16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hryggilegur en allt of sannur var sá lestur sem okkur var lesinn hér af hv. 3. landsk. þm., 1. flm. þessarar till. Það þarf ekki langt mál um svo alvarlegt íhugunar- og aðgerðaefni sem hér er hreyft en undir það skal tekið.

Þessi mál voru rædd hér í víðu samhengi í fyrra, oftar en einu sinni og það að vonum. Áhyggjur manna af þessum málum eru víða og menn þekkja velflestir einhver dæmi af eigin reynslu sem þeir hafa komið nálægt og því er það ekki að ófyrirsynju að menn ræði þau hér á löggjafarsamkomunni. Ég bendi á að á Alþingi í fyrra var samþykkt sérstök þál. um skipulagðar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Í lok þeirrar þál. sem samþykkt var á Alþingi 20. des. 1983 — en 1. flm. þessarar till. var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir-segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurstöðum skal skila af því nefndarstarfi sem þar er ákveðið til dómsmrn. eigi síðar en 1. mars n.k.“ Þar sem hér er um það alvarlegan þátt þessa máls að ræða varðandi aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna hlýtur hér þegar þetta mál ber nú á góma að verða spurt að því hvað líði starfi þessa samstarfshóps og hvað hæstv. dómsmrh. hefur að segja um þetta mál og framkvæmd þess. Ég staðnæmdist nefnilega eðlilega við einn lið öllum öðrum fremur í þessari grg. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 5 í grg.:

„Eðlileg viðbrögð til sóttvarnar eru m.a. að einangra smitbera og uppræta þann jarðveg þar sem smitsjúkdómurinn þrífst.“

Það er nefnilega þarfast af öllu að hafa uppi fyrirbyggjandi aðgerðir í þessu sem öðru. En það er erfiðast um leið að finna þær leiðir sem kynnu að duga eitthvað í þessum málum. Hér véla nefnilega um þeir aðilar sem mikið eiga undir sér, sem víða teygja klær valds og auðs og lifa á því í vellystingum praktuglega að auka ógæfu annarra. Það eru engir smákarlar á ferð hér, hvorki úti í hinum stóra heimi né líklega heldur hér á landi. Þar eru þeir örugglega með í þeim ljóta leik sem annars staðar. Hér eiga þessir voldugu aðilar eflaust umboðsmenn sem e.t.v. næst aldrei í, heldur eru það þeir smærri í þessu eða aðstoðarmenn hinna stóru sem lenda í því.

Þetta eru þung orð. En reynslan annars staðar frá sannar þetta ótvírætt og jafnvel svo að þar er um áhrifamenn að ræða á opinberu sviði annars staðar í heiminum sem standa að og skipuleggja slíka starfsemi. Ég ætla að vona að við séum ekki það langt leidd í þessum efnum. Það er áreiðanlega erfitt að koma lögum yfir hina stærstu og alvarlegustu sökudólga hér sem annars staðar hefur reynst í heiminum. Á þessu vek ég sérstaka athygli.

Auðvitað ber þjóðfélaginu og okkur öllum að vera hér vel á verði og ekki síður að rétta þá nauðsynlegu hjálparhönd sem, ef megna mætti, gæti bægt burt einhverjum af þeim hörmungum sem í kjölfar þessarar neyslu fylgja. Hér er talað um athvarf alveg sérstaklega og allt er gott um það að segja og ekki síður þá félagslegu og heilbrigðislegu þjónustu sem er meginatriði þessarar till. til handa þessum ógæfubörnum. Ég segi ógæfubörnum því það er raunar hryggilegra en tárum taki að við erum hér að fjalla um aldurshóp yngri en 18 ára og það eitt út af fyrir sig er ógnvekjandi umhugsunarefni í raun.

Það er rétt að hér komi fram að mat ýmissa þeirra aðila, sem ég hef rætt við um þessi mál, er það að í þessum aldurshópi sé talsverður fjöldi sem hreinlega þarf á sérstakri meðferð að halda á stofnun sem hefði þetta sérstaka verkefni, jafnvel.nokkurra mánaða meðferð sem ein dygði svo sem er um áfengissjúklinga t.d Þegar ég minnist á það vil ég minna á það enn og aftur að tengslin við neyslu annarra vímuefna eru hér ótvíræð, sérstaklega neyslu þeirra á mjög ungum aldri. Öll þessi mál þurfa því að skoðast í heild. Athvarf eða áningarstaður eftir að út af slíku heimili eða stofnun væri komið væri svo sjálfsagt til viðbótar.

Ég skal ekki lengja þessar umr. Grg. og sá lestur sem okkur var lesinn hér áðan segir í raun og veru allt. En eftir er okkar hlutur, að reyna af fremsta megni að koma einhverju því skipulagi á þessi mál sem við getum kinnroðalaust gert að okkar. Ég árétta stuðning við þessa till. um skyldur samfélagsins sem okkur ber að gegna. En ég vil sérstaklega minna aftur á órofatengsl milli allrar vímuefnaneyslu, hvers eðlis sem vímuefnið er. Í því sambandi þarf að skoða þetta mál í heild og fyrirbyggjandi aðgerðir þurfum við að finna sem árangursríkastar þó að vitað sé — og þar undirstrika ég aftur það sem ég kom að áðan — að þar er við aðila að eiga sem ekki eru auðveldir viðfangs með gnótt fjár, víðtæk völd, mikla aðstöðu og undarlega góð sambönd úti í hinum stóra heimi sem hingað reyna örugglega að teygja anga sína.

Verkefnið er því vandasamt og allt mjög viðamikið en því meir knýjandi og ótvírætt engu að síður. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa till.