10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. greindi frá því hér áðan að hann hefði ekki við höndina svör við þeim spurningum sem ég lagði fram áðan um það hverjir hefðu notið þessara skattfríðinda fyrirtækjanna. Og hann sagði: Auðvitað er ég ekki með þetta við höndina. Eins og hann hafi ekki mátt eiga von á því að slík fsp. kæmi hér fram.

Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. ráðh. að þegar umr. fóru fram um þetta mál á síðasta Alþingi skýrði ég frá því að eftir því mundi ég ganga að upplýsingar lægju fyrir fyrir framlengingu og breytingu þessara laga fyrir árslok 1984. hverjir hefðu fengið þessi skattfríðindi og hve mikil þau væru. Ég man vel eftir því að bæði hv. þm. Kjartan Jóhannsson og hv. þm. Guðmundur Einarsson tóku undir að það yrði að liggja algjörlega fyrir hverjir njóta þessara skattfríðinda. Sú beiðni þarf því ekki að koma hæstv. fjmrh. neitt á óvart þó að hún komi fram hér nú. Þess vegna verður að fara fram á að við meðferð málsins í n. komi þessar upplýsingar fram og að málið verði ekki afgreitt úr n. fyrr en upplýsingar liggja fyrir, eins og mér skildist á hæstv. fjmrh. að hann tæki undir að væri eðlilegt.

Ég held að það væri líka fróðlegt, í tilefni af ummælum hæstv. fjmrh. áðan um að hér hafi hinn almenni launamaður verið að leggja peninga sína í atvinnurekstur í stórum stíl, að fara fram á það við hæstv. ráðh. að sundurliðað verði hverjir það eru sem hafa notið þessara skattfríðinda við að leggja fé í rekstur fyrirtækja. Það væri fróðlegt að sjá það, einkum eftir atvinnugreinum en ekki eftir framfalstekjuflokkum, vegna þess að það segir ekki alla söguna í þessu efni eins og alþjóð veit. Og ég hlýt í tilefni af orðum hæstv. fjmrh. áðan að spyrja hann að því og biðja um að það fáist upplýsingar um hverjir það eru sem hafa notið þessara sérstöku skattfríðinda við að leggja í fyrirtæki. Ætli það séu launaþrælarnir í landinu í stórum stíl? Ætli það séu ekki frekar einhverjir aðrir sem þarna hafa verið að leggja fram fjármuni og hagnast þannig á þessum skattalækkunum núv. ríkisstj. handa Lúxusklúbbnum.

Í tilefni af orðum hv. 5. þm. Reykv. vil ég leyfa mér að fara hérna nokkrum orðum um skattamál almennt og segja að það liggur fyrir að hinn almenni launamaður í þessu landi er örugglega tilbúinn að borga sína skatta til samneyslunnar ef tryggt er að það gangi jafnt yfir alla. Á undanförnum árum og áratugum hefur það hins vegar verið þannig að ekki hefur tekist að tryggja að skattheimtan gengi jafnt yfir alla. Ég er sannfærður um að það stafar ekki fyrst og fremst af viljaleysi fjmrh. til að sækja þessa fjármuni, heldur stafar það fyrst og fremst af því að tekjuskattskerfið sem slíkt býður upp á þessa mismunun, er hriplekt í heild.

Ég held að við þurfum líka að átta okkur á því að þeir eru fleiri hlutfallslega á Íslandi en í nokkru öðru landi, trúi ég, á þessum hluta jarðarhelmingsins, Vestur-Evrópu, sem geta sjálfir gefið upp sínar tekjur og tekjur annarra, sem vinna hjá þeim, og ráðið býsna miklu um hvað kemur fram af raunverulegum tekjum. Til að ná til alls þessa þyrfti svo gífurlega hert skattaeftirlit að menn hafa ekki ráðið við það til þessa. Spurningin er þá einfaldlega sú, hvort við eigum ekki að hugleiða hinn almenna tekjuskatt á launatekjur til ríkisins mjög vandlega, og ég tek það fram að ég er hér með mínar hugleiðingar, hugleiða mjög vandlega að færa skattaáhersluna í stórauknum mæli af tekjum og yfir til eignanna. Eignirnar er erfitt að fela. Það er að vísu hægt að koma fyrir í eignum fjármunum án þess að það sé auðvelt að koma auga á þær eignir, en ég hygg að í það heila tekið sé skynsamlegra, miðað við okkar þjóðfélagslegu aðstæður, að flytja meira af skattbyrðinni yfir á eignirnar og hafa mun minna á tekjunum.

Ég held líka að í þessum efnum ættu menn að hugleiða mjög vandlega að hinir beinu tekjuskattar verði, að svo miklu leyti sem þeir eru innheimtir, að verulegu leyti hjá sveitarfélögunum, en eignarskattarnir verði aftur á móti frekar hjá ríkinu. Ég held að það aðhald, sem skapast oft í byggðarlögunum í sambandi við tekjur manna og tekjuskatta, sé kannske besta skattaeftirlitið. Ég sá mjög gott dæmi um þetta frá Vestmannaeyjum í sumar þar sem eitt bæjarblaðið birti lista með upplýsingum um tekjuskatta í því byggðarlagi. Mér er sagt að þetta sé árangursríkasta aðgerð sem gripið hafi verið til í Vestmannaeyjum í skattaeftirlitsátt og höfðu þó opinberir embættismenn í þessum efnum komið við í Vestmannaeyjum til að athuga þessa hluti. Fréttir bæjarblaðsins „Frétta“ reyndust vera öflugri í þessu efni en allt opinbert aðhald. Ég held að þarna þurfi sem sé um leið að skapa lagalegar forsendur fyrir félagslegt aðhald til þess að menn borgi skatta, þannig að t.d. fjölmiðlar eða einstaklingar geti gefið upplýsingar til skattayfirvalda sem knýja á um könnun á fjárhag viðkomandi aðila. Ég hygg að slíkar aðferðir, sem mega auðvitað undir engum kringumstæðum fara út í einhverjar lögreglufantaaðgerðir, slíkt félagslegt aðhald, séu mikið líklegri til árangurs en margföldun á því skattaeftirlitskerfi sem við höfum, svo gott sem það er eða getur orðið með því að styrkja það frá því sem það er nú.

Ég held að við eigum að horfa á þessi mál út frá þeirri reynslu sem liðinn tími sýnir okkur og við eigum hiklaust að viðurkenna þar tilteknar staðreyndir og við eigum hiklaust að haga okkur samkvæmt því að hér hefur ekki náðst sá árangur sem eðlilegur er og sem almenningur á kröfu á — þá kröfu að allir beri hérna jafnar skyldur í raun en ekki aðeins sumir. Það held ég að sé aðalatriðið í málinu. Það er ekki að það fólk sé ekki tilbúið til að borga skatta til félagslegrar þjónustu og samneyslu, heldur hitt að menn vilja að allir geri það og að þetta gangi sem jafnast yfir alla eftir efnum og ástæðum, eins og skattakerfið á að vera uppbyggt að verulegu leyti.

Hv. 5. þm. Reykv. nefndi hér söluskattsmálin sérstaklega. Ég verð að segja það í fyrsta lagi að ég er fyrir mitt leyti móti því að leggja söluskatt á matvörur og ég er á móti því að leggja söluskatt á heilbrigðisþjónustu, svo ég nefni dæmi. Ég er ekki að segja að hann sé með tillögur um það, en í svari hæstv. fjmrh. við fsp. hv. 5. þm. Reykv. um söluskatt var gert ráð fyrir að söluskattur yrði greiddur af öllu. Það getur ekki gengið. Þarna verða auðvitað að vera einhverjar undanþágur þó ég taki undir og meti mikils áhuga þm. á því að bæta þetta kerfi og það ætti hæstv. fjmrh. auðvitað að gera líka. Ég er viss um að þetta kerfi er afar gallað þó að gerðar hafi verið á því verulegar endurbætur með breyt. á lögum um söluskatt á árinu 1982 sem tóku gildi í ársbyrjun 1983 ef ég man rétt. En allt um það. Þrátt fyrir tilraunir til lagfæringa er þetta kerfi hvergi nærri nógu gott og það er eðlilegt að um það fari fram umr. og nauðsynlegt er að um það fari fram umr. hér.

Sú hugmynd hæstv. fjmrh., sem hann píndi Sjálfstfl. að lokum til að samþykkja, - hann var víst búinn að vera með þessa till. lengi og neyddi svo þingflokk Sjálfstfl. til að fallast á hana, — að hækka söluskatt um hálft prósentustig er auðvitað alveg yfirgengileg í ljósi skattsvikanna í fyrsta lagi, eins og hér hefur verið rakið af hv. 5. þm. Reykv., en í ljósi þess í öðru lagi að þessi sami hæstv. fjmrh. hefur verið að lækka skatta á fyrirtækjum um mörg, mörg hundruð milljónir kr. Í stað þess að snúa sér að þessum fyrirtækjum leggur hann hærri skatt á almennar nauðsynjavörur með þessu söluskattskerfi sem er jafngloppótt og allir þekkja. Það er kapítuli út af fyrir sig og yfirgengilegt með tilliti til allra yfirlýsinga hæstv. núv. fjmrh. um skattamál og mætti halda um það langar ræður ef nauðsynlegt er hér í þinginu þegar skattamál verða hér frekar til umr.

En ég endurtek fyrirspurn mína til hæstv. fjmrh. Hún er sú: Hverjir hafa notið frádráttar frá skattskyldum tekjum út á fjárfestingu í atvinnurekstri, hve miklar upphæðir er þar um að ræða og hverjir eru það, flokkað eftir starfsgreinum eða annarri flokkun, sem lýsir upp það félagslega baksvið sem hér er um að ræða?