10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að taka undir þá fsp. sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til hæstv. fjmrh. áður en þetta mál fær frekari umfjöllun, hvað þá afgreiðslu á Alþingi. Á sínum tíma, þ.e. á s.l. Alþingi, voru nokkuð skiptar skoðanir um þær skattalagabreytingar sem stjórnarflokkarnir beittu sér þá fyrir. Það var athyglisvert að menn renndu þá nokkuð blint í sjóinn um hver yrðu tekjutilfærslu- eða skatttilfærsluáhrif þessara laga og í ljósi seinni tíma þróunar, þar sem einsýnt virðist að skattbyrðin hefur mjög verið færð til, þ.e. hækkuð á almennu launafólki en lækkuð á fyrirtækjum og fjármagnseigendum, og með hliðsjón af því að umræður og tillöguflutningur hér á Alþingi um sérstakar aðgerðir gegn skattsvikum hafa lítinn sem engan árangur borið, þá ber brýna nauðsyn til að fá skýrari svör og fá skilvirkara mat á því í hverju þær skattatilfærslur voru fólgnar, að fenginni eins árs reynslu, sem í þessu frv. fólust.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því að launamálaráð Bandalags háskólamanna hefur nokkuð fjallað um áhrif af þessari nýju löggjöf. Ég vil minna á að þær ályktanir og það mat sem fram kemur frá Bandalagi háskólamanna, en formaður þess er sem kunnugt er hv. þm. Gunnar G. Schram, einn af stjórnarþm., eru birtar sem fskj. með till. okkar Alþfl.manna um eignarskattsauka til tveggja ára. Það er sérstök ástæða til að biðja hæstv. fjmrh. að kynna sér þessa umsögn og þessa umfjöllun rækilega, en þar segir svo með leyfi forseta:

„Hvernig hefur skattbyrði fjármagnseigenda verið lækkuð?

1. Með lækkun eignarskattsprósentu um meira en 20.8%, úr 1.2 í 0.95%.

2. Með hækkun frádráttar fyrir eignarskattsstofn um 57.3%, en skattalækkunaráhrif þessara tveggja liða eru að mati Bandalags háskólamanna um 160 millj. kr.“

Þá er í þriðja lagi vakin sérstök athygli á skattfrjálsri meðferð þeirrar tegundar sparifjár sem fyrst og fremst er bundin í ríkistryggðum skuldabréfum og öðrum verðbréfum, sem í sumum tilvikum eru ekki einu sinni framtalsbær eða framtalsskyld, og loks er í fjórða lagi minnt á skattafrádrátt til þeirra sem leggja fé í sjóð með fjárfestingarmarkmiði sem hér er um rætt.

Það hefur reynst mjög örðugt, og það reyndist okkur erfitt við undirbúning þessa máls, að fá raunsætt mat á því hver voru skattalækkunaráhrif að því er þetta varðar. Þess vegna væri mjög eðlilegt og ég tel það raunar sjálfsagt að hæstv. fjmrh. upplýsti Alþingi um, eftir eins árs reynslu af þessari löggjöf eða tæplega það, hver þessi skattalækkunaráhrif voru. Ég tel það nánast upplýsingaskyldu ráðh. að svara spurningum af því tagi.

Skattamálin eru að sjálfsögðu í brennipunkti í allri þjóðmálaumræðu með Íslendingum í dag. Æ fleiri mönnum er að verða ljóst að allt tekjuöflunarkerfi ríkisins er meira og minna svo hriplekt og gallað að við það verður ekki unað lengur. Það er ástæða til að skýra frá því t.d. að á fjölmennum vinnustöðum fiskverkunarfólks veldur fólki ekki hvað síst reiði og vonleysi sú staðreynd að fólk, sem vinnur í þrælabúðum á borð við t.d. ullar- og skinnaiðnað SÍS norður á Akureyri, sem ég kalla nú þrælakistuna, og reyndar vítt og breitt í fiskvinnslunni um landið, hefur í vikulaun enn í dag, eftir launahækkun sem að vísu er búið að taka aftur við undirskrift, t.d. 3 300 kr. Samt kemur á daginn að verið er að taka af þessu fólki í útsvar og tekjuskatta umtalsverðar upphæðir. Það sem veldur fólki reiði er fyrst og fremst það að á sama tíma og skattalögin verka svona á almenna launþega, þrátt fyrir að þeir fá fyrir sitt strit í bónusþrælaverum og ullar- og skinnaiðnaði laun sem duga ekki til framfærslu fjölskyldu, engan veginn, eins og allir vita, þá er verið að taka af þessu fólki skatta, á sama tíma og það blasir við hverjum manni, sem horfir í kringum sig í þessu þjóðfélagi, að stórir og fjölmennir hópar hafa sjálfdæmi um hvaða laun þeir telja fram á skattframtölum sínum og komast upp með það, þrátt fyrir augljósan lúxuslífstíl, að greiða jafnvel minna en þetta erfiðisvinnufólk til sameiginlegrar þjónustu. Það er ekkert óalgengt að fólk segi sem svo á slíkum vinnustöðum: Við erum sjóðandi reið yfir því að stjórnmálamenn í landinu, og þá fyrst og fremst þeir sem með völdin fara og meiri hluta stýra hér á Alþingi, horfa upp á þetta ár eftir ár. — Það er engin afsökun í þessu máli þó að fyrri ríkisstj. og fyrri ráðh. hafi starað klumsa og aðgerðarlausir á þetta líka. Allt hefur sinn tíma og allt hefur sín takmörk. Það er ekki hægt að horfa upp á þetta ástand mikið lengur. Alþingi er að bregðast skyldu sinni. Það er nú algengt að heyra alþm. kvarta undan því að virðing Alþingis fari þverrandi. Það er erfitt að halda uppi virðingu Alþingis ef alþm. horfa upp á himinhrópandi ranglæti viðgangast í íslensku þjóðfélagi ár eftir ár, taka undir almennt snakk um að þetta sé ekki gott og þetta þurfi að laga, en stinga svo höfðinu í sandinn og neita að taka afstöðu til till. sem fyrir liggja um að þessu verði breytt.

Ég man ekki betur en t.d. hæstv. fjmrh. haldi því fram hvað eftir annað að hann sé mikill skattalækkunarmaður og hann hafi enga nýja skatta lagt á. Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að skoða betur hvernig skattakerfið hefur breyst á hans valdatíma. Því er haldið fram og stutt hagfræðilegum rökum að skattbyrði á almennan launþega í heild hafi aukist allverulega í hans stjórnartíð. Hvernig hefur það gerst? Það hefur gerst þannig að meðalskattbyrði launafólks, að mati Bandalags háskólamanna undir forustu hv. þm. Gunnars G. Schram, er aukin á s.l. ári um 6.5% að raunvirði. Þetta er skattahækkun á launþegum um 1 milljarð kr., bæði vegna beinna skatta og útsvara. — Ég tek það fram að ég er einnig að tala hér um útsvör, þ.e. opinbera skattheimtu. Skattbyrði launþega ber að meta í heild, ekki bara út frá ríkisvaldinu einu.

Í annan stað hefur meðalskattbyrði heimila launafólks vegna óbeinna skatta aukist um 10.4%, en það er skattahækkun um 1 650 millj. kr. Því næst má halda því fram með rökum að hlutur almennings, hlutur heimilanna í landinu vegna útgjalda við heilbrigðisþjónustuna hafi aukist.

Niðurstöður Bandalags háskólamanna eru þær að á þessu tímabili hafi skattbyrði launamanna aukist hlutur launafólks í fjármögnun samneyslu aukist, að hlutdeild atvinnutekna í þjóðarframleiðslunni í heild hafi minnkað reyndar öll s.l. þrjú ár 1982, 1983 og 1984. Það er þekkt staðreynd að hlutdeild launa í framleiðslukostnaði í sjávarútvegi og útflutningsatvinnuvegum hefur farið minnkandi. á sama tíma virðist margt benda til þess að hlutdeild fjármagns- og fyrirtækjaeigenda í samneyslukostnaðinum hafi minnkað og að hlutdeild fjármagns- og fyrirtækjaeigenda í þjóðarframleiðslunni hafi farið vaxandi svo nemur verulegum upphæðum. M.ö.o.: það sem hér hefur gerst er að skattbyrðin hefur verið færð til. Hún hefur þyngst á þeim sem minnsta hafa greiðslugetuna. Þeir bera nú auknar byrðar. Hún hefur verið létt á þeim sem mesta hafa greiðslugetuna. Þá er ég ekki hvað síst að tala um þann hluta fjármagnseigenda í verslun og milliliðaþjónustu sem hefur óneitanlega bæði makað krókinn og sloppið við að bera sinn hluta þeirrar svokölluðu fórnar sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að leggja á þjóðina, en hefur aldrei verið lögð nema á þann hluta þjóðarinnar sem síst skyldi.

Ég held að það sé kominn tími til fyrir hæstv. fjmrh. og hæstv. ráðh. yfirleitt og stjórnarliða að horfast í augu við þá staðreynd að þeir geta ekki haldið áfram að þegja við slíkri umræðu um skattakerfið. Ég verð t.d. að segja fyrir mig að ég hef aldrei heyrt jafnfáheyrða og heimskulega till., sem mér skilst að vísu að hæstv. fjmrh. hafi svarið af sér, og að ætla að bregðast við fjárhagsvanda ríkissjóðs nú með því að hækka söluskattsprósentuna um 0.5% á sama tíma og öllum sem til þekkja er kunnugt um að þetta söluskattsinnheimtukerfi er ónýtt. Menn eru að tala hér um viðnám gegn verðbólgu og ætla sér að bregðast við fjárhagsvanda ríkissjóðs með því að beita þessu ónothæfa tæki sem söluskatturinn er. á sama tíma og flestum mönnum er ljóst og það er opinbert hernaðarleyndarmál á Íslandi að milljörðum kr. er stolið undan skatti, þá er alveg fáheyrt að ætla að bregðast við með því að hækka þessa söluskattsprósentu. Væri ekki nær að hæstv. fjmrh. tæki tillit til þeirra upplýsinga sem hann hefur gefið hér á Alþingi sem svar við mínum fsp. um að auka mætti tekjur ríkissjóðs í stórum stíl, reyndar tvöfalda þær, ef farin væri sú leið að afnema að langmestu leyti núgildandi undanþágur frá söluskatti? Þar er um að ræða verulegar tekjur, án þess að söluskattsprósenta sé lækkuð. Síðan má ræða nánar hvernig slíkum tekjum yrði varið: að hluta til til að binda endi á erlenda skuldasöfnun eða peningasláttu ríkissjóðs og kannske að hluta til til þess að gera það sem óhjákvæmilegt er að gera, greiða gjaldfallnar skuldir sjávarútvegsins. En síðast en ekki síst á að verja hluta af þessum tekjum, ekki til þess að auka tekjur ríkissjóðs, heldur til þess að lækka vöruverð með því að lækka söluskattsprósentuna, sem er löngu tímabært. Það er fráleitt á sama tíma og menn eru að tala um og vilja láta taka sig alvarlega að það sé verið að reyna að stemma stigu við verðbólgu, sem nú er auðvitað komin á fullan skrið aftur eftir að stjórnarstefnan er hrunin, að ætla að bregðast við tekjuvanda ríkissjóðs, sem er satt að segja ekki það stórvægilegasta, með því að hækka þennan skattstofn. Þvert á móti á að gera það sem gera þarf til að lækka söluskatt og þar með vöruverð í landinu. Fólkið sem heldur þessu þjóðfélagi uppi á herðum sér á heimtingu á því.