11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að lofa mér að gera örstutta aths. þar sem ég er búin með ræðutíma minn hér. Ég vil aðeins vekja athygli á því, sem fram kom í máli ráðh. hér síðast, að ef farið verður út í að reisa þetta álver við Eyjafjörð, þá getur það ekki risið fyrr en í fyrsta lagi eftir 10 ár. Þar með þykir mér sem það sé skjalfest í Alþingistíðindum að þetta fyrirtæki, þessi stóriðja er ekki reist með það í huga að leysa þann atvinnuvanda sem nú er á Eyjafjarðarsvæðinu. Og þá er spurningin: Eru menn þá að hugsa um það að hún sé arðbær, að hún skapi þjóðarauð? Hv. þm. Halldór Blöndal kom hér og talaði um gjaldeyristekjur, sem hafa má af álbræðslum, og minntist þar á álbræðsluna í Straumsvík. Já, gjaldeyristekjur, en þær eru ekki gróði fyrr en búið er að draga frá kostnaðinn sem felst í því að koma þessu öllu saman á laggirnar. Ef hv. þm. vill leggja fram fyrir mig kostnaðar- og tekjureikninga samhliða, þá er ég tilbúin til að skoða þá.