10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir brtt. við frv. til l. um Verðlagsráð sjávarútvegsins, sem er til 2. umr., og minnihlutaáliti sjútvn. á þskj. 242 og 243.

Í brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni er lagt til að frv. verði breytt þannig að aðeins sé þar ákvæði um að nýtt fiskverð skuli gilda frá 21. nóv. 1984, en Verðlagsráð ákvarði verðlagstímabil að öðru leyti sjálft eins og gert er ráð fyrir í 8. gr. 2. mgr. laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

Þessi brtt. er flutt í samræmi við þau sjónarmið sem fram hafa komið frá formönnum Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins sem mættir voru á fund sjútvn. Nd. þegar hún fjallaði um frv. ríkisstj. um fiskverðsákvörðun. á þeim fundi kom fram frá áðurnefndum fulltrúa sjómanna að þörf á nýju fiskverði væri augljós og þeir hefðu ekkert við það að athuga, síður en svo, að nýtt fiskverð tæki gildi frá 21. nóv. Þeir lýstu sig hins vegar mjög óánægða með þann vilja stjórnvalda að færa völd Verðlagsráðs sjávarútvegsins til að ákvarða verðlagstímabil fiskverðs yfir til Alþingis þrátt fyrir áðurnefnd ákvæði í lögum um Verðlagsráð. Þeir formenn sögðust ekki heldur fallast á að þegar um svo langt verðtímabil væri að ræða, eins og um getur í stjfrv., þ.e. frá 21. nóv. 1984 til 31. ágúst 1985, sé óheimilt að segja fiskverði upp fyrr en eftir 1. júní 1985. Yfirleitt hefur fiskverð gilt frá 1. jan. til 1. júní og þá með uppsagnarheimild í mars. Þeir Óskar Vigfússon og Guðjón Kristjánsson kváðust hafa gengið á fund hæstv. sjútvrh. og kynnt honum þau sjónarmið sín.

Það er ekkert vafamál að flest mælir með því að nýtt fiskverð verði tekið upp frá 21. nóv. s.l., þó ekki lægju aðrar ástæður að baki en þær að sjómenn fá einhverja hækkun á sínum hlut í samræmi við þær launahækkanir sem fólk í landi hefur fengið skv. kjarasamningum. Það er út af fyrir sig næg ástæða til fiskverðshækkunar. En að binda fiskverð í svo langan tíma sem frv. getur um er áreiðanlega ekki til hagsbóta fyrir sjómenn, síst af öllu þegar ljóst er að flest sjómannafélög í landinu hafa sagt upp samningum og undirbúa baráttu sína fyrir leiðréttingu á launakjörum sjómanna sem hafa verið skert umfram launakjör annarra láglaunastétta og þá er mikið sagt. Eðlilegt er að menn spyrji sig hvort þessi uppsögn samninga hafi eitthvað með lengd verðtímabils fiskverðs að gera. Hvers vegna er þessi ákvörðunarréttur tekin frá Verðlagsráði sjávarútvegsins einmitt núna? Það skyldi þó aldrei vera að það væri til að gera sjómönnum erfiðara fyrir í þeim samningum sem fram undan eru. Ef ástæðan er ekki sú mælir heldur ekkert á móti því að fara að vilja sjómanna og láta Verðlagsráð sjávarútvegsins um ákvörðun varðandi lengd verðtímabils. Allt tal um að eðlilegt sé að fiskverð gildi til 31. ágúst 1985, í stíl við þá kjarasamninga sem gerðir voru nú s.l. haust er út í hött. Fiskverð verður og hlýtur að taka mið af fleiru en þeim kjarasamningum sem gerðir eru.

Herra forseti. Það er fátítt að sjómenn eigi á Alþingi fulltrúa úr sínum hóp. Þrátt fyrir það eru fáar stéttir sem ráðskast er meira með með lagaboðum og bönnum en sjómenn. Hér eru ein slík lög til. Við erum sammála um að ákvörðun um nýtt fiskverð frá 21. nóv. er af hinu góða, sjómönnum til hagsbóta, en ég get ekki greitt því atkv. mitt að Alþingi ákveði verðtímabil fiskverðs í stað Verðlagsráðs sjávarútvegsins, fyrst og fremst vegna þess að það er ekki vilji sjómanna að Alþingi taki þessa ákvörðun. Ég óttast einnig að binding fiskverðs til svo langs tíma verði sjómönnum ekki til hagsbóta í komandi kjarabaráttu þeirra.

Ekkert kemur fram í frv. hæstv. ríkisstj. og ekkert hefur komið fram í umr. sem sannar að svo sé ekki, þvert á móti. Þess vegna get ég ekki stutt þetta frv., en legg hér fram brtt. sem er í fullu samræmi við vilja fulltrúa sjómanna og kemur skýrt fram í bréfi sem flm. þessarar brtt. hafa fengið og ég les upp, með leyfi forseta:

„10. desember 1984.

Á fundi framkvæmdastjórnar Sjómannasambands Íslands, er haldinn var 3. des. s.l., var fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 23. júlí 1974, um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands er síður en svo á móti því að fiskverð sé opnað með þeim hætti er frv. gerir ráð fyrir, en mótmælir því harðlega að löggjafinn skuli ætla sér að binda verðtímabilið til 31. ágúst 1985. Framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands telur ótvírætt að það sé hlutverk Verðlagsráðs að ákvarða verðtímabil en ekki löggjafans.“

Undir þetta skrifar Hafþór Rósmundsson.

Í viðtali við Þjóðviljann 5. des. s.l. segir Óskar Vigfússon, með leyfi forseta:

„Ég tel það óráð hið mesta og raunar alveg fráleitt að binda fiskverð með lögum um verðtímabil. Þótt fiskverð gildi vanalega frá 1. jan. til 1. júní, þá er það uppsegjanlegt af okkar hálfu. Nú verður ekki svo.“

Hér er vilji sjómanna ótvíræður og ekkert hefur fram komið sem mælir gegn því að í þessu máli sé hann virtur.