11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur þegar vikið að almennum sjónarmiðum okkar Alþb.-manna í sambandi við orkufrekan iðnað og aðra stóriðju í landinu og þau sjónarmið eru vel þekkt.

Ég vil rifja upp að 1980 var sett á laggirnar, á vegum iðnrn. þá, svokölluð staðarvalsnefnd sem fékk það verkefni að kanna hvar komið gæti til álita að setja niður meiri háttar iðnað sem nýtti orku og hráefnaauðlindir landsins. Nefnd þessi var skipuð fulltrúum m.a. frá Náttúruverndarráði og heilbrigðisyfirvöldum í landinu, auk þess sem í henni voru fulltrúar frá Framkvæmdastofnun ríkisins, iðnrn. og Orkustofnun. Á vegum þessarar nefndar var farið mjög vítt yfir sviðið og kannaðir bæði landfræðilegir, náttúrufarslegir og þar með náttúruverndarlegir hagsmunir svo og félagslegir hagsmunir og félagsleg viðhorf í sambandi við uppbyggingu slíks iðnaðar hérlendis. Þessi nefnd skilaði vandaðri úttekt, sem ég hygg að allir hv. alþm. þá hafi fengið, á árinu 1982. Það er grundvallargagn í þessum efnum þar sem tekið er á öllum þessum þáttum varðandi landið allt. Þar var Eyjafjörður ekki sérstaklega til skoðunar, en auk þess var á vegum þessarar nefndar farið ofan í málefni Eyjafjarðar sérstaklega. Ég tel að þessi undirstaða, sem þarna var fengin, og frekara starf, sem unnið hefur verið, eigi að hjálpa mönnum til þess að taka með skynsamlegum hætti á iðnaðaruppbyggingarmálum í landinu.

Þá vil ég geta þess sérstaklega, vegna þess að mig undrar að það skuli ekki hafa komið fram í svari hæstv. ráðh. hér, að árið 1981 hafði iðnrn. frumkvæði að því að sett var á fót sérstök nefnd til að fara yfir iðnþróunarmöguleika á Eyjafjarðarsvæðinu í sérstakri samvinnu við heimamenn og að meiri hluta til voru heimamenn í þeirri nefnd, þ. á m. fulltrúar bæjaryfirvalda á Akureyri, fulltrúar atvinnurekenda á Akureyri, fulltrúar verkalýðsfélaga á Akureyri, svo nokkrir séu nefndir, og auk þess fulltrúar frá Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, sem áttu fulltrúa í þessari nefnd, ásamt fulltrúa frá iðnrn. Formaður þessarar nefndar var Helgi Guðmundsson trésmiður. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. — Nefndin skilaði gildu áliti 1983, líklega tveimur mánuðum eftir að núverandi hæstv. iðnrh. tók við störfum í iðnrn. Meginniðurstaða nefndarinnar var sú, og ég tel nauðsynlegt að hún komi hér fram við þessa umr., að stóriðja ein út af fyrir sig leysti engan vanda varðandi atvinnuuppbyggingu á Eyjafjarðarsvæðinu hvað snertir þörf fyrir ný störf og væri nánast aukaatriði í því samhengi. Það mætti segja að hún leysti í mesta lagi 1/4 af þeirri þörf fyrir ný störf sem þar væri um að ræða. Annað yrði að koma í gegnum annars konar atvinnuuppbyggingu á þessu svæði ef vel ætti að fara.