11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 74 hef ég borið fram fáeinar fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi hugsanlegt álver við Eyjafjörð. Ég lagði þessar fsp. fram á síðasta þingi en þá gafst ekki tími til að fjalla um þær fyrir þinglausnir. Afhenti hæstv. ráðh. mér þá drög að svörum sínum skriflega og fór málið ekki lengra að sinni. Í sumar urðu síðan töluverðar umræður og skrif á opinberum vettvangi um þetta hugsanlega stóriðjufyrirtæki. Þar sem því fer fjarri að mál þetta hafi fengið einn eða annan endi eða svör komið opinberlega fram við þeim fsp. sem ég beindi til hæstv. ráðh. hef ég borið spurningar mínar fram aftur hér nú.

Hugmyndir um að reisa álver við Eyjafjörð eru ekki nýjar af nálinni frekar en hugmyndir um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi yfirleitt. Má til sanns vegar færa að slíkar hugmyndir séu eins og gamlir húsdraugar á íslenska þjóðarheimilinu, sem sumir heimilismenn halda þó áfram að ala, þótt sjá megi að draugarnir gera lítið annað en að valda usla og erfiðleikum á heimilinu og tapi á heimilisrekstrinum. Það sýnir okkur svo ekki verður um villst saga álbræðslunnar í Straumsvík og viðskipti okkar við auðhringinn Alusuisse vegna hennar, en síðasti kapítuli þeirrar sögu er hv. þm. væntanlega enn í fersku minni eftir afgreiðslu Alþingis þar á nú á dögunum.

En draugarnir eru lífseigir. Þar er til að taka í þessu máli að í janúar s.l. samþykktu þrír flokkar í bæjarstjórn Akureyrar að óska eftir álveri við Eyjafjörð. Þessi ósk var borin fram og henni síðan fylgt eftir af ýmsum áhrifamönnum í héraðinu enda þótt vitað væri að mengunarhætta af álbræðslu er gífurleg og gæti komið til með að raska lífríki og náttúrlegu umhverfi í því blómlega landbúnaðarhéraði sem Eyjafjörður er.

Ekki hefur það heldur dregið kjarkinn úr þeim sem fylgjandi eru þessum atvinnurekstri í héraðinu að stóriðjurekstur af þessu tagi hefur hingað til verið rekinn með bókfærðu tapi hér á landi. Má minna á í því sambandi að bókfært tap álbræðslunnar í straumsvík á síðasta ári nam 325.7 millj. kr. skv. upplýsingum iðnrn. Fjöldamargt má fleira til taka, eins og það að ekki hefur það heldur dregið kjarkinn úr mönnum að vitað er að til þess að reisa álbræðslu við Eyjafjörð þarf að leggja í gríðarlegar virkjanaframkvæmdir hér á landi og að vitað er að það hefur verið farið of hratt í slíkar framkvæmdir á undanförnum árum, eins og erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins sanna, en eins og menn vita eru 52% þeirra til komin vegna orkumála.

Þótt allt þetta sé vitað hefur ósk um álver við Eyjafjörð verið borin fram og henni verið fylgt eftir m.a. með viðræðum við auðhringinn Alcan um að reisa verksmiðjuna. Í ljósi þessa og einnig í ljósi þess hversu gífurlega stór þáttur virkjanamál eru í íslensku efnahagslífi hef ég spurt hæstv. iðnrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hver er staða umhverfisrannsókna vegna hugsanlegrar byggingar álvers við Eyjafjörð?

2. Hvenær verður þessum rannsóknum lokið, hve mikið hafa þær kostað til þessa, hve mikið er áætlað að þær kosti í heild og hver borgar þær?

3. Hvaða veðurfræðileg og hagfræðileg gögn verða notuð við mat á mengunarhættu frá álverinu við Eyjafjörð og yfir hvaða tímabil munu þær rannsóknir ná sem gögnin verða byggð á?

4. Á hvaða stigi eru viðræður við erlenda aðila um rekstur álvers við Eyjafjörð og um hversu stórt álver er rætt?

5. Ef álver verður ekki reist við Eyjafjörð er þá í athugun uppbygging annars konar iðnaðar þar og þá hvers konar?

Að lokum langar mig til að bæta við einni fsp. til hæstv. ráðh. Hún er reyndar innifalin í þeim fsp. sem ég hef þegar borið fram en ég tel réttara að orða hana hér og nú svo að hún fari ekki milli mála. Hún er þessi: Hver er stefna hæstv. iðnrh. varðandi byggingu álvers við Eyjafjörð?