10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er flutt er um breytingu á lögum sem sættu mikilli gagnrýni á síðasta þingi og urðu tilefni mjög ítarlegra umr. Frv. eins og það liggur fyrir gerir í sjálfu sér ekki ráð fyrir efnisbreytingu á þessum lögum. Það er að mér skilst eingöngu verið að færa til tölur í samræmi við verðbólgu og það sem um er að ræða í skattalögum almennt.

Í tilefni af þessu frv. er þó óhjákvæmilegt að fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann veiti nokkrar upplýsingar fyrir deildina eða þá þingnefnd sem um málið kemur til með að fjalla. Þær upplýsingar eru: Hversu miklum fjárhæðum nemur sá frádráttur sem hér er um að ræða, sem menn hafa notað til að lækka skattskyldar tekjur sínar við fjárfestingu í atvinnurekstri? Hversu miklar fjárhæðir er um að ræða á árinu 1984 og hve margir menn nýttu sér þessar heimildir?

Ég hygg að þessar upplýsingar hljóti að liggja fyrir. Ég held það sé mjög erfitt fyrir þingið að afgreiða þetta mál öðruvísi en að þessar upplýsingar séu skýrar.

Hér var um að ræða veruleg skattfríðindi fyrir þá einstaklinga í þjóðfélaginu sem höfðu efni á að leggja peninga í fyrirtæki. Það er ekki láglaunafólkið í þessu landi sem hefur efni á því um þessar mundir. Hér er um að ræða skattfríðindi handa Lúxusklúbbnum sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir. Það er algjört lágmark að þingið fái upplýsingar um hversu mikil skattfríðindi Lúxusklúbburinn hefur fengið skv. þessum lögum og hve margir hafa notið þeirra fríðinda.