11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Svar við 1. spurningu á þskj 74 frá hv. 11. þm. Reykv.: Umhverfisrannsóknir í Eyjafirði á vegum staðarvalsnefndar hófust í október 1981. Þá var settur upp síritandi vindmælir í grennd við Hjalteyri og skráir hann vindhraða og vindstefnu. Mælingar þessar hafa staðið óslitið síðan og verða svo enn um hríð.

Náttúrufarskönnun á vesturströnd Eyjafjarðar fór fram á árinu 1982, unnin af Náttúrugripasafninu á Akureyri. Niðurstöður voru birtar í skýrsluformi í október sama ár og er þeirri könnun því lokið.

Í ársbyrjun 1983 hófust hitamælingar í Vaðlaheiði til að kanna hitahvörf í Eyjafirði og standa þær enn yfir. Jafnframt fóru fram hitamælingar úr einni af flugvélum Flugfélags Norðurlands í sama skyni.

Sumarið 1983 var lagt straummælingadufl undan Dysnesi í Eyjafirði og hafstraumar mældir um tveggja mánaða skeið. Þá var leitað eftir erlendum ráðgjafa um gerð dreifingarspár fyrir loftmengun og Norsk Institut for Luftforskning falið að annast það verk í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins og Veðurstofu Íslands.

Svar við 2. spurningu: Stefnt er að því að niðurstöður úr dreifingarspá fyrir loftmengun frá hugsanlegu álveri við Eyjafjörð liggi fyrir í lok þessa árs.

Kostnaður við ofangreindar umhverfisrannsóknir í Eyjafirði á vegum staðarvalsnefndar er eftirtalinn: 1982 303 503 kr., 1983 532 092 kr., 1984 468 399 kr. og er þá miðað við 1. nóv. Er þá heildarkostnaður á vegum staðarvalsnefndar orðinn 1 303 994 kr. Áætlað er að kostnaður við umhverfisrannsóknir og gerð dreifingarspár nemi 700 þús. kr. það sem eftir er ársins og heildarkostnaður því um 2 millj. miðað við næstu áramót. Þess vil ég geta að það eru nokkrar vikur síðan þetta svar var tilbúið, en vegna fjarveru hv. þm. og af öðrum ástæðum er það ekki gefið fyrr en nú.

Iðnrn. hefur borið allan kostnað af ofangreindum rannsóknum.

Svar við 3. spurningu: Við mat á dreifingu mengunarefna verða notuð öll ofantalin gögn sem aflað hefur verið af staðarvalsnefnd, þ.e. vindmælingar í Arnarneshreppi samfellt frá því í okt. 1981, hitamælingar í Vaðlaheiði frá júní 1983, hitamælingar úr flugvél frá júní 1983, straummæling við Dysnes frá 1983, náttúrufarskönnun á vesturströnd Eyjafjarðar frá okt. 1982. Enn fremur eftirtaldar athuganir sem gerðar voru s.l. sumar: Rannsókn á náttúrlegu flúorinnihaldi gróðurs, úrvinnsla heimilda um mengun frá síldarverksmiðjunum í Eyjafirði, sérstök athugun á hafgolu í Eyjafirði.

Auk ofantalinna gagna verða notaðar ýmsar eldri heimildir, svo sem veðurathuganir á Akureyri 1881, Möðruvöllum og Torfufelli og straummælingar við Oddeyrartanga í Eyjafirði 1973–1974. Ákvarðanir um frekari upplýsingaöflun liggja ekki fyrir en von er á tillögu Hafrannsóknastofnunar, Siglingamálastofnunar og Hollustuverndar ríkisins um frekari könnun hafstrauma í Eyjafirði.

Þegar niðurstöður dreifingarspár á grundvelli ofantalinna gagna og umsagnir innlendra og erlendra sérfræðinga liggja fyrir í lok þessa árs má ætla að umræddar rannsóknir verði teknar til endurmats.

Svar við 4. spurningu hv. þm.: Viðræður við erlenda aðila vegna álvers við Eyjafjörð eru á könnunar- og kynningarstigi. Í hagkvæmniathugun, sem gerð var fyrir iðnrn. á tímabilinu 1982–1983, var miðað við 130 þús. tonna álver. Þau fyrirtæki sem rætt hefur verið við nýlega hafa hins vegar lagt áherslu á að framleiðslugeta þyrfti að vera meiri ef besta hagkvæmni ætti að nást. Í því sambandi hefur verið rætt um 170–180 þús. tonna álver.

Svar við 5. spurningu: Á sviði stóriðju eða orkufreks iðnaðar við Eyjafjörð hefur ekki verið rætt um annars konar iðnað en álver á þessu stigi. Hugleiðingar um álver við Eyjafjörð hafa verið á döfinni meira eða minna um 20 ára skeið, enda eru aðstæður þar, fyrir utan hugsanleg umhverfisvandamál, að öðru leyti hentugar fyrir stórfyrirtæki af þessari gerð. Af hálfu iðnrn. er ekki unnið beinlínis að öðrum meiri háttar athugunum í sambandi við Eyjafjörð. Stuðningur við uppbyggingu almenns iðnaðar er með sama hætti á Eyjafjarðarsvæðinu og annars staðar á landinu.

Hv. 11. þm. Reykv. bætti síðan við þeirri spurningu til mín hver væri mín stefna varðandi álver við Eyjafjörð. Þá er frá því að segja, sem að líkum lætur, að ég tel það að ýmsu leyti álitlegt fyrirtæki og mundi ella ekki beita mér fyrir fjárfestingum til rannsókna á þessu svæði né heldur fyrir viðræðum við hugsanlega áhugaaðila um byggingu slíks álvers nema svo væri. Ég vil samt ítreka það, sem ég hafði áður tekið fram og marglýst yfir, að ég verð ekki til viðtals um byggingu álvers við Eyjafjörð ef minnstu líkur benda til þess að þar geti verið hætta á mengun eða slíkt iðjuver geti skapað að öðru leyti umhverfisvandamál í þeirri sveit.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að bæta fleiru við þessi svör mín. Málið hefur verið mjög til umræðu og mun verða það á næstunni. Það verður áreiðanlega vandað mjög til alls undirbúnings og rannsókna áður en lokaákvarðanir verði teknar. Ég ítreka það sem ég sagði, þetta er á kynningarstigi og könnunar, alls engar ákvarðanir hafa verið teknar og verða ekki teknar nema að mjög vel yfirveguðu ráði, bæði af þeim sem í stjórn lands eru, og þar tala ég auðvitað úr mínu húsi meðan svo stendur á, og eins í samráði við heimamenn að sjálfsögðu.