11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig þarft að taka upp þessa umr. hér og ég þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að gera það. En eins og að líkum lætur er ekki tími til þess hér í fsp.-tíma að fara út í efnislegar umr. um þetta mál. Ég vil bæta nokkrum spurningum við til hæstv. iðnrh. sem mér þykir nauðsynlegt að fá svör við í þessu sambandi.

Hann hefur verið vígreifur nokkuð, hæstv. iðnrh., og svo hafa margir aðrir talsmenn stóriðju verið um það að álver við Eyjafjörð mundi leysa þann atvinnuvanda sem þar er nú við að glíma. Ég held að hér sé varhugaverður málflutningur á ferðinni. Í því sambandi hlýt ég að spyrja hæstv. iðnrh.: Hvað hefur komið fram í þreifingum hans við erlenda aðila um mögulega tímasetningu slíks iðjuvers ef af yrði? Um hve mörg ár fram í tímann er hér verið að ræða?

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. iðnrh.: Hvaða áhrif hafa nýgerðir samningar við Alusuisse um raforkusölu til álversins í Straumsvík og fyrirheit um stækkun þess iðjuvers á það mál sem hér er til umræðu?

Og í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að spyrja vegna þess ágreinings sem uppi er í landinu um það atriði: Hvaða eignarhlutföll í slíku iðjuveri hyggst hæstv. iðnrh. leggja til grundvallar viðræðum sínum við erlenda aðila í þessu sambandi?