11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég veit ekki fyrir víst hvað fyrir hv. fyrirspyrjanda vakti með þessari fsp., enda skiptir það ekki máli. Kannske hefur hún ætlað að vekja athygli hér á mjög viðamiklu máli. Ég álít að málið sé í góðum farvegi eins og er og ég vildi gjarnan að allar staðreyndir lægju fyrir áður en farið er að upphefja svarta messu í þessum efnum.

Mér finnst það einkennileg þráhyggja að stagast á því hvað fá störf skapist við stóriðju. Mér er nefnilega alveg sama þó að aðeins einn maður skapi þau verðmæti sem til þarf til að halda uppi nauðsynlegri þjónustustarfsemi og öðru sem í kringum slíkt er þannig að byggð haldist í nágrenninu. Það er staðreynd að fleiri og fleiri menn leita í þjónustu þó að nauðsynlegt sé auðvitað að við sköpum verðmæti úr landsins gæðum. En stóriðja er ekki mannfrekur iðnaður, það er vitað mál. Það eru störfin sem eru í kring um hana sem eru mannfrek.

Það vakti athygli þegar boðsgestir Alcan, ýmsir þekktir mengunarvarnapostular á Eyjafjarðarsvæðinu og álversandstæðingar, komu til baka frá Kanada fremur slegnir því að þeir fundu enga mengun á iðnaðarsvæðinu þar. Þá var farið út í aðra sálma, talað um félagslega mengun, talað um jafnvel litla hagnaðarvon og kennt í brjósti um þá sem hér þyrftu að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum.

Ég veit ekki hvort norskt mastur, 36 metrar á hæð, er það eina rétta sem þarf til þess að finna mengun í loftstraumum Eyjafjarðar.

Og ef það er rétt hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að 90% af sveitafólki í nágrenni væntanlegs staðar fyrir álver í Eyjafirði séu mótfallnir því kemur auðvitað ekkert álver þar. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Mér finnst alveg sjálfsagt að við förum að öllu með gát. En ég ætla að vona að jákvæðar niðurstöður liggi fyrir mjög fljótlega og þá þurfi ekki að eyða tímanum í margar slíkar umr. eins og nú eru.

Ég hlýt að hafa misst af einhverju sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði hér áðan úr því að menn þurfa að koma sérstaklega upp til að vanda um við hann vegna freklegrar móðgunar við kvennalistakonur á Akureyri. Ég hlýt að hafa misst af einhverju eða þá ekki skilið hans mál með þeim hætti.