10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að frumkvæði okkar Alþfl.-manna hér á þingi, að umr. um skattamál virðist smám saman, hægt og sígandi ætla að fara að bera svolítinn árangur. Þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti hér sínar tillögur um skattamál á s.l. vetri, annars vegar um rannsókn á umfangi skattsvika og hins vegar um aðgerðir í einum 12 liðum gegn skattsvikum, þá minnist ég þess sérstaklega að það voru ekki margir hv. þm. sem tóku þátt í þeim umr. Umr. fór fram hér síðla dags og mig minnir að það hafi verið þrír eða fjórir þm. viðstaddir. Ég minnist þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands og Dagsbrúnar, var einn þar sinna flokksmanna, en aðrir flokkar sýndu þessu máli ekki mikinn áhuga. Nú er þetta smám saman að breytast. Okkur hefur tekist að koma því til skila að hér er um að ræða einhverja mestu meinsemd í íslensku þjóðfélagi. Hér er um að ræða einhver mestu ranglætismál sem við er að fást. Hér er þörf á tillögum, skýrum og klárum tillögum sem hægt er að taka afstöðu til um breytingar á skattakerfi. Reiðikast hæstv. fjmrh. hér áðan bendir til þess að jafnvel honum sé að verða þetta ljóst þó hann sé enn sem komið er dálítið tregur til að taka undir skynsamlegar tillögur.

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að ég hef ákaflega litla trú á þeirri leið í þessum málum að ráða mikinn fjölda af einhverjum svokölluðum skattalögreglueftirlitsmönnum. Ég hef ekki þær hugmyndir um þjóðfélagsmál að það eigi að gera helminginn af þjóðfélaginu að lögreglu og eftirlitsmönnum með hinum. Ég hef enga trú á því að það sé skynsamlegasta leiðin. Og ég get haft fulla samúð með hæstv. ráðh. þó að honum gangi illa að ráða í þessi nýju eftirlitsmannastörf. Eins og launagreiðslum hæstv. ráðh. er nú komið er ekki við því að búast að hann fái marga hæfa endurskoðendur eða skatteftirlitsmenn, sérfróða menn sem skila góðu dagsverki í þeim málum.

Þegar menn ræða skattsvikin og neðanjarðarhagkerfið á Íslandi, þá skulu menn hafa eitt í huga. Þessi skattundandráttur í stórum stíl, sem hér hefur verið að þróast og er ekkert einsdæmi, svipaðir hlutir hafa verið að gerast í ýmsum öðrum ríkjum, er m.a. réttlættur af almenningi, þ.e. þeim aðilum sem þarna hafa sérstaka aðstöðu, t.d. með eftirfarandi hætti. Árum og jafnvel áratugum saman er fólk búið að horfa upp á að vörslumönnum ríkissjóðs, pólitíkusum og ráðherrum, er naumast treystandi fyrir fé. Ég minni enn á niðurstöðu hagfræðings Vinnuveitendasambandsins. Hann telur að fjárfestingarmistök hæstv. ráðh., einkum og sér í lagi kerfisflokkanna, framsókn og Sjálfstfl. og að nokkru leyti Alþb., hafi kostað þjóðina hvorki meira né minna en 25 milljarða króna í töpuðu fé. Niðurstaða hans var sem kunnugt er sú, að ef þær fjárfestingar sem farið var í á þessum hálfum öðrum áratug „hinna glötuðu tækifæra“ hefðu skilað þjóðinni þeim arði sem þær gerðu áður en þetta tímabil upphófst, þá værum við nú 25 milljörðum kr. ríkari.

Það er ósköp eðlilegt og skiljanlegt að forsvarsmenn í atvinnurekstri, sem einkum og sér í lagi hafa aðstöðu til þess að hagræða sínum framtölum og sinna fyrirtækja, segi sem svo: Þessum mönnum er ekki treystandi fyrir fé. Þeir eru búnir að sýna það hvað eftir annað að fé í þeirra höndum skilar þjóðinni takmörkuðum árangri og takmörkuðum arði. Þeirra fjárvarsla hefur orðið til þess að draga úr lífskjörum, halda niðri launum. Það er kannske eins gott að þetta fé sé varðveitt annars staðar. Þetta er það sem fólk almennt segir gagnvart skattheimtumönnum ríkissjóðs, öllu þessu endemis pólitíska skömmtunarkerfi sem Framsfl.- og framsóknarmenn reyndar í báðum flokkunum hafa hrófað upp á s.l. hálfum öðrum áratug og hefur orðið þjóðinni dýrt.

Ég endurtek: Ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi mál verði leyst fyrst og fremst með því að ráða í þjónustu ríkisins heila herskara nýrra eftirlitsmanna. Í fyrsta lagi kemur það ekki að gagni vegna þess að hæstv. ráðh. borgar slík hungurlaun að hann fær ekki til þess hæfa menn. Og í annan stað mun það, jafnvel þótt hér væri um snjalla menn að ræða, ekki skila árangri. Við skulum athuga það að snjöllustu endurskoðendur og bókhaldssérfræðingar eru yfirleitt í þjónustu skattsvikaranna. Þeir borga vel og það þarf býsna snjalla menn til að sjá við þeim.

Leiðin til að draga úr þessu misrétti og þessu ranglæti er auðvitað sú að einfalda skattakerfið. Hv. 3. þm. Reykv. vék nokkrum orðum að núverandi kerfi. Við erum að tala hér fyrst og fremst um tekjuskatta, eignarskatta eða skatt á eyðslu. Það er kunnara en frá þurfi að segja og þarf ekki að hafa um það mörg orð að stighækkandi tekjuskattur var á sínum tíma fyrst og fremst úrræði sósíaldemókrata í tekjuöflunarmálum. Hugmyndin er einföld, byggist á því að menn eigi að borga hlutfallslega meira eftir því sem greiðslugetan er meiri. Ef það væri staðreynd að um 40% þjóðarinnar sæju við þessu með þeim hætti að selja sér sjálfdæmi um það hvað talið er fram til tekjuskatts, þá væri þetta tæki orðið ónýtt, hreinlega orðið ónýtt. Á því byggist sú till. okkar að falla frá þessu skattatæki og beina skattheimtunni, tekjuöflun ríkissjóðs fremur að eignarsköttum og sköttum á eyðslu.

Ég held að það sé ástæða til að vekja athygli hæstv. fjmrh. á þessari frétt úr málgagni forsrh.: „Hver er huldumaðurinn?“ frá 21. nóv. Ég er ekki að segja að þetta dæmi, sem hér er tekið fyrir í einu blaði, leysi allan vanda fjmrh. En það er lýsandi og táknrænt dæmi um einstakling sem samkvæmt sínu framtali á nettó skuldlausar eignir upp á 35 millj. kr. en hefur verið tekjulaus bæði þetta árið og árum saman og nýtist persónuafsláttur upp í skatta. Einu skattarnir sem hann borgar eru eignarskattar því að hann á 35 millj. kr. eignir, en tekjuskattlaus hefur hann verið árum saman.

Ég beini því til hæstv. fjmrh., sem er víðförull maður og hefur búið víða erlendis, hvað heldur hann að mundi gerast í háborg kapítalismans, landi eins og Bandaríkjunum, ef þessi frétt hefði birst í Washington Post eða New York Times? Það hefði orðið heldur betur uppþot á Bandaríkjaþingi og ekki linnt látum ef hæstv. fjmrh. hefði ekki gert eitthvað í málinu, ekki gagnvart þessum huldumanni einum út af fyrir sig heldur gagnvart því skattakerfi sem pródúserar svona niðurstöður. Þegar menn spyrja: Hvernig á að leysa þetta? held ég þess vegna að leiðin út úr þessu sé ekki fyrst og fremst fólgin í því að ráða einhvern herskara af fólki í nýjar og nýjar ríkisstofnanir til eftirlits. Leiðirnar eru fyrst og fremst þær að einfalda skattakerfið. Í því skyni höfum við flutt árum saman ákveðnar tillögur.

Tillaga númer eitt varðar tekjuskatta. Hún er um það að afnema tekjuskatta á launatekjur allt að kannske 35 þús. kr. á mánuði.

Má ég, með leyfi forseta, kynna fyrir hæstv. fjmrh., og það er gott að hv. 1. þm. Suðurl. heyri þetta líka, þetta varðar hans kjördæmi, kynna fyrir hæstv. fjmrh. launaseðil sem mér var afhentur í Fiskiðjunni í Vestmannaeyjum. Hér er um að ræða mann sem er um fimmtugt og á að baki 25 ára sjómannsferil. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hans fjölskylda samanstæði af sex manns. Hann vinnur núna í Fiskiðjunni og hér er um að ræða launaseðil miðað við fyrstu vikuna í okt. 1984. Þessi maður hefur fyrir átta stunda vinnuviku, það hefur verið frekar lítið að gera í Vestmannaeyjum eftir að verstöðin mikla var opnuð aftur, hann hefur í vikulaun 3307 kr. Af þessum manni er tekið í orlof, lífeyrissjóðsgjald, stéttarfélagsgjöld, útsvar og tekjuskatt 2431 kr. Þessi maður er vikum saman búinn að fá fyrir sitt strit í Fiskiðjunni í Vestmannaeyjum útborguð laun, sem eiga að duga fyrir framfærslu sex manna fjölskyldu, að upphæð 876 kr., hæstv. fjmrh.

Ályktanirnar sem má draga af þessu eina dæmi eru margar. Ég held að hæstv. fjmrh. gerði fátt betra með tímann sinn en að velta þessu dæmi fyrir sér og spyrja sjálfan sig: Hvernig get ég, sem stundum kalla mig helsta verndara litla mannsins, sem er að vísu bandarískt hugtak og ég vil helst ekki taka mér í munn því ég þekki enga litla menn í þessu þjóðfélagi, allra síst það fólk sem heldur þessu þjóðfélagi á herðum sér eins og t.d. það fólk sem starfar í fiskvinnslunni, hvernig getur hæstv. fjmrh. beitt áhrifum sínum og valdi í nafni síns stóra hjarta og síns góða vilja til þess að létta skattbyrðina á þessum einstaklingum, manni eins og þessum?

Og þá náttúrlega kemur hitt, að um leið og samþykkt væri í nafni réttlætisins að afnema þennan rangláta tekjuskatt á þetta fólk, sem er hér með kauplús sem dugar ekki fyrir framfærslu fyrir einn eða neinn, um leið og samþykkt væri að afnema hann þarf hæstv. fjmrh. auðvitað að svara því hvernig hann ætlar að afla ríkissjóði tekna í staðinn. Hvar eru tillögur hæstv. fjmrh. í nafni Sjálfstfl. og enda á kosningaloforðum um niðurskurð á ríkisútgjöldum annað en einhverjar bjánalegar tillögur um 5% niðurskurð yfir alla línuna sem er búið að reyna í mörg ár, áratugi? Það eru auðvitað gagnslausar og vanhugsaðar og einskis nýtar tillögur. Ef ekki á að mæta þeim með niðurskurði ríkisútgjalda, hvernig á að gera það ella? Væri t.d. ekki ráð að hæstv. fjmrh. fjallaði um það í alvöru en ekki með einhverjum gneypum geðþótta að það væri kominn tími til að hann athugaði og rannsakaði eitthvað hvað hann gæti gert í þessu hripleka söluskattskerfi? Ég get vel sætt mig við það að hæstv. ráðh. fallist ekki í einu og öllu á ráð eða upplýsingar sérfræðinga sinna í rn. Pólitíkusar eiga ekki að fara eftir sérfræðingum. En að hann geti sópað burt þeim upplýsingum sem hér hafa verið lagðar fram á Alþingi um hvað hægt er að gera í því kerfi með afnámi og undanþágum, það er náttúrlega alveg út í hött.

Hver eru svör hæstv. fjmrh. við þennan mann sem á að lifa á 876 kr. á viku og borga 1124 kr. í tekjuskatt og tæpan 1000-kall í útsvar af þessari kauplús? Við höfum gefið þessum manni svar. Við segjum: Það á að afnema tekjuskattinn á þessi laun. Og við segjum við þetta fólk: Þið væruð a.m.k. talsvert betur sett, þið sem stritið hér og haldið þessu þjóðfélagi uppi og fáið þessa kauplús, þið væruð a.m.k. betur sett ef þessum tekjuskatti væri af ykkur létt. Hann er stærsti einstaki frádráttarliðurinn og mundi muna hér 4500 kr. á mánuði.

Síðan segjum við við hæstv. fjmrh. og hermum nú upp á hjartagæsku hæstv. fjmrh.: Hvað á að gera við huldumanninn, þennan mann sem hefur hlaðið upp á undanförnum verðbólguáratug 35 millj. kr. í eignir en borgar enga tekjuskatta? Hvað á að gera við svona menn? Ef ótíndir strákar koma og stela töskum af gömlum konum þá er þeim stungið í steininn og þjóðfélagið fordæmir einum rómi slíka labbakúta og peyja. En þegar það er fínn huldumaður, sem sennilega hefur fengið þessar eignir aðallega í skjóli neikvæðra vaxta og óðaverðbólgu og frádráttarliða á framtölum og með hvers kyns skattahagræðingu, þegar slíkur huldumaður á í hlut þá er mjög trúlegt að orðunefnd endi með því að rétta honum fálkakrossinn fyrir dygga þjónustu sem einn af frímúrurum þjóðfélagsins.

Tillagan um eignarskatt byggist á þeim rökum að það hefur átt sér stað á undanförnum áratug gríðarleg eignatilfærsla. Ég tek það skýrt fram þegar ég ræði þessi mál að ég er ekki að tala um neinar refsiaðgerðir eða skattaofsóknir á hendur bjargálna fólki sem sannanlega hefur í krafti mikillar vinnu, framtaks og annarra slíkra dyggða komið sér og sínum sæmilega fyrir í þjóðfélaginu. Ég er að tala um að skattleggja verðbólgugróða þar sem ákveðnir forréttindahópar í þjóðfélaginu hafa í skjóli aðstöðu bankakerfis og annarra beinlínis þegið gjafir frá vinnandi fólki og um leið verið undanþegnir því að axla sínar byrðar og greiða sinn hlut í samneyslunni. Og að því er varðar söluskattsmálið, hæstv. fjmrh., þá finnst mér nauðsynlegt að hæstv. ráðh. fari rétt með svör sinna embættismanna. Embættismennirnir svöruðu því til að ef allar undanþágur yrðu afnumdar af söluskatti þá mundi hann skila ríkissjóði 12 milljörðum kr. í nýjar tekjur en ekki 8–12 milljörðum. Hins vegar ef ríkisrektorinn væri tekinn frá, allur ríkisrektorinn, þar með auðvitað söluskattur á þjónustu í ríkisgeiranum og þar með heilbrigðisþjónustu, þá væri nettótalan 8 milljarðar. Síðan bættu þeir við að hreint kerfi af þessu tagi mundi hins vegar að þeirra mati, þeir orðuðu það svo, stórbæta skil og innheimtu á söluskatti. Ég hef sjálfur borið það undir endurskoðendur og þeir segja að bara aukin og bætt innheimta af svo einföldu og skilvirku kerfi mundi trúlega þýða 2–4 milljarða í viðbót. Við erum aftur komin upp í 12 milljarða, hæstv. fjmrh.

Síðan felst í okkar hugmyndum líka eitt í viðbót. Það er að taka söluskatt af innflutningi í tolli, en það mundi þurrka út að öllu leyti allan undandrátt frá söluskattsskilum. Síðan hefur þeirri hugmynd verið hreyft að því er varðar bílskúrabransa, sem að sjálfsögðu á ekki að reyna að ofsækja með einhverjum eftirlitsmönnum, það er vel unnið á mörgum slíkum vinnustöðum, að taka ósköp einfaldlega samkvæmt okkar till. ákveðið leyfisgjald miðað við áætlaða veltu slíkra fyrirtækja.

Þetta eru m.ö.o. tilraunir og tillögur um það að gera söluskattskerfið, sem er viðamesti tekjustofn ríkisins, skilvirkt. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að jafnvel þó að enn yrðu við lýði einhverjar undanþágur þá erum við að tala um svo hrikalegar tölur að þær mundu duga hæstv. fjmrh. til þess að hætta hallarekstri ríkissjóðs, hætta að fjármagna eyðslu og framkvæmdir ríkissjóðs með erlendum lánum, og samt sem áður væri enn eftir nokkuð af þessari upphæð til að lækka söluskattsprósentuna í heild og lækka þannig vöruverðið.

Að því er varðar andmæli hv. 3. þm. Reykv. við þeirri hugmynd — hann segir: ég er einfaldlega andvígur því að leggja söluskatt á matvæli — þá er ég hræddur um að hann verði að skýra mál sitt betur. Er hv. þm. andvígur því að leggja söluskatt á innflutt matvæli eða eru það bara innlend matvæli? Við verðum hér að taka ákvörðun. Það er val milli tveggja kosta. Viljum við viðhalda undanþágum sem sérfróðir menn, þar á meðal sérfróðir menn í verslun og viðskiptum, segja okkur að séu meginástæðan fyrir lélegri innheimtu og undandrætti forréttindahópa á skilum á söluskatti? Auk þess er hér hver maðurinn á fætur öðrum sem segir: Við ætlum að stefna að virðisaukaskatti. Virðisaukaskattur er engu betri en söluskattskerfi nema hann verði með hreinu borði og engum undanþágum. Þannig að þetta væri fyrsta skref í þá átt að nálgast það kerfi enn betur.

Í annan stað, af hverju ekki að treysta neytendum sjálfum fyrir því að velja sín innkaup sjálfir? Ef skattprósentan er hin sama en til mikilla muna lægri, af hverju á að vera að beina neysluvenjum þjóðarinnar og innkaupum sérstaklega að einhverjum tilteknum vörum? Í okkar till. er hins vegar það að við erum tilbúnir að greiða út af þessum auknu tekjum í beinum fjölskyldu- og barnabótum sem samsvarar þeirri verðhækkun sem barnafjölskyldur sérstaklega verða fyrir, tekjulágar barnafjölskyldur. Mér finnst það vera meiri ávinningur ef við getum komið í veg fyrir að tekjulágar barnafjölskyldur verði þarna fyrir kaupmáttarrýrnun en í staðinn vinnum við það að við getum þurrkað nokkurn veginn út öll söluskattssvik sem nema mörgum milljörðum kr. Og þá er ekkert áhorfsmál í mínum huga að þetta er skynsamlegri leið. Okkar tillögur byggja m.ö.o. á afnámi söluskattsins, sem er ranglátt kerfi, upptöku eignarskatts, þ.e. stóreignaskatts á illa fenginn stóreignagróða á verðbólguáratugnum, og síðan skilvirkara söluskattskerfi sem leggst fyrst og fremst á eyðslu, mest á eyðslu. Þeim mun meira sem menn eyða, þeim mun meira greiða menn í söluskatt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri að sinni. En af því að ég sé að hv. 2. þm. Reykn. er mættur í salinn og við erum að ræða hér skattamál vil ég geta þess að það hefur verið vikið hér að mjög skilmerkilegum ályktunum og tillögum Bandalags háskólamanna þar sem fram kemur að að mati BHM hafa átt sér stað mjög alvarlegir hlutir í skattamálum í tíð núverandi ríkisstj. Þar er fyrst og fremst átt við það að tilfærsla hafi orðið á fjármagni frá almennu launafólki, sem hv. 2. þm. Reykn. er í forsvari fyrir, til sumra fyrirtækja, einkum og sér í lagi auðvitað að því er varðar þjónustu og milliliðastarfsemi, því af framleiðslugreinunum er nú ekki mikið að taka, og síðan til hinnar nýju forréttindastéttar fjármagnseigenda, sem er í vaxandi mæli að auka umsvif sín í þessu þjóðfélagi, að sumu leyti með erfðum auði, sem komið er fyrir í ríkispappírum á ránsvöxtum hæstv. fjmrh., og getur vel orðið til þess að fólk sem staðið hefur í erfiðum rekstri, svo sem eins og iðnaði eða þjónustu, og er að reyna að halda uppi atvinnu í landinu láti undan þeirri stórkostlegu freistingu að selja allt heila draslið og koma bara eignum sínum fyrir í pappír og lifa í vellystingum praktuglega hér eftir og þurfa hvorki að telja fram pappírsræksni þessi né tekjurnar af þeim.

Ég sé ástæðu til að skora á hv. 2. þm. Reykn. að láta í sér heyra í þessum umr. og fylgja úr hlaði og fylgja eftir svo skörulegum tillögum sem fram hafa komið frá hagdeild þess launþegabandalags sem hann er forustumaður fyrir. Ég trúi því t.d. ekki að hv. 2. þm. Reykn. sem einn af þm. Sjálfstfl. taki undir jafnfáheyrða og vitlausa tillögu eins og að fara að hækka söluskatt núna um 0.5% í staðinn fyrir að auðvitað á að lækka þennan söluskatt en ekki hækka.