11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Það er talað um fá störf bundin við stóriðju og að það beri ekki að harma. Kannske yrðum við öll fegin ef ein manneskja gæti aflað Íslandi þeirra verðmæta sem nægðu til að við gætum öll lifað mannsæmandi lífi í landinu. Það er þó ekki aðalatriðið. Það er talað um tilfinningaástæður, að tilfinningaástæður ráði afstöðu kvennalistakvenna til stóriðju. En ég vil bara biðja einhvern ykkar sem hér situr inni að sannfæra mig, enginn ykkar hefur getað sannfært mig um að þetta sé arðbær atvinnuvegur. Viljið þið gjöra svo vel að sýna mér fram á gróðann? Ef hann er ekki kominn, hvenær kemur hann? Því að auðvitað erum við að þessu af efnahagsástæðum. Og ég hlusta ekki á tilfinningaástæður og ég hlusta ekki á aðrar röksemdir fyrr en hægt er að sýna mér fram á það að þetta sé arðbær atvinnuvegur. Hann er það ekki fyrir okkur. Við erum að drukkna í erlendum skuldum. 52% af þeim eru vegna stóriðju.

Ég vil víkja að máli Halldórs Blöndals sem sagði að Sigríður Dúna, hv. 11. þm. Reykv., bæri ekki fyrir brjósti atvinnuástand á Norðurlandi vegna þess að hún vildi ekki álver þar. Það er ekki rétt. Ég bið hv. þm. að lesa þær spurningar sem þm. bar fram við hæstv. iðnrh. Ein spurninganna er einmitt um það hvaða aðrar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja atvinnuafkomu á Norðurlandi. Og það er kannske einmitt ein af ástæðunum fyrir því að verið er að bera fram þessa fsp.