10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

192. mál, málefni aldraðra

Frsm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 91/1982 um málefni aldraðra með síðari breytingum. Nefndin fékk á sinn fund Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra. Hún telur meginatriði frv. til bóta og taka af tvímæli um hlutverk og verksvið Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Nefndin mælir með samþykkt frv. í trausti þess að heildarframlög til þessara mála verði ekki lægri að raungildi á næsta ári en fjárlög 1984 mæla fyrir um.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins var Árni Johnsen, en undir nál. skrifa auk frsm. Davíð Aðalsteinsson, Björn Dagbjartsson, Kolbrún Jónsdóttir, Karl Steinar Guðnason og Salome Þorkelsdóttir.

Aðalatriði frv. voru rakin af hæstv. ráðh. í framsögu. Tekjur sjóðsins eru aðeins hinn markaði tekjustofn, sem er lagt til að hækki frá fyrra ári í samræmi við hækkun framfærsluvísitölu. Verkefni sjóðsins eru um leið skýrar afmörkuð og þau verkefni sem lúta að hjúkrunarrými, hjúkrunardeildum færð til fjárveitingavaldsins svo sem er um aðrar þær framkvæmdir í heilbrigðismálum þar sem ríkið greiðir 85% en sveitarfélögin 15%. Að vísu er heimildarákvæði um 30% af tekjum sjóðsins sem runnið geta til þessara verkefna óháð hinni hlutfallslegu skiptingu þannig að hvorugur aðili hefur hag af.

Einnig er ákvæði í 2. gr. um að fulltrúi fjvn. komi inn í úthlutun fjár úr sjóðnum og þannig sköpuð tengsl á milli sem stundum hefur verið talið að skort hafi. Hins vegar leggur nefndin höfuðáherslu á að við afgreiðslu fjárlaga verði tryggt að jafnhá eða eigi lægri upphæð að raungildi renni til viðbótar sjóðstekjunum beint af fjárlögum til hjúkrunardeilda, þ.e. eigi lægri raungildisupphæð en er á fjárlögunum. Í frv. til fjárlaga er engin slík upphæð samsvarandi þessu, en þyrfti að nema minnst 30 millj. kr. ef sambærilegt ætti að vera til þessara verkefna miðað við síðasta ár skv. upplýsingum ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn. Var upplýst í umr. í máli hæstv. ráðh. að á þetta skorti. Nefndin er öll sammála um að þetta verði að tryggja og stuðningur við frv. um breytingar frá núgildandi lagaákvæðum er bundinn því að við þetta verði staðið.

Um Framkvæmdasjóð aldraðra og hans mörgu þörfu verkefni, sem aldrei er of vel gert við, þarf ekki að fara mörgum orðum hér. Sjóðurinn var verulegt framfaraspor og hefur miklu breytt fyrir þá mörgu sem hafa dug og áhuga að sinna þessu einu brýnasta samfélagsverkefni okkar, skuldagreiðslu okkar til þeirrar kynslóðar sem er öldruð orðin og verðskuldar sannarlega að eiga betri ævidaga og bjarta í ellinni.

Ég endurtek það meginsjónarmið nefndarinnar að fjárveitingavaldið standi við sinn hlut ekki síður en áður. Nefndin telur frv. að öðru leyti til bóta og mælir með samþykkt þess. Ég vildi aðeins til frekari tryggingar óska eftir að hæstv. heilbr.- og trmrh., úr því að hæstv. fjmrh. er hér ekki en það hefði verið æskilegra, gæfi um það ótvíræða yfirlýsingu að við þetta yrði staðið. Að hann beiti sér fyrir því við fjvn. að við þessa upphæð sem þarf að vera að lágmarki 30 millj. til þessarar starfsemi verði staðið.