verulegu breytingu sem verður einu sinni á ævinni í tekjum manna, en ekki hitt að menn láti með öllu af starfi. Það er þess vegna sem mér finnst óeðlilegt að tengja þetta á einn eða annan hátt við lífeyrisaldur, eða það að menn séu svo þrotnir að kröftum að þeir treysti sér ekki til að starfa meira, heldur einungis að menn eigi kost á því einu sinni á ævinni að sleppa við skatt þegar slíkur tekjustallur verður. Og þá ítreka ég það sem ég sagði hér áðan: það eru ekkert meiri líkur til þess að menn noti sér hagræði þessara laga með einhverjum óeðlilegum hætti, hvort sem við nú köllum það sviksamlegum hætti eða einungis hagræðingu á skattframtali eða hvernig við tökum til orða, það eru ekkert meiri líkur á því að menn noti sér þetta hagræði 57 ára gamlir en 60 ára. Á því er enginn munur. Þess vegna gerir brtt. okkar engan mun og þess vegna tel ég að menn geti vel samþykkt þessa brtt. sem skapar þarna örlitið meiri sveigjanleika fyrir menn án þess að því fylgi nokkurt óhagræði fyrir skattayfirvöld.