11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

169. mál, yfirtaka Landsvirkunar á Kröfluvirkjun

Ragnar Arnalds:

Umræður um fjármál Kröfluvirkjunar og framtíðarrekstur í fjölmiðlum og meðal margra stjórnmálamanna hafa vægast sagt verið harla yfir borðskenndar og í mörgum tilvikum mjög óábyrgar nú í seinni tíð. Það er orðin tíska að tala um að rekstur Kröfluvirkjunar sé óleysanlegt vandamál og að þar sé bersýnilega um að ræða skuldabyrði mikla, sem óhjákvæmilega lendi á orkunotendum, ellegar að menn stinga upp á að þessi byrði lendi á skattgreiðendum. Jafnvel hafa heyrst í blöðum lausafréttir um það að forstöðumenn Landsvirkjunar hefðu hug á því að kaupa þessa virkjun fyrir lítið fé og reka hana sem nokkurs konar toppstöð í sínu kerfi, en skilja ríkið eftir með stóran hluta af skuldasúpunni.

Það gefst auðvitað betra tækifæri til að rannsaka svör hæstv. iðnrh. þegar maður fær þau á prenti og ekki hægt að taka þau til umr. hér í fsp.-tíma. En ég tel að svör þau, sem fengust við spurningum nr. 3, 7 og 8, hafi öll verið þess eðlis að þau bendi til talsvert annars sannleika en hefur verið hafður uppi manna á meðal í seinni tíð um málefni Kröfluvirkjunar.

Það er skoðun mín að skýrsla sú, sem vitnað var í frá verktakafyrirtækinu streng hf. sýni það að Kröfluvirkjun getur staðið undir öllum sínum skuldbindingum jafnvel þótt hún verði ekki stækkuð. Það mun taka alllangan tíma, en að lokum mun hún geta borgað allar sínar skuldir skv. þeim útreikningum. Og ef um yrði að ræða að virkjunin yrði stækkuð í 60 mw. gæti hún örugglega staðið við að greiða niður allar sínar skuldir. Þetta kom reyndar einnig fram í svörum hæstv. ráðh. hér áðan og var aðeins staðfesting á því sem áður hafði komið fram í skýrslu fyrirtækisins Strengs sem sérstaklega var falið að rannsaka þessi mál.

Ég vil því aðeins segja það að lokum að ég held að það sé mjög fjarstæðukennt að láta sér detta í hug að þessi virkjun verði seld Landsvirkjun með þeim hætti að ríkið borgi með virkjuninni eða taki á sig að verulegum hluta skuldir sem á virkjuninni hvíla. Ég tek undir orð ráðh. sem hann gerði að sínum lokaorðum: Þá má það ekki verða.