10.12.1984
Neðri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er augljóst að nauðsynlegt er að taka þessi mál til ítarlegri umr. en fyrirhugað hafði verið í ljósi þess að hér við 3. umr. málsins koma fram sérstakar ögranir af hálfu ríkisstjórnarliðsins í sambandi við mál sem stjórnarandstaðan hefur þó sýnt fullan vilja til að fengi hér eðlilega þinglega meðferð, án þess að verið væri að taka á ýmsum þáttum sem snerta sjávarútvegsmálin, sem fyllsta ástæða er þó til að taka til umr. og það fyrr en seinna. Það er að sjálfsögðu velkomið af minni hálfu að víkja hér af þessu tilefni að ýmsum þáttum sem tengjast því máli sem hér er til umr., þ. á m. stöðu útgerðar í landinu, kjörum sjómannastéttarinnar í landinu sem með þessu frv. er fyrirhugað að binda í afturendann í sambandi við samþykkt þessa frv. sem stjórnarliðið ætlar að koma hér fram. En það er alveg auðsæilegt að það er ekki áhugamál ríkisstj. að svo verði því að hér rís upp hv. þm. Halldór Blöndal og veitist sérstaklega að þm. hér í þessari þd. fyrir að hafa gerst svo djarfir að flytja brtt. við þetta mál. Þm. sér alveg sérstaka ástæðu til þess að veitast hér að hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og hv. forseta deildarinnar Karvel Pálmasyni sem hefur lagt sig fram í forsetastóli til að hjálpa upp á sakirnar hjá stjórnarliðinu í sambandi við það að koma málinu í gegnum 2. umr. Það verður að segja að þetta eru vinnubrögð með miklum endemum og ég veit ekki hvernig ríkisstj. ætlar sér að koma áhugamálum sínum fram hér á Alþingi nú fram að jólum ef það á að gerast hvort tveggja að þm. stjórnarliðsins eru í minni hl. í deildinni eða skila sér ekki til þátttöku í atkvgr. Er það raunar ekkert einsdæmi á þessu þingi það sem af er, heldur hefur það iðulega gerst hér að það hefur þurft atbeina stjórnarandstöðunnar til að koma málum áfram í deildinni, og það má heita með fádæmum þegar sérstaklega er veist að forseta deildarinnar sem hefur staðið að verki með þeim hætti sem við urðum vitni að að greiða fyrir framgangi þessa máls.

Það eru mörg atriði sem tengjast stöðu sjávarútvegsins nú og þar með kjörum sjómannastéttarinnar í landinu sem ástæða er til að fara um nokkrum orðum. Það væri kannske rétt að vitna til Morgunblaðsins í þessu sambandi til þess að draga fram með hvaða hætti núv. ríkisstj. hefur leikið sjávarútveginn í landinu á undanförnum misserum og raunar mætti segja á undanförnum árum undir forustu Framsfl. sem farið hefur með þessi mál frá því 8. febr. 1980. Morgunblaðið greinir frá því á 2. síðu í gær, sunnudaginn 9. desember, að heildarskuldir sjávarútvegs og fiskvinnslu séu metnar á 21.3 milljarða kr. Segir þar, með leyfi forseta:

„Heildarskuldir sjávarútvegs og fiskvinnslu eru samtals 21.3 milljarðar kr. en eignir samkv. þjóðarauðsmati eru samtals 33.4 milljarðar kr. Skuldirnar eru því 63.8% af eignum. Þessar upplýsingar koma fram í plöggum frá hagfræðideild Seðlabanka Íslands sem Morgunblaðið hefur fengið send. Þjóðarmatseign útgerðarinnar er 15.8 milljarðar, en skuldir rúmir 12 milljarðar eða 75.4% af eignum. Eignir fiskvinnslunnar eru 17.5 milljarðar, en skuldir 9.3 milljarðar eða 53.2% af eignum.“

Þetta er rakið með feitu letri á 2. síðu Morgunblaðsins í gær og þar segir einnig, með leyfi forseta: „Þjóðarauðsmat eigna í skuldayfirliti sjávarútvegs í opinberu lánakerfi er skv. bráðabirgðatölum frá 1. okt. og eru tölurnar endurskoðaðar miðað við gengisfellinguna á dögunum. Í áðurnefndum plöggum kemur hins vegar fram að eignir samkvæmt tryggingamati eru nokkru hærri en svokallað þjóðarauðsmat eigna. Eignir útgerðar eru samkvæmt tryggingamati 18.5 milljarðar kr. og miðað við þá viðmiðun eru skuldir útgerðar 64.9% af eignum. Í grein Bjarna Braga Jónssonar aðstoðarbankastjóra Seðlabankans, en hún fylgdi tölunum, segir m.a.:

„Niðurstöðutölurnar benda eindregið til þess að enn hafi syrt í álinn svo um munar. Sá vermir“ — þetta er orðalag þess sem er vitnað er til — „sem skuldarar hafa af gengisfellingunni verður skammgóður. Hann stafar af rýrnun lána sem ekki eru gengistryggð. Mikill hluti þeirra er verðtryggður og mun því hækka meira en afurðaverð og tekjur og eignamat á næstunni. Flest önnur lán án gengisákvæða bera breytilega vexti sem líklegir eru til að hækka með örari verðhækkunum. Greiðslubyrði þessara lána verður þá þyngri en annarra.“

Þetta er tilvitnun í orð Bjarna Braga Jónssonar og þetta er sú fregn sem mátti lesa á 2. bls. Morgunblaðsins í gær.

Það er út af fyrir sig hægt að vekja athygli á því að þessi fréttaflutningur Morgunblaðsins í gær um stöðu sjávarútvegsins er ekki fram kominn af neinni tilviljun. Hann er framhald af ábendingum frá ritstjórn Morgunblaðsins sem lesa mátti líklega s.l. laugardag, í öllu falli í síðustu viku, þar sem núv. hæstv. sjútvrh. var sent nokkuð fast skeyti fyrir bóginn. Þar var það dregið fram að meðferð hans á sjávarútvegsmálum hefði að mati þessa aðalmálgagns Sjálfstfl. ekki verið með þeim hætti sem Sjálfstfl. teldi vænlega horfa. Þá gerðist það raunar jafnframt að hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson fékk alveg sérstaka viðvörun frá Morgunblaðinu í sambandi við þann málaflokk sem hann fer með.

Það er út af fyrir sig athyglisvert að Morgunblaðið telur málefnum sjávarútvegsins í landinu þannig komið að það megi eigi lengur við bindast, það verði nú að ganga fram með þeim hætti, sem ég hef bent hér á, að ráðast með mjög ákveðnum hætti í ritstjórnargrein að samstarfsráðh. Sjálfstfl., í þessu tilviki ráðh. Framsfl. Ég er út af fyrir sig ekkert undrandi á því þó Morgunblaðinu sé farið að ofbjóða í þeim efnum því að þannig er komið fyrir stöðu okkar undirstöðuatvinnuvegar, sjávarútvegsins, að allir mega sjá að við strandi liggur og raunar hefur þegar rekið í strand á ýmsum stöðum á landinu. Nú er svo komið að yfirlýsingar liggja fyrir um það að togskip, ein tíu talsins, séu ekki veðhæf talin og það sé engrar aðstoðar að vænta frá opinberri hálfu til þess að hlaupa undir bagga með þeim byggðarlögum sem í hlut eiga, með þeim aðilum sem fyrir þessari útgerð standa. Ríkisstj. hefur látið það frá sér fara og hæstv. sjútvrh. að þar verði ekkert aðhafst til þess að komast hjá skuldaskilum og uppboðum á viðkomandi togurum. Þetta eru kuldalegar kveðjur, sem þarna koma fram, og þegar litið er til þeirra ástæðna sem liggja þar að baki, ástæðna sem eru fyrir því að svona er komið, þá er fyllsta ástæða fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að taka undir þær viðvaranir og vekja athygli á þeirri miklu vá sem við blasir í sambandi við rekstur og rekstrarstöðu sjávarútvegsins í landinu. Þar er vissulega um að ræða efni sem er nátengt þessu frv., ákvörðun fiskverðs og hvað kemur í hlut útgerðar og sjómanna í sambandi við það.

Þetta mál tengist jafnframt og alveg sérstaklega byggðamálum í landinu, stöðu landsbyggðarinnar. Sjávarútvegurinn er undirstöðugrein í langflestum byggðarlögum við sjávarsíðuna og sú staða og þrengingar sem sjávarútvegurinn hefur verið í nú um skeið veldur því að nú er mjög þröngt fyrir dyrum í mörgum byggðarlögum hjá fjölmörgum aðilum sem tengjast þessum rekstri og atvinna þess fólks sem við sjávarútveginn starfar er í hættu og raunar margir atvinnulausir.

Ég þekki þessi mál vel úr því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir, af Austurlandi, því að þar var málum þannig komið s.l. sumar að útgerðarmenn frá mörgum fyrirtækjum þar í fjórðungi sáu þann kost vænstan að lýsa yfir rekstrarstöðvun og bindast sammælum um stöðvun og létu aðgerðir eftir fylgja þó að þeir féllust á það fyrir þrábeiðni stjórnvalda að fresta aðgerðum um mánaðarskeið. Þetta var gert í von um að núv. ríkisstj. tæki á vandamálum sjávarútvegsins með þeim hætti að menn sæju þar eitthvað lengra en til dagsins í dag. Það var hins vegar ekki gert. Um mánaðamótin júlí-ágúst rumskaði loksins ríkisstj. við sér í þessum efnum og hæstv. sjútvrh. eftir að m.a. stjórnarandstaðan og Alþb. höfðu tekið á þessum málum og lagt fram mótaðar tillögur um hvernig við skyldi bregðast í málefnum sjávarútvegsins.

Það var á sameiginlegum fundi þingflokks og framkvæmdastjórnar Alþb. þann 24. júlí að gerð var samþykkt um þessi efni og tekið var undir m.a. í þeirri samþykkt málflutning og tillögur aðila sem gjörkunnugir eru í sjávarútvegi og útgerð. Þetta voru ekki tillögur til lausnar á frambúðarvandamálum sjávarútvegsins, heldur tillögur sem áttu að leiða til þess að ekki yrði um stöðvun að ræða og það gæfist hlé til að fara yfir málefni þessarar greinar.

Í framhaldi af þessari till.-gerð, sem ég, herra forseti, ætla að þessu sinni ekki að fara að lesa upp hér í einstökum atriðum þó full ástæða væri til, flutti Alþb. hér á þinginu till. til þál. um kosningu þingnefndar vegna rekstrarvanda í íslenskum sjávarútvegi. 1. flm. þeirrar till. var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hann mælti fyrir henni hér í Sþ. Umræðu um till. var frestað og henni var vísað til n., en ég hlýt að vekja athygli á því hér í tengslum við þetta mál að atvmn. Sþ., sem ég hygg að hafi fengið till. til meðferðar, hefur ekki komið saman til að fjalla um þetta brýna mál. Ég hlýt að mótmæla því alveg sérstaklega að svo hefur ekki verið gert og vekja athygli hæstv. forseta á því að þetta mál, sem er brýnna en flest önnur sem hér eru til meðferðar í þinginu, og eru þó mörg mál hér stór og brýn, hefur ekki fengið neina umfjöllun í n. enn sem komið er.

Í þessari till. sem Alþb. hefur flutt hér á þinginu er lagt til að Alþingi álykti að kjósa nefnd sjö þm. er skilgreini rekstrarvanda íslensks sjávarútvegs, safni saman upplýsingum og bendi á leiðir til úrbóta. Það er einnig gert ráð fyrir því í þessari till. að nefnd þessi geri samanburð á rekstrarskilyrðum útgerðar og fiskvinnslu hér á landi og í samkeppnislöndum okkar. Í því sambandi athugi nefndin sérstaklega eftirfarandi — ég leyfi mér að vitna til þess sem þar er tilgreint, með leyfi forseta:

„1. olíuverð til fiskiskipa,

2. orkuverð til fiskvinnslu, svo sem frystingar og bræðslu,

3. viðhalds- og þjónustukostnað, svo sem verð á tækjum, vélum og varahlutum,

4. fjármagnskostnað og fjárfestingar,

5. flutningskostnað útflutningsafurða,

6. söluverðmæti afurða á erlendum mörkuðum,

7. launakostnað í veiðum og vinnslu,

8. ríkisstyrki.“

Þetta eru átta tilgreind atriði sem þarna er lagt til að tekin verði til meðferðar á vegum nefndar sem þingið kjósi. Þá er einnig gert ráð fyrir því að nefnd þessi taki til athugunar skipulag veiða og vinnslu og geri tillögur um ráðstafanir sem tryggi að eðlilegt samræmi verði á milli afkastagetu skipa og fiskvinnslustöðva. Fleiri atriði koma þarna fram sem veganesti til þessarar nefndar sem ekki hefur fengist rætt í atvmn. Sþ. þó að þessi till. hafi til hennar komið. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann kanni hvað valdi því að þessi þýðingarmikla n. þingsins, atvmn. Sþ., hefur ekki verið kvödd saman, taki það mál upp við forseta Sþ. og hlutast verði til um það að á þessu verði ráðin bót hið fyrsta. Ég tel að þessi till.-flutningur af hálfu Alþb. sé þýðingarmikið veganesti í þá nauðsynlegu umræðu sem þarf að fara fram innan þingsins um þá stöðu sem íslenskur sjávarútvegur er staddur í.

Það liggur fyrir og var dregið fram í umr. um þessi mál af þeim útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum á Austurlandi sem sáu sig tilknúin að stöðva rekstur skipa sinna á s.l. sumri að taprekstur hefði orðið á togurum á Austurlandi á undanförnum þremur árum sem svaraði til 20 millj. kr. á togara. Fyrirtækin sem um var að ræða, ég held um 12 talsins, hefðu á undanförnum misserum tapað eigin fé sínu, nær 400 eða röskum 400 millj. kr. ef ég man rétt, og væru nú með eiginfjárstöðu á núlli. Þetta er uppskeran sem orðið hefur í sambandi við rekstrarstöðu útgerðarfyrirtækja í kjördæmi núv. hæstv. sjútvrh., sem hefur að vísu ekki farið með þessi mál nema um þriggja missera skeið, en áður var það formaður Framsfl., hæstv. núv. forsrh., sem bar ábyrgð á þessum málaflokki í tíð fyrrv. ríkisstj.

Það liggur fyrir, að ég tel óyggjandi, að sjávarútvegurinn hefur verið skilinn eftir með þeim hætti af núv. ríkisstj. að við strandi hefur legið hjá fyrirtækjum víða á landinu á undanförnum mánuðum og misserum. Þannig er nú komið stöðu togaraútgerðar í landinu að þar er um að ræða 10 skip, tæknilega vel útbúin skip, sem eru komin undir hamarinn og það liggur fyrir yfirlýsing um það frá hæstv. sjútvrh. að ekkert verði aðhafst af stjórnvalda hálfu til þess að leiðrétta þá stöðu. Það hefur líka verið vakin á því athygli að Framsfl. og Samband ísl. samvinnufélaga, en margir rekja tengsl þar á milli, noti sér þá neyðarstöðu sem fyrir liggur hjá sjávarútvegsfyrirtækjum til að breyta eignaafstæðum í íslenskum sjávarútvegi frá því sem verið hefur, frá blönduðu eignarhaldi, frá dreifðu eignarhaldi og þ. á m. frá einkarekstri í smábátaútgerð yfir í það að ná eignum í sjávarútvegi ekki síst undir væng Sambands ísl. samvinnufélaga. (Gripið fram í: Hvað eru samvinnufélögin?) Nú er það út af fyrir sig hvort menn telja það æskilega þróun að svo verði. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að samvinnuhreyfingin í landinu eigi hlut í útgerð og hún standi að útgerð og ég hef verið því meðmæltur sem einn af meðlimum samvinnuhreyfingarinnar. En ég tel það hins vegar vera mjög varhugavert að sú þróun eigi að ganga yfir að þessi undirstöðuatvinnugrein falli undir Samband ísl. samvinnufélaga m.a. á meðan ekki er tryggt að breyting verði á ýmsum grundvallarþáttum í uppbyggingu samvinnuhreyfingarinnar, þar sem að lýðræðisleg vinnubrögð hafa verið á undanhaldi í sambandi við störf og uppbyggingu samvinnuhreyfingarinnar í landinu, því miður verð ég að segja. Áhrif hinna einstöku félagsmanna hafa farið þar dvínandi og völdin hafa í vaxandi mæli dregist á fárra hendur.

Hv. ritari, hv. þm. Stefán Guðmundsson, getur hrist höfuðið út af þeim orðum, en ég gæti bent honum á mörg atriði í skipulagi samvinnuhreyfingarinnar sem ekki hafa fengist tekin upp og ekki fengist fram breytingar á svo sem æskilegt væri til þess að tryggja tengsl þeirra sem eru hinir almennu félagar í samvinnuhreyfingunni við ákvarðanatöku og ákvarðanaval innan Sambands ísl. samvinnufélaga. Þetta er kannske ekki meginatriði máls þótt ég vekti athygli á því, en ég skil ósköp vel að flokkur sem einu sinni taldi sig þurfa að taka til hendi og leggja orð í belg þegar útgerð á Íslandi var annars vegar, og þar á ég við Sjálfstfl., sé orðinn nokkuð áhyggjufullur yfir þessari þróun og áhyggjufullur yfir því hvernig komið er rekstraraðstæðum í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef hins vegar ekki mikla von um að þessi þróun, sem nú liggur fyrir, nægi til þess að Sjálfstfl. taki sig á í þessum efnum því að þar hefur orðið breyting á bæ ekki síður en innan Framsfl. á síðustu árum og áratugum. Það eru aðrir hagsmunir ráðandi en hagsmunir í frumvinnsluatvinnugreinum í landinu þegar litið er til Sjálfstfl.

Það er rétt að líta aðeins til þeirra aðgerða sem hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. beittu sér fyrir í sambandi við sjávarútvegsmálin á síðasta sumri. Það voru gefin fyrirheit um þætti sem gengu mjög skammt, en þó aðeins til móts við þær kröfur sem fram höfðu verið settar um leiðréttingu á rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins. Það voru m.a. færðar til baka þær breytingar á afurðalánum sem ákveðnar höfðu verið af Seðlabanka Íslands og raunar með samþykki ríkisstj. sem hafði vald á þeim þætti, þ.e. afurðalánunum sérstaklega, en þar hafði verið lækkað afurðalánahlutfallið, eins og menn muna sérstaklega, á s.l. vori. Það tókst að knýja ríkisstj. til þess að breyta þar til um mánaðamótin júlíágúst í sumar og hækka afurðalánahlutfallið á nýjan leik upp í 75%. Þetta var aðgerð sem gekk lítillega til móts við kröfur útgerðar og fiskvinnsluaðila á þeim tíma.

Annað atriði, sem þar kom til og útvegsmenn mátu nokkurs við hæstv. sjútvrh., var að um þriggja mánaða skeið var fallist á að greiða niður olíukostnað fiskiskipa um 3% með greiðslum gegnum Aflatryggingasjóð og með framlögum úr ríkissjóði. Þetta var tímabundin aðgerð um þriggja mánaða skeið, en síðan hefur komið fram að ríkisstj. hygðist fá framlengingu á þessum stuðningi um smátíma í viðbót eða til næstu áramóta vegna þess að ekki eru enn komnar fram tillögur af stjórnvalda hálfu um hvernig olíukostnaði til fiskiskipa verði náð niður til frambúðar. Þetta varð þó skammgóður vermir hjá hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. því að það höfðu ekki liðið margir dagar, ekki margar vikur a.m.k., þegar þessi hýra, sem þarna var veitt til sjávarútvegsins, var dregin til baka í reynd með sérstakri vaxtahækkun með því að vextir í landinu voru gefnir frjálsir. Sú bót sem útvegurinn í landinu taldi sig hafa fengið um skamma hríð, að vísu með smávegis lækkun á olíukostnaði, var tekin til baka nær samstundis með því vaxtafrelsi sem Sjálfstfl. knúði fram og Framsfl. skrifaði upp á innan ríkisstj. í ágústmánuði s.l. Nú heyrum við að til standi að bæta þar enn gráu ofan á svart með því að hækka vexti sem mun að sjálfsögðu koma niður á þeim sem þurfa á lánum að halda, en það er ekki síst sjávarútvegurinn eins og að honum er búið.

Það er full ástæða til að víkja frekar að þessum aðgerðum ríkisstj. og benda á að þau skilyrði sem sjávarútvegurinn býr við, ef frá eru talin aflabrögðin, sem ég ætla ekki að fara að skrifa á reikning ríkisstj., er á hennar hendi að ákvarða. Allir meginþættir rekstrarskilyrða sjávarútvegsins, ef frá er talinn afli, eru á valdi stjórnvalda. Þar er um að ræða gengi og gengismun þegar um er að ræða breytingar á gengi og þar er um að ræða vextina. Ég hef bent á með hvaða hætti ríkisstj. hefur gripið inn í vaxtaþáttinn, bæði varðandi lánskjör og lánstíma. Þar er um að ræða olíuverð sem ég hef einnig gert hér að umtalsefni og að verulegu leyti er á færi stjórnvalda að grípa inn í. Það hefur verið dregið fram með skýrum hætti á þessu ári hvernig stjórnvöld hafa tekið á árinni að þessu leyti.

Það liggur fyrir að olíuverð til fiskiskipaflotans í landinu er um þriðjungi hærra hérlendis en í nágrannalöndum okkar eins og í Bretlandi og Danmörku. Ég hef hér fyrir mér tölur um verð á gasolíu frá 4. des. s.l., tölur sem ég hef fengið frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Þar liggur það fyrir að eftir olíuverðsbreytinguna hina síðustu, þá sérstöku kveðju sem ríkisstj. sendi inn á aðalfund Landssambands ísl. útvegsmanna, er verðið á lítra af gasolíu hér 10,70 kr. Í Danmörku er það hins vegar 8,17 kr. á lítra og í Englandi 8,14 kr. á lítra. Skv. þessu er verðið á lítra af gasolíu hérlendis 31.4% hærra en í Bretlandi og Danmörku, þar sem það er á mjög svipuðum slóðum.

Hæstv. sjútvrh. hét útgerðarmönnum því að það yrði farið ofan í sauma á þessum málum og ég geri ráð fyrir að hann hafi vænst þess að niðurstöður úr þeirri athugun lægju fyrir innan þess þriggja mánaða tíma sem hann ætlaði að fá fram og fékk raunar fram smávegis niðurgreiðslu á olíukostnaði fiskiskipa. En nú liggur það fyrir að þessar tillögur eru ekki enn komnar og þrátt fyrir það blasir við og var tekin ákvörðun um það síðla í nóv. að hækka verð á svartolíu um 28% og hækka verð á gasolíu til fiskiskipa um rösk 20%. Þetta voru nú efndirnar á þeim vonum og þeim fyrirheitum sem gefin voru og þeim vonum sem vaktar voru meðal útvegsmanna á síðasta sumri í sambandi við olíukostnaðinn.

Það verður að segja eins og það er að ríkisstj. hefur margt illa gert og væri langur listi að fara að rekja það í einstökum atriðum. En það afdrifaríkasta er aðgerðarleysi hennar í sambandi við málefni sjávarútvegsins á Íslandi — sú staða sem skapast hefur í byggðarlögum víða um land sem byggja á sjávarútvegi og þar sem menn horfa sem eðlilegt er með svartsýni fram á komandi ár. Þetta á auðvitað alveg sérstaklega við um þau byggðarlög þar sem útgerðarfyrirtæki eru þegar í strandi og enginn veit hvort undirstöður atvinnulífs, eins og skuttogarar, koma undir hamarinn og hverfa frá viðkomandi byggðarlögum. Það heyrist að vísu úr munni núv. hæstv. valdhafa í þessum efnum að auðvitað hljóti heimamenn að bregðast við og slá saman í púkkið til að varna slíku. Hæstv. sjútvrh. vísar m.a. á sveitarsjóðina í þessum efnum. Sveitarsjóðirnir í byggðarlögunum út um landið verði auðvitað að hlaupa undir bagga og tryggja aukið eigið fjármagn inn í þennan rekstur, kaupfélögin á stöðunum eiga að koma með eitthvað til að reyna að tryggja þetta og almenningur á stöðunum á einnig að koma þarna og leggja fram úr sínum gildu sjóðum — sá almenningur sem ríkisstj. hefur á undanförnum misserum verið að rýra tekjurnar hjá með þeim hætti sem allir vita þannig að þar hefur ekki verið safnað í sjóði.

Niðurstaðan er sú af þessari meðferð sjávarútvegsmála hjá Framsfl. að hagur byggðarlaganna, sem byggja á sjávarútvegi að meginhluta, hefur farið þannig hríðversnandi mánuð eftir mánuð að fjármagnið hefur verið að flytjast frá þessum stöðum með beinum hætti til þeirra aðila sem draga sér fé út úr rekstri í íslenskum sjávarútvegi, til olíufélaganna í landinu sem raka þar saman gróða og hirða gróða til eftirlitslausrar og skipulagslausrar fjárfestingar, olíufélaga sem hafa efni á því að reisa án þess að blikna olíustöðvar í byggðarlagi eftir byggðarlag, olíustöðvar, dreifistöðvar, sem kosta 15–20 millj. kr. eins og gert var af olíufélaginu Skeljungi, svo að dæmi sé tekið, austur á Egilsstöðum á s.l. vori. Það er ekki verið að hrófla við þeim aðilum sem þannig fara með fjármuni. Þar dugir samtrygging núverandi stjórnarflokka í sambandi við olíufélögin. Þar má engu breyta í sambandi við þá eftirlitslausu óhófsfjárfestingu sem þessir aðilar standa fyrir.

Hverjir eru það fleiri sem hafa þarna hirt sitt og hafa sínar höfuðstöðvar hér í Reykjavík? Það eru skipafélögin í landinu sem hafa dregið til sín tugi milljóna, hundruð milljóna í hreinan ágóða á undanförnum misserum í skjóli núv. ríkisstj. og hafa séð sér fært að standa í fjárfestingarkapphlaupi sem auðveli væri að sýna fram á með skipakaupum þessara aðila á undanförnum misserum. Hvaðan eru aurarnir komnir til skipafélaganna? Ætli þeir séu ekki að drjúgum hluta komnir frá íslenskum sjávarútvegi?

Hvað gerðist um daginn þegar Eimskip loksins var knúið til að taka þátt í útboði á flutningi á fiskafurðum frá landinu? Jú, það fengust farmgjöld sem voru um 30% lægri en þau sem fyrir voru. Það hefði kannske fyrr mátt taka þannig á málum að láta reyna á hina frjálsu samkeppni í sambandi við þennan þátt. Það liggur jafnframt fyrir að skipafélagið Hafskip, sem ekki lepur dauðann úr skel, telur sig geta komist mjög vel af á töxtum sem svara til þeirra sem Eimskip nú hefur boðið í sambandi við útflutning á fiskafurðum frá landinu. Hvað skyldi það hafa gengið lengi að skipafélögin hafi getað gengið fram með þessum hætti í skjóli Sjálfstfl. og Framsfl.?

Það eru ekki aðeins olíufélögin og er þeirra hlutur þó stór. Í sambandi við þau er ástæða til að minna á að olíuverð í Bandaríkjadölum talið hefur líklega tífaldast á 10 ára tímabili. Ætli olíufatið hafi ekki verið á tæpa 3 dali 1973, og ætli það liggi ekki á Rotterdammarkaði nálægt 30 Bandaríkjadölum olíufatið, og hefur raunar verið þar yfir. Ætli þessi verðþróun ásamt álagningarprósentu olíufélaganna hafi ekki orðið til þess að skila þessum aðilum drjúgum hagnaði á undanförnum 10 árum? Og ætli sé ekki mál til þess komið að farið sé að líta á þetta dæmi og það m.a. í tengslum við kjör sjómannastéttarinnar í landinu og þann hlut sem þeim er ætlaður skv. því frv. sem hér er til umr. þar sem gert er ráð fyrir að binda kjör þeirra fram til loka ágústmánaðar á næsta ári?

Hvað ætli megi svo segja um bankana — bankastofnanirnar í landinu sem eru undir sérstökum verndarvæng núv. ríkisstj., bankastofnanir í landinu sem fengu það frelsi í ágústmánuði s.l. að Sjálfstfl. taldi að brotið væri í blað í sambandi við efnahagsstjórn í landinu. Þegar bankarnir fengu vaxtafrelsið var það að sjálfsögðu notað um leið til að hirða strax frá íslenskum sjávarútvegi og íslenskum atvinnurekstri stórar upphæðir og nú heyrum við að þar eigi að bæta um betur.

Við lásum það að vísu skömmu eftir að ákvarðanir voru teknar með blessun hæstv. ríkisstj. um vaxtafrelsið að það mundi ekki standa lengi. Við lásum það í ritstjórnargreinum Nýja Tímans að þess yrði skammt að bíða að þeirri þróun yrði snúið við. En það eina sem við höfum séð gerast eru kröfur um enn hækkaða vexti, kröfur sem liggja nú á borði hæstv. ríkisstj. og þingflokka ríkisstj. Ég minni á að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir á opinberum fundum, m.a. á fundi sambands sveitarstjórna í Austurlandskjördæmi í septembermánuði s.l., að það yrði mjög fljótlega sem til þess kæmi að vextir yrðu lækkaðir. Hann sér auðvitað hvers konar glæfraspil er hér á ferðinni í sambandi við stöðu þess atvinnuvegar sem hann á að vera hagsmunagæslumaður fyrir, þar sem er sjávarútvegurinn. En hann hefur ekki enn þá sett hnefann í borðið í sambandi við þessa þróun og ég hlýt að spyrja hann og formann þingflokks Framsfl., sem báðir eru hér viðstaddir þessa umr.: Hvar er þetta mál nú statt? Hver er afstaða Framsfl. í sambandi við kröfur Seðlabankans um hækkun á vöxtum? Ætla þeir að láta þar undan? Ætla þeir að taka aftur fyrirheitin og stóru orðin um að þess verði ekki langt að bíða að þeir geri afturræka þá róttæku breytingu á íslensku efnahagskerfi sem sjálfstfl. var að hælast af í ágústmánuði s.l.? Við væntum þess að fá svör í þeim efnum hér á Alþingi og ég hlýt að lýsa eftir þeim svörum við þessa umr. alveg sérstaklega.

Hér er nefnilega um að ræða þá þætti sem mestu valda í sambandi við rekstraraðstæður í okkar undirstöðugreinum, sjávarútveginum alveg sérstaklega, þar sem er orkukostnaðurinn annars vegar og fjármagnskostnaður hins vegar.

Ég skal undirstrika þetta með því að rekja hér ákveðið dæmi í sambandi við þessa þætti. Ég hef fyrir mér hvernig þessir kostnaðarliðir hafa breyst hjá einu tilteknu fiskiskipi, sem er rekið í minni heimabyggð, þar sem er Barði NK-120. Að vísu eru það þrjú skip sem gerð hafa verið út undir þessu nafni frá árinu 1965 að telja, en tölurnar tala samt sínu máli. Ég vil þó gera grein fyrir því áður en ég vitna til þeirra því að þær eru mjög lýsandi um þessa þróun.

Fyrsti báturinn, sem keyptur var og bar þetta nafn, Barði fyrsti, var síldar- og netabátur sem keyptur var 1965 og rekinn til ársins 1970–1971 þegar keyptur var fyrsti skuttogarinn til landsins sem gefið var nafnið Barði NK-120, sem er annar í röðinni. Þessi skuttogari var hliðstæður þeim sem aflað var til Eskifjarðar á sama tíma. Með þeim kaupum var innleidd sú nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi sem fylgdi á eftir víða á landinu með öflun og endurnýjun togaraflotans. Þetta togskip var síðan endurnýjað með kaupum á nýjum skuttogara 1980.

Hvernig hefur nú þróunin orðið í sambandi við olíukostnað hjá skipum undir heitinu Barði á þessum tíma? Á árinu 1965 er olíukostnaðurinn 3.4% af aflaverðmæti skipsins og árið eftir 3.9%. Þessar tölur hafa hækkað á árinu 1969 og eru þá orðnar varðandi olíuna 8.9%. Árið 1973, árið sem olíuverðið fer af stað, er olíukostnaðurinn 10.4% af aflaverðmæti. Árið 1980 er þessi tala hins vegar komin upp í 17.8% og á árinu 1983 er olíukostnaðurinn orðinn 25.7% af aflaverðmæti þessa tiltekna togara. Olíukostnaðurinn er sem sagt orðinn fjórðungur af aflaverðmæti. Ég veit að það er hægt að nefna dæmi um togskip með mun meiri orkukostnaði á sama tíma, eða á bilinu 30–40%. Þetta eiga menn að hafa í huga þegar litið er á hversu þungt olíukostnaðurinn vegur inn í rekstraraðstæður hjá íslenska fiskiskipaflotanum og hversu miklu það varðar að þeirri verndarhendi, sem núv. ríkisstjórnarflokkar hafa haldið yfir gróða olíufélaganna hér á landi um langt árabil, verði svipt burt, það verði tekið á málefnum olíufélaganna og þeim gróða sem þessi félög hirða út úr íslenskum atvinnurekstri og alveg sérstaklega út úr íslenskum sjávarútvegi með handahófskenndri fjárfestingu, offjárfestingu sem blasir við hvers manns augum um land allt. Ég hlýt að spyrja hæstv. sjútvrh. að því: Hvenær mun hann skila Alþingi skýrslu um verðmyndun á olíu hér í landinu? Hvenær er að vænta uppskeru af starfi þeirrar nefndar og þeirra aðila sem hæstv. sjútvrh. setti í að fara ofan í verðmyndun á olíu? Megum við vænta þess að fram komi hér á þinginu fyrir hátíðar, fyrir þinghlé, upplýsingar um þessi atriði?

Ég veit að það bíða margir eftir því að fá svör við þessu. En hvað um hinn þáttinn, fjármagnskostnaðinn, hinn stóra þáttinn sem hefur breytt með afgerandi hætti rekstraraðstæðum í íslenskum sjávarútvegi? Hvernig hefur það dæmi þróast þegar litið er til Barða NK-120? Árið 1965 var vaxtakostnaður þessa skips 3.6% og hann var hinn sami árið eftir, 3.6% af aflaverðmæti. Á árinu 1971 er þessi fjármagnskostnaður hins vegar 11.1%, árið 1973 10.5%, og árið 1980 er vaxtakostnaðurinn kominn í 17.6% og hann fer á árinu 1982 upp í 22.6%. Þarna eru sem sagt tveir þættir, orkukostnaðurinn og fjármagnskostnaðurinn, sem báðir eru talnalega á svipuðum slóðum og nema á undanförnum misserum hátt í fjórðungi hvor af aflaverðmæti viðkomandi skuttogara. Það þarf engan að undra þó að það blási ekki byrlega í íslenskum sjávarútvegi og Morgunblaðið geti reitt fram tölur, reiknaðar út í hagdeild Seðlabanka Íslands, svipaðar þeim og ég var að rekja í upphafi míns máls í sambandi við skuldastöðu og eiginfjárstöðu í íslenskum sjávarútvegi, þegar slík stökkbreyting hefur orðið á undirstöðuþáttum varðandi rekstraraðstöðu í þessum atvinnuvegi. Fjármagnskostnaðurinn hefur hækkað úr því að vera undir 4%, eins og ég gat hér um, og upp í að verða hátt í fjórðungur af aflaverðmæti viðkomandi skips og svipuð þróun hefur orðið varðandi orkukostnaðinn og er þó engan veginn um verstu myndina að ræða sem finna má í sambandi við þróun þessara útgjaldaliða hjá fiskiskipum eða togskipum í landinu.

Það þarf ekki að hafa sterk áfellisorð uppi í sambandi við stöðuna í íslenskum sjávarútvegi og hlut stjórnvalda í þeim efnum þegar svo augljósar tölur liggja fyrir og þegar það liggur fyrir að núverandi stjórnarflokkar hafa sameinast um það nú sem löngum fyrr, því að þeir hafa einnig gert það í samsteypustjórnum þar sem þeir hafa ekki alltaf verið samskipa, að halda verndarhendi yfir arðráni þeirra milliliða, þar sem eru undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar, vegna fjármagnstengsla ráðandi afla í þessum flokkum við þessa milliliði, við olíufélög og við bankastofnanir í landinu sem hafa hirt stóran hlut út úr þessum rekstri. Það er ekki að undra þó að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi látið í sér heyra í sambandi við þessi mál á nýlega afstöðum aðalfundi LÍÚ. Þar var ályktað um þessi mál og ég sé ástæðu til að minna á það sem þar kom fram í sambandi við t.d. olíumálin og vaxtamálin. Í samþykktum LÍÚ-fundarins sagði m.a., með leyfi forseta, um olíumál:

„Olíuverði verði haldið í lágmarki, útgerðir njóti stórviðskipta sinna í lægra olíuverði og allar opinberar álögur á olíuverð verði afnumdar. Enn fremur krefst fundurinn þess að endurskoðun á verðlagningu olíuverðs verði flýtt og það haft að leiðarljósi að sú endurskoðun leiði til verðsamkeppni milli söluaðilanna.“

Út af þeirri sérstöku kveðju sem aðalfundi LÍÚ barst frá hæstv. ríkisstj. í sambandi við hækkun á olíuverði ályktaði fundurinn svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fundurinn mótmælir harðlega þeirri gífurlegu hækkun á olíu sem nú hefur verið ákveðin á gasolíu um 20% og á svartolíu um 28%, og kosta mun útgerðina um 400 millj. kr. á ári. Fundurinn beinir því til fulltrúa samtakanna í Verðlagsráði sjávarútvegsins að samþykkja ekki fiskverð nema tryggt sé að það standi undir þessum gífurlega kostnaðarauka.“

Auk þessara ályktana samþykkti LÍÚ tillögur frá nefndum sem störfuðu á fundinum um að ef yrði ekki hér róttæk breyting á og stjórnvöld ekki stæðu við gefin fyrirheit um lækkun á olíukostnaði til fiskiskipaflotans hlytu útgerðaraðilar að gera kröfu til þess að fá heimildir til að flytja inn olíu til landsins í gegnum eigin samlög og raunar er það vitað að það hefur orðið þrautalending hjá ýmsum útgerðaraðilum á Íslandi í tengslum við útflutning fiskafurða að fá áfyllingu á skipin sem ella væru strand í mörgum tilvikum ef ekki hefði komið til nauðvarnaraðgerða í tengslum við slík innkaup á olíu.

Hér er um svo alvarleg atriði að ræða að það er algerlega óhjákvæmilegt að þingið taki þau til ítarlegrar umr., og það miklu ítarlegri en kostur gefst á hér undir þessum dagskrárlið, áður en þingið fer í jólaleyfi. Ég get og mun ýmsu þar við bæta þegar á dagskrá kemur sérstakt frv. um ráðstafanir í sjávarútvegi því að mörgu er við það að bæta sem ég hef hér komið að. Áhyggjur fólks vítt um landið yfir stöðunni í sjávarútvegi eru skiljanlegar, en það er kaldranalegt að þegar ráðamenn, eins og núv. hæstv. forsrh., koma í heimsókn til viðkomandi byggðarlaga er fátt um svör vegna þess að stefna hefur ekki verið mótuð. Ríkisstj. hefur engar aðgerðir fram að færa svo vitað sé til að leiðrétta stöðuna, þvert á móti. Vaxtahækkanir er það sem boðað er að líkur séu á að geti verið í vændum. Hæstv. forsrh. hafði það að segja við fólkið á Hvammstanga, sem hann var að tala við um daginn, að það yrði nú að gá að því að landsbyggðarmenn ættu þó nokkra sök í þeirri þróun og þeirri byggðaröskun sem yfirvofandi sé vegna þess að þeir séu svo margir að fjárfesta í Reykjavík, það sé veruleg skýring á þeim fólksflótta sem brostinn er á víða úti um landið að fólkið úti á landi sé að fjárfesta í Reykjavík. Ég veit að hv. alþm. tóku eftir þessum orðum sem fjölmiðarnir hentu á lofti eftir forsrh. landsins á Norðurlandskjördæmi vestra þegar hann var að svara áhyggjum manna þar vegna þeirrar stöðu sem blasir við í undirstöðugreinum, ekki aðeins í sjávarútvegi heldur einnig í landbúnaði.

Virðulegi forseti. Ég læt þessi orð nægja að þessu sinni, hefði þar þó mörgu við að bæta, og ég treysti því að ég geti fengið orðið aftur við þessa umr. eftir því sem ástæða er til eða þá tekið þessi mál til frekari umr. í sambandi við önnur mál er tengjast stöðu sjávarútvegsins.