10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti.

Það er eins með þetta frv. sem ég mæli hér fyrir, frv. til l. um breyt. á lögum nr. 9 frá 30. mars 1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Það hefur hlotið eðlilega meðferð í hv. Ed. Alþingis og kemur nú til 1. umr. hér í þessari hv. d.

Í því frv. sem ég mæli fyrir er lagt til að hámarksfrádráttur frá skattskyldum tekjum manna vegna framlaga þeirra til atvinnurekstrar samkv. lögum nr. 9 1984 um það efni hækki úr 20 þús. í 25 þús. kr. hjá einstaklingum og úr 40 þús. í 50 þús. hjá hjónum. Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða. Skv. 25. gr. laga nr. 9 frá 1984 skulu fjárhæðir, sem um getur í 2. gr. laganna, breytast í samræmi við skattvísitölu ár hvert. Eins og kunnugt er er ekki gert ráð fyrir ákvörðun skattvísitölu í fjárlögum fyrir næsta ár. Af þessum sökum er nauðsynlegt að fjárhæðum þessum verði breytt með sérstökum lögum.

Að mati Þjóðhagsstofnunar nam tekjubreyting á milli áranna 1983 og 1984 sem næst 25%. Á grundvelli þessa er lagt til að umræddur hámarksfrádráttur hækki sem tekjubreytingunni nemur eða um 25%. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að sama hækkun er lögð til varðandi frádráttarheimildir í 30. gr. laga um tekju- og eignarskatt. Frv. þar að lútandi liggur nú fyrir Alþingi. Með vísan til þessa þykir mér ekki þörf á að ræða frv. frekar og legg til að því verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.