11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er einkar athyglisvert að heyra hér heldur ungt og vel menntað fólk flytja þau sjónarmið þröngsýni og afturhalds sem við höfum hlýtt á hér úr þessum ræðustóli. Kvennalistinn hefur haft uppi stór orð um stóriðju og raunar hafa þær líka talað gegn ýmsum tillögum hér almennt um iðnað. Þeirra stefna í atvinnumálum virðist vera mjög á flökti. Þær hafa ekkert mjög harðar skoðanir á því alls staðar, enda eru það kannske ekki hin mjúku gildi sem gilda þar mest. Ég minnist þess að þegar rætt var um fríiðnaðarsvæðið við Keflavíkurflugvöll hér, það var talað um önnur svæði líka, þá kom talsmaður Kvennalistans hér og hafði uppi miklar úrtölur um það mál og leist illa á það í hvívetna.

Sama er uppi á teningnum þegar um stóriðju er að ræða. Í Dagblaðinu í síðustu viku var forustugrein þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eina stjórnmálaaflið, sem virðist andvígt stóriðju hér á landi, er Kvennalistinn. Sú stefna virðist meira byggð á tilfinningum en raunsæi. Eða þá að ruglað sé saman orkufrekum iðnaði og færibandaiðnaðinum sem er að flytjast frá iðnríkjum til þróunarlandanna.

Orkufrekur iðnaður er fámennur, greiðir há laun og hefur yfirleitt gott samstarf við stéttarfélög, nákvæmlega eins og hér í Straumsvík. Allt er þetta gerólíkt útlendum færibandaiðnaði. Og mengun frá orkufrekum iðnaði má örugglega halda í skefjum. Er ekki ræktaður lax við Straumsvík?

Við eigum að hafna afturhaldi Kvennalistans, fráhvarfinu frá orkufrekum iðnaði. En við eigum líka að hafna eyðslustefnu Alþb., kröfunni um íslenska eignaraðild eða meirihlutaeign í þessum iðnaði. Við höfum nóg annað að gera við takmarkað fjármagn.

Við getum leyft okkur að slá fyrir orkuverum sem hafa trygg viðskipti við stóriðju. En við eigum ekki sjálf, hæstv. iðnrh., að taka áhættu af sveiflum stóriðjunnar eða fara inn á markað sem við ráðum alls ekki við. Á því sviði borgar sig að hafa allt á þurru og selja bara orku.

Við eigum að leggja fé okkar í viðráðanlegan iðnað. Við eigum að nýta hverja krónu vel í atvinnutækifærum. Við eigum að sinna iðnaði sem er í tengslum við iðnþróun okkar, þekkingu og aðrar aðstæður. En við skulum líta á orkusölu til stóriðju sem gagnlega hliðarbúgrein.“

Þetta er forustugrein í Dagblaðinu í síðustu viku rituð af Jónasi Kristjánssyni. Ég tek undir hvert einasta orð sem hér er sagt. Þetta er skynsamlega sagt. Ég held að það sé kjarni þessa máls að við eigum að hafna þeirri afturhaldsstefnu sem felst í því að skoða ekki þessa kosti. Það er kjarni málsins. Orkusala til erlendrar stóriðju getur verið gagnleg hliðarbúgrein. Eða á hverju ætla þær Kvennalistakonur Íslendingum að lifa?