10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég átti nú ekki von á öðru en hv. 5. þm. Reykv. tæki undir fsp. hv. 3. þm. Reykv. Báðir heimta þeir að fá að vita strax hvað mikið hefur verið notað af þeim fríðindum sem umrædd skattalög hafa gefið tilefni til að menn notuðu sér og hverjir það hafa gert. Hv. þm. biðja um sundurliðaðar upplýsingar, helst heimilisfang, nafn og númer hvers og eins, meðan lög eru ekki enn orðin ársgömul, áður en uppgjör hefur átt sér stað fyrir árið, áður en upplýsingar liggja fyrir yfirleitt. Eigum við ekki að láta reyna á þessi lög a.m.k. eitt ár, svo að fyrir liggi uppgjör samkvæmt þeim, áður en farið er að krefja ráðh. fyrirvaralaust upplýsinga? Hv. þm. vita vel, sérstaklega forustumenn þingflokka og stjórnmálaflokka, eftir hvaða leiðum á að leita upplýsinga. Þetta frv. er nú á leið inn í nefnd og þar er einn vettvangur í viðbót til þess að afla þeirra upplýsinga sem beðið er um. Að sjálfsögðu fá þm. þær upplýsingar sem fyrir liggja, þær upplýsingar sem hægt er að veita en ég reikna ekki með að hv. forustumenn stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi vilji fá að vita hverjir væntanlega hafa notað sér þau fríðindi sem þessi skattalög opna mönnum. (SvG: Hvenær liggur þetta fyrir?) Að sjálfsögðu liggur það fyrir með öðrum uppgjörum og uppgjör eiga sér stað um áramót, eftir að almanaksárið er liðið, eftir að skattyfirvöld hafa gefið sína fresti.

Það þýðir ekki að koma hér upp með blekkingar á þann hátt sem hér hefur verið gert. Hér var vitnað í tillögur BHM-manna um aukinn eignarskatt. Það hefur verið athugað hvað það gefur, ef eignarskatturinn, sem nú er 0.95%, yrði hækkaður upp í það sem hann var, 1.2%. Það er reiknað með því að hann gæti gefið innheimtur af einstaklingum nettó 77 millj. og af fyrirtækjum um 40 millj. En hugmyndin var að taka eignarskattsviðbótina frá 8 millj. kr. eign og þá er nú eignarskatturinn yfirleitt orðinn það lítill af fyrirtækjum að hann er ekki merkjanlegur. Það eru ekki mörg fyrirtæki sem fara þar yfir. Það eru alls ekki ríkustu fyrirtækin sem eiga miklar eignir. Einstaklingurinn gæti þá orðið einhvers staðar á milli 10 og 20 millj. Þetta hefur verið rannsakað, þessar upplýsingar er hægt að fá, þær liggja fyrir, þannig að hér er ekki verið að tala um neinar stórar upphæðir.

Hv. 5. þm. Reykv. talar hér um söluskattinn og fer með þær blekkingar fyrir alþjóð að hægt sé að tvöfalda hann. Segist hann byggja það á svörum fjmrh. við spurningu sem var svohljóðandi: Hvað mundi söluskatturinn gefa í heild sinni ef engar undanþágur væru veittar frá neinu? Hv. þm. veit það að þegar hann gefur alþjóð þessar upplýsingar þá er hann að tala um að undanþiggja ekki neitt, hvorki barnaheimili, vöggustofur, elliheimili, heilbrigðisþjónustuna almennt. (JBH: Allan ríkisreksturinn.) Ef ekki væri um neinar undanþágur að ræða þá væri hægt að tvöfalda söluskattinn. En ég gat þess jafnframt að jafnvel þó hv. þm. flytti hér frv. um að tvöfalda söluskattinn eða taka hann á þann hátt sem hann hefur verið að boða, þá mundi hann sjálfur ekki greiða sinni eigin tillögu atkv. Það fengist enginn hv. þm. til að greiða því atkvæði að söluskattur yrði lagður á á þann hátt að hann tvöfaldaðist, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. réttilega. Þessi blekkingarstarfsemi, loftbólan nýja úr Alþfl. á eftir að springa eins og hann sjálfur.

Það er verið að tala um að skattbyrði hafi þyngst. Skattbyrðin sem slík til ríkisins þyngdist ekki og það veit hv. þm. En í heild þyngist hún vegna sveitarfélaganna. Það yrði of langt mál að fara út í hér en hún þyngdist ekki vegna aðgerða Alþingis eða ríkisstj.

Því miður er ég hræddur um að við afgreiðslu þessa frv. sé ekki auðvelt að gefa þær upplýsingar sem farið er fram á. Þær eiga alls ekki að liggja fyrir í fyrsta sinn fyrr en eftir uppgjör, þegar þetta ár er liðið. Ég sé því ekki að ég geti orðið hv. 3. þm. Reykv. að liði fyrr en árið er liðið og uppgjör liggja fyrir. En eitt vil ég segja. Það er ekki heldur liðið ár síðan hér var ákveðið að auka eftirlit með söluskattsinnheimtu. Síðan hafa tíu nýir starfsmenn verið ráðnir til að vinna að eftirliti með söluskattsinnheimtunni og verið að ráða aðra tíu nú um áramótin. Þessir menn þurfa sérþjálfun en eru nú að hefja störf. Væri ekki drengilegt þegar tillögur stjórnarandstöðunnar eru samþykktar, eins og t.d. tillagan um aukið eftirlit með innheimtu söluskatts, að Alþfl. sjálfur gæfi þá stjórninni tækifæri og svigrúm til að koma þessum tillögum í framkvæmd á eðlilegum tíma og á eðlilegan hátt með því að sérþjálfa það fólk sem ráðið er? Nei, slíkt drenglyndi er ekki til í Alþfl., hefur ekki verið í mörg ár, en það var fyrir hendi.

Vegna þess að annað tækifæri gefst sé ég ekki ástæðu til á þessum vettvangi að gera væntanlegar ráðstafanir ríkisstj. til aukinnar söluskattsinnheimtu að umræðuefni frekar en hv. 3. þm. Reykv. Ég reikna með að það eigi eftir að verða þó nokkrar umr. hér á hv. Alþingi um það mál. En þessi 1/2% hækkun vegur ekki upp á móti þeirri endurgreiðslu söluskatts sem sjávarútvegurinn á í vændum á næsta ári. Við erum að tala um að afgreiða fjárlög, og þetta er liður í fjárlögunum, með 600–700 millj. kr. rekstrarhalla. En ef við tökum bara tvo liði, niðurfellingu á innheimtu tekjuskatts að upphæð 600 millj. og endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til sjávarútvegsins þá eru það um 1000–1100 millj. Ef þessir tveir liðir hefðu ekki komið inn í myndina nú hefði fjárlög ekki verið afgreidd með halla. Þrátt fyrir allt og allt hefðu þau ekki verið afgreidd með halla.

Þessi söluskattsprósenta, sem hv. 3. þm. Reykv. gerði að umræðuefni, getur hugsanlega gefið rúmar 200 millj. Með bættri innheimtu söluskatts gætu hugsanlega náðst inn 250 millj. á móti þessum 1000–1100 millj. sem er verið að endurgreiða og fella niður sem tekjustofn ríkissjóðs vegna þess að stjórnmálaflokkarnir eru að standa við sín kosningaloforð. Þetta á eftir að koma á dagskrá seinna, eins og hv. 3. þm. Reykv. gat um, en tók svolítið forskot á sæluna með því að blanda umr. um það inn í það mál sem hér er á dagskrá í sinni málefnafátækt.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vildi gjarnan fá að hugsa upphátt: Hve lengi og hve langt er hægt að fljóta á þessu þunna lofti sem er í hinum hv. nýja formanni Alþfl., þessu blekkingalofti, þegar hann talar um að það sé enginn vandi að tvöfalda söluskattsinnheimtu ríkisins. Bara eitt lítið átak og þá er hægt að greiða allt niður. Það er hægt að greiða niður verðlag, það er hægt að gera hér eitt sæluríki, bara ef söluskattsinnheimtan yrði tvöfölduð. En hann getur ekki um þá nýju tekjustofna sem eiga að tvöfalda söluskattsinnheimtuna. Ég er ansi hræddur um að það verði fall úr háloftum þegar að því kemur að loftið sígur úr vindbelgnum þeim.