11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það sýnir sig að mönnum er svo mikið niðri fyrir vegna þessa máls að gjarnan hefði mátt gefast kostur á að ræða það undir öðrum aðstæðum en í fsp.-tíma. Ég tók nú satt að segja ekki eftir því til hvers var vitnað af hálfu hv. 11. þm. Reykv., enda skiptir það ekki höfuðmáli, en í þeirri grein kom fram að stjórnmálamenn hefðu mjög stóriðjuflagg við hún.

Ég vil taka það fram að ég álít mig ekki vera stóriðjupostula. Ég hef sagt að minn hugur stendur ekki til að girða þetta land í málmgrýtisverksmiðjum. Það sem ég hef beint sjónum mínum að er stækkun álversins í Straumsvík, er kísilmálmverksmiðja við Reyðarfjörð, og um stærð hennar er þess að geta að það ætla menn að verði um 125 ársverk, allstórt fyrirtæki miðað við allar aðstæður að vísu, álverksmiðja við Eyjafjörð, allvænt fyrirtæki. Ég skal ekkert dæma um það hvort bætt verður við ofni í Hvalfirði, en þá er upptalið það sem ég leiði hugann að, a.m.k. á þessari öld og að ég hygg um alllanga framtíð. Og þetta vil ég kalla að séu aukastoðir sem við erum að skjóta undir efnahag okkar.

Ég er maður hinnar einu sönnu stóriðju, fiskiðnaðar og sjávarútvegs, á Íslandi og verð það áreiðanlega, og svo hinnar nýju stóriðju okkar sem er fiskrækt og mun vera mjög arðgæf, svo að ekki sé meira sagt, þar sem við gætum gert stórkostlegt átak og brauðfætt hálfa þjóðina á og munum væntanlega gera innan tíðar. (SV: Eigum við þá ekki að snúa okkur að því, ráðh.?) Við erum í tilhlaupi, en það er ýmislegt sem hefur orðið okkur að fótakefli í þeim efnum, líka fátæktar sakir.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. að menn hafa um of einblínt á orkuverðið sem löngum og löngum hefur verið mjög lágt og niðurgreitt, eins og það er kallað, þegar menn líta á hagsmuni okkar varðandi stóriðjuna. Það er áreiðanlega hægt að sýna fram á það hver hagur okkar hefur orðið af álverinu í Straumsvík ef allir þættir málsins eru lagðir saman, t.d. þeir að eigi alls fyrir löngu var talið að heildargreiðslur vegna álversins hefðu numið 14–15 milljörðum ísl. kr. á núvirði og nálega allt í gjaldeyri.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. varpaði fram fsp. til mín og það út af fyrir sig hefði gefið efni í nýjan fsp.-tíma. Hann spurði hvað hefði komið fram í sambandi við tímasetningar vegna hugsanlegrar byggingar álvers við Eyjafjörð. Ef öllu yrði til skila haldið, þá trúi ég að við gætum í fyrsta lagi ætlað að það tæki til starfa eftir 10 ár eða svo. Erfitt er um það að dæma, en varla fyrr, þótt ýtt yrði úr vör með samninga alveg á næstunni. Ég hef ekki trú á því. Þar við bætist, og hér ítreka ég það sem ég sagði áður, að hér er um könnunarviðræður að tefla og enn sem komið er er ekkert handbært í þessum sökum.

Hann spurði í öðru lagi hver áhrif samningarnir, hinir nýju, við ÍSAL mundu hafa á slíkar viðræður eða samningaumleitanir og eins fyrirhuguð stækkun álversins. Þessu get ég alls ekki svarað. Ég kann ekki að meta það enn sem komið er. Samningarnir eru það tiltölulega nýir að við höfum ekki átt neinar könnunarviðræður að marki í kjölfar þeirra sem gætu gefið okkur vísbendingu um hvaða áhrif þessir nýju samningar kynnu að hafa.

Hv. þm. spurði enn fremur um eignarhlutföll í slíku fyrirtæki. Frá minni hálfu er því auðsvarað að ég vil helst ekkert eiga í slíku fyrirtæki. Og ef til kemur, þá bind ég vonir við það að við tökum ekki áhættu af rekstri slíks fyrirtækis. Hins vegar er það líka kunnugt að samstarfsflokkur Sjálfstfl. er annarrar skoðunar að þessu leyti. Hann hefur rætt um hina virku aðild að slíkum fyrirtækjum, þar sem hann á við að stjórnaraðild og önnur aðild að rekstri fyrirtækis yrði með þeim hætti að menn ættu auðveldara um vik að fylgjast með öllum þáttum þess, auðveldara en menn vilja meina að hafi orðið fram að þessu. Ég vil ekkert orðfæra fleira í þessu sambandi þar um, en mín skoðun er óbreytt að þessu leyti. Og það er mikill misskilningur, sem kom upp hjá Alþfl. þegar þeir voru að narra fyrrv. formann inn á andstöðu við nýju álsamningana í Straumsvík, að það hafi verið tekin einhver ný aukin áhætta í sambandi við rekstur ÍSALs, þótt við höfum samið um viðmiðun við álverð í heiminum, sem var gert til þess þó að eiga von í því með hækkandi álverði að fá meiri afrakstur eða hærra verð fyrir orkusölu okkar fyrst og fremst. Eins og ég sagði við þær umr. þá hefðum við getað samið um e.t.v. örlítið hærra verð fyrir orkuna án allrar viðmiðunar, en auðvitað kom ekkert annað til greina en að taka hinn kostinn.

Ég verð að fara hratt yfir sögu því að tíminn er naumur. Hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, sagði að fólk um Eyjafjarðarbyggðir hafnaði hugmynd um álver á þeim forsendum að ekki væri um marktækar rannsóknir að tefla. Ég kann nú ekki svör við þessu í skyndingu, en ég veit ekki í hvaða færum fólk er nú, enn sem komið er, að dæma um hvort hér er um marktækar rannsóknir að ræða eða ekki. Auðvitað er það undirstöðuatriði að menn geti fært fram nægjanlega föst rök með því að um marktækar rannsóknir sé að tefla. Ég veit ekki satt að segja hvar við verðum staddir í þessu ef menn að ófyrirsynju hafna slíku á þeim forsendum að allar rannsóknir séu einskis virði. Málin eru ekki komin það langt að hægt sé kveða neinn slíkan dóm upp.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um Húsavíkursvæðið. Þá vil ég geta þess að ég hef nýverið skrifað bréf til staðarvalsnefndar og falið henni að ljúka botnrannsóknum við Húsavík við Skjálfanda. Ýmsar aðrar rannsóknir hafa þar verið framkvæmdar, en þessi rannsókn gæti valdið úrslitum um hvort hægt er að svara því beinlínis, ja, neitandi hvort áliðjuver kæmi þar til greina á annað borð. Það er talið að það kosti 500 þús. kr. Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins hafði samþykkt að heimila forstjóra stofnunarinnar að verja 1/2 millj. kr. til rannsókna staðarvalsnefndar og nú hefur verið tekin ákvörðun um að grípa til þess fjár. Verða rannsóknirnar nú framkvæmdar og mun ljúka innan skamms, þessar botnrannsóknir og aðrar þær rannsóknir sem taldar eru nauðsynlegar til þess að geta kveðið upp úr um það hvort hugsanlegt er að þar rísi áliðjuver til að mynda eða stóriðjufyrirtæki. Ef þær rannsóknir á botni og öðrum aðstæðum reynast jákvæðar mundi að sjálfsögðu þurfa áframhaldandi og viðameiri rannsóknir til þess að geta tekið lokaákvarðanir.

Hv. 5. þm. Austurl. undraðist að ekki skyldi koma fram í mínu svari stofnun atvinnumálanefndarinnar á sínum tíma og þær athuganir sem hún gerði. Það er ekki öllu hægt að koma fyrir í örstuttu svari. Skýrsla hennar er opinbert plagg og mönnum kunnug. Atvinnumálanefndir eru starfandi víða um land svo að hér var að sínu leyti ekki nein sérstök ástæða, fyrir utan þá að hann hafi skipað nefndina, til að láta þess getið, nema eins og ég segi að ágætt starf var unnið þarna. En eins og kom fram í svari mínu er ekkert sérstakt af slíku að frétta, um eflingu iðnaðar við Eyjafjörð, umfram það sem víða er annars staðar í landinu. Ég held mér við það svar.

Ég held að ég hafi nú farið yfir það helsta sem fram kom í umr. um þessa fsp. En eins og ég segi, það er greinilegt að menn hafa mikinn áhuga á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og væri betur að okkur gæfist betri kostur undir öðrum kringumstæðum að ræða þetta mál. Ég ítreka það vegna þessara hugmynda um áliðjuver við Eyjafjörð að allar slíkar rannsóknir eru á frumstigi og ég legg megináherslu á að aldrei verði að neinu hrapað í því sambandi.