11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

161. mál, atvinnumál fatlaðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Í tíð fyrrverandi félmrh. urðu mikil tíðindi í málefnum fatlaðra, fyrst með lögum um málefni þroskaheftra og síðar með lögum um málefni fatlaðra. Ég dreg ekki í efa að núverandi hæstv. félmrh. er fullur góðs vilja í garð fatlaðra, eins og flestir aðrir hv. þm. hér inni, en ég held að hérna verðum við að horfast í augu við staðreyndir. Eftir stendur að fyrir þessu þingi liggur fjárlagafrv. þar sem framlög til málefna fatlaðra, Framkvæmdasjóðs fatlaðra, eru skorin niður um u.þ.b. 100 millj. kr. frá ákvæðum laganna. Sú mikla uppbygging sem hafin var hlýtur að tefjast verulega. Það er sorglegt að vita til þess því að í húsnæðismálum, sérkennslumálum, atvinnumálum o.fl. málum eru fatlaðir afar illa settir.

Það er gott að vita að haldin verður ráðstefna um málið og sjálfsagt er að gera könnun ef menn hafa gaman af því. Ég held þó satt að segja að það þurfi ekki mjög mikið að kanna þessi mál. Það eru æðimargir í þessu landi, og m.a. s. margir hv. þm. hér inni, sem vita heilmikið um hvar skórinn kreppir hjá þessu fólki.

Tími minn er örstuttur. Ég vil þó vekja athygli á ákvæðum 24. gr., eins og hv, þm. Geir Gunnarsson hefur þegar gert. En ég vil aðeins bæta við að þrátt fyrir þau ákvæði laganna um að fatlaðir skuli ganga fyrir um störf að öðru jöfnu hjá hinu opinbera hefur Haukur Þórðarson yfirlæknir á Reykjalundi margsinnis sagt, bæði í fjölmiðlum, ræðu og riti, að það sé mun verra fyrir fatlaða að fá vinnu hjá því opinbera en einkafyrirtækjum. Ég hlýt af reynslu við þessi störf að taka undir það og staðfesta það. Það er mun betra að eiga við atvinnufyrirtæki í einkarekstri en það opinbera. Hæstv. ráðh. getur gert nokkuð við þessu. Hæstv. ráðh. getur einfaldlega skrifað bréf til opinberra stofnana eina ferðina enn, en það hafa margir gert áður, m.a. minnist ég þess að fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík gerði það einnig, og gert stjórnendum þessara fyrirtækja skiljanlegt að þarna beri þeim að fara að lögum. Hæstv. félmrh. skal hafa alla mína samúð. Það hefur lítinn árangur borið hingað til að skrifa þessum forstöðumönnum stofnana.

Ég þakka fyrir þessa fsp. sem sannarlega er ekki komin til að ástæðulausu. Það er alveg ljóst, ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu og auðvitað víða úti um land, að atvinnumál fatlaðra eru því miður í sorglegum ólestri og væri svo sannarlega þörf að bæta úr því. En ég skil ekki alveg fullyrðingar hæstv. ráðh. sem segir, um leið og hann hefur fyrir framan sig fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir, að unnið verði að uppbyggingu verndaðra vinnustaða. Til þess eru ekki peningar í þessu frv.